Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir segir að Baldur Þórhallsson hafi sagt henni frá yfirgangi samstarfsfólks Katrínar Jakobsdóttur í lok marsmánaðar. Baldur hefur nýlega greint frá því að samstarfsfólk Katrínar hafi reynt að fá hann til þess að draga forsetaframboð sitt til baka.
Steinunn greinir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlum. Eftir að Baldur greindi frá þessu í pallborðsumræðum hjá Heimildinni fór Steinunn og fletti í gegnum spjall þeirra tveggja. En þau tvö eru vinir sem og Felix Bergsson sem er einnig samstarfsfélagi Steinunnar.
„Baldur var þá nokkru áður farinn af stað í kosningabaráttu með glæsibrag. Þá hafði verið um nokkurt skeið í hámæli sá orðrómur að KJ [Katrín Jakobsdóttir] ætlaði sér að að rölta yfir í forsetaembættið,“ segir Steinunn. „Ég hafði einnig fengið veður af því að það ætti að reyna að sverta mannorð Baldurs sökum kynhneigðar hans! Það kom á daginn! Ég hafði einnig vissu fyrir því að planið væri að BB [Bjarni Benediktsson] færi í forsætisráðherrastólinn til að keyra í gegn þau þjófræðisfrumvörp sem biðu í launsátri þjóðinni til handa. Það kom á daginn!“
Staðfestir hún orð Baldurs um samstarfsfólk Katrínar. Þessi þrýstingur hafi komið Baldri að óvörum.
„Baldur sagði mér þá af yfirgangi samstarfsfólks KJ sem hann nú deilir með okkur öllum. Baldur var forviða og skekinn,“ segir Steinunn og þakkar Baldri fyrir að segja frá þessu. Þjóðin heimtar sannleikann upp á borðið, ekki af öfundsýki eða hefnigirnd, heldur til þess að við getum einhverntíman sameinast um að uppræta þann ófögnuð sem Íslendingar búa við af þeim sem eiga og ráða í okkar landi.“