Í pistli sínum á mánudag sagði hún elítuna hampa Katrínu Jakobsdóttur og velti fyrir sér hvort Katrín sameinaði frekar þá voldugu frekar en þjóðina. Grein Auðar vakti mikla athygli og voru margir sem tóku undir orð hennar. Aðrir gagnrýndu pistilinn, til dæmis listamaðurinn Ragnar Kjartansson og stjórnmálafræðingurinn Birgir Hermannsson. Þá flutti Berglind Rós Magnúsdóttir félagsfræðingur pistil í Lestinni á Rás 1 í gær sem vakti talsverða athygli.
Auður segir frá því í Facebook-færslu í gærkvöldi að sem blaðamaður og rithöfundur hafi hún þá einu köllun að reyna eftir bestu getu að greina rétt frá röngu og stundum geti það verið flókið í samspili við félagsleg tengsl.
„En ef maður gerir það ekki er maður að svíkja eitthvað sem er stærra en maður sjálfur. Félagslegt mobility er thing á Íslandi. En þetta snýst ekki um hvort afi þinn, fæddur 1902, var nóbelsskáld eða amma þín fiskverkakona heldur misskiptingu valds og aðstöðumun í samfélaginu í dag, hér og nú. Mér er annt um lýðræðið og það er mergurinn málsins.“
Auður snýr svo að viðbrögðunum við grein hennar.
„Ég skrifaði grein um hvernig félagslegt hunang getur eytt heilbrigðum skoðanaskiptum og framgangi lýðræðisins á sem heilbrigðastan hátt. Undanfarna daga hef ég fundið andardrátt valdsins ofan í hálsmálið. Innan við sólarhring eftir að ég birti skoðanapistilinn var stjórnmálafræðingur (en eiginkona hans styður sýnilega ákaft KJ á fb) búinn að skrifa grein um vandlætingu mína í Heimildina og hinn heimsfrægi listamaður, Ragnar Kjartansson, búinn að flissa yfir sig í blaðagrein og setja mig á minn stað. Hvorugt snerti við mér,“ segir Auður sem virðist hafa sárnað að heyra pistil Berglindar í Lestinni í gær.
„En þegar ein af mínum nánustu og elstu vinkonum, sem er jafnframt vinkona Katrínar J. og starfaði áður sem aðstoðarmaður hennar, mætir í útvarpsþátt á RÚV, sem álitsgjafi í krafti stöðu sinnar sem prófessor á menntavísindasviði HÍ og notar persónulegar minningar úr okkar vináttu til áhersluauka í pistli til að smætta málflutning minn niður í einhvern pervers júdasargjörning mótíveraðan af kvenfyrirlitningu, þá bara hæ Styrmir! Hvað sagðirðu aftur um íslenskt samfélag! Elíta og allt það eða ekki,“ segir Auður.
Í pistli sínum í Lestinni rifjaði Berglind upp að Auður hafi einmitt verið sú sem kenndi henni að „trana sér fram“ án þess að skammast sín fyrir það á menntaskólaárunum.
Bætti Berglind við: „Konur í efstu lögum samfélagsins eru á margan frjálsari en aðrar konur, hafa rödd og áhrif, en kynjakerfið eltir okkur uppi og nær okkur á endanum oft með hjálp þeirra sem þurfa að sýna fram á siðferðislega yfirburði sína eða vera siðferðislega á réttum stað í augum samferðafólks,“ sagði Berglind sem vísaði svo í orð heimspekingsins John Stuart Mill sem var uppi á 19. öld en hann sagði:
„Tilfinningar vorar til hinnar misjöfnu stöðu karla og kvenna eru rótgrónari en allar aðrar tilfinningar sem geyma og vernda venjur fortíðarinnar. Það er því eigi að furða þótt þær séu öflugastar af öllum og hafi varist best gegn andlegum byltingum sem orðið hafa í mannfélaginu á seinni tímum.“
Sagði Berglind að þessar aldagömlu hugmyndir sem Mill vísaði til sköpuðu óraunhæfar og kynjaðar kröfur til kvenna og myndu skaða þær sem leiðtoga.
„Við skulum ekki missa sjónar á einstökum leiðtogahæfileikum og hugrekki kvenna á hinum karlægu vettvöngum og vörumst að lenda inni í ríkjandi hugsunarhætti þótt við séum ekki og verðum aldrei sammála því sem kona tekur sér fyrir hendur,“ sagði Berglind í lok pistilsins.
Auður sagðist í pistlinum vilja undirstrika að hún er bara blankur blaðamaður og rithöfundur að reyna að greina samtímann eftir bestu getu og þá fyrrverandi forsætisráðherra sem hætti snöggt til að fara í framboð sem forseti.
„Hér eru engir hagsmunir, nema síður sé. Ég er að missa nokkra af mínum elstu og bestu æskuvinum – sem einhverjir deila nú elítupistli Ragnars eða mæta með lærðar ritgerðir um mig á RÚV – af því að samvisku minnar vegna fannst mér ég ekki geta lifað með mér nema benda á hið augljósa: Að félagshunang er að smætta álitaatriði sem varða opinbera umræðu og heilbrigt fúnkerandi lýðræði. Eins og vinkona mín, boldangs rithöfundur, sagði í síma í gær: Þetta er ástæðan fyrir því að rithöfundar eru farnir að þegja. Eitt sinn var ætlast til af þeim að ögra. Núna eiga þeir að vera stofustáss. Og ps. ég er líka kvenkyns.“