fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 26. apríl 2024 11:51

Viktor Traustason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein af óvæntari tíðindum forsetakapphlaupsins til Bessastaða áttu sér stað fyrr í dag þegar Viktor Traustson, 35 ára hagfræðingur, gaf sig fram við Landskjörstjórn og skilaði inn lista með 1.500 meðmælendum.

Ekkert hefur verið fjallað um framboð Viktors og hefur hann ekki auglýst framboð sitt hvorki í fjölmiðlum né á samfélagsmiðlum. Í samtali við DV segir hann að það hafi verið með ráðum gert og hann hafi ekki viljað veita viðtöl fyrir en meðmælin væru í höfn og hann hefði náð tilsettum aldri, en Viktor fagnaði 35 ára afmæli sínu þann 10. apríl síðastliðinn.

„Ég hefði eflaust neitað þessu viðtali þar til allt væri í höfn en fjölmiðlar sátu fyrir frambjóðendum í Hörpu. Ég vildi því ekki skilja ykkur út undan,” segir Viktor.

Vildi klára meðmælin fyrst

Hann hafi verið harðákveðin í því að draga ekki að sér athygli fyrr en undirskriftirnar væru komnar. „Það eru rosalega margir sem lýsa yfir stórum hlutum en ég vildi klára undirskriftirnar áður en ég færi að tala um að ég væri í framboði því það er ekki orðið formlegt fyrr en þá,” segir Viktor.

Hann fór því öfuga leið en flestir sem að reyna að vekja athygli á sér sem mest og vona svo að meðmælin skili sér. Aðspurður um það segir Viktor: „Þá vil ég bara meina að mín meðmæli séu meira verðskulduð“

Að eigin sögn felst kostnaðurinn við framboðið, hingað til, aðeins í bensínpeningum og sjoppusamlokum auk náttúrulega tíma hans, en hann fór hringferð um landið á dögunum til að næla sér í meðmælendur úr öllum landshlutum, eins og reglur kveða á um.

Hann safnaði meðmælendununum með gamla laginu. Hitti á fólk, augliti til auglitis. „Ég þróaði með mér ákveðna rútínu til þess að gera þetta sem auðveldast fyrir taugakerfið mitt. Ég bauð fólki góðan dag eða kvöld, baðst afsökunnar á ónæðinu og sagðist vera að safna undirskriftum til embættis forseta Íslands, mynduð þið vilja vera svo væn að aðstoða mig,” segir Viktor.

Eins og gengur hafi sumir hafnað því, og hann haft fullan skilning á því, en aðrir hafi verið forvitnir um stefnumál hans, sem eru þrjú talsins. „Og það var bara tekið svo helvíti vel í það,“ segir Viktor.

Stefnumálin eru eftirfarandi:

1. Að þingmenn fái ekki að vera ráðherrar – ekki tvær valdastöður á sama einstakling
2. Ef 10% þjóðarinnar mótmæli tilteknum lögum þá vísi hann málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá séu það ekki geðþóttaákvarðanir hans sem að ra´ði för.
3. Að týndu þingsætin verði metin. Það er að segja að allur sá hópur sem mætir á kjörstað, fær kjörseðill, fer í kjörklefa, setur í kjörkassann og fá síðan ekki fulltrúa á Alþingi því flokkarnir nái ekki 5% lágmarkinu, fái sín þingsæti og verði talin saman.

Viktor hitti kjósendur augliti til auglitis

Má ekki við mörgum ógildum undirskriftum

Eins og áður segir er Viktor hagfræðingur að mennt. Hann lauk grunnnámi við Háskóla Íslands og fór síðan í framhaldsnám til Kaupmannahafnar. Hann segist vera á milli starfa í dag og geti hafi því getað einbeitt sér að framboðinu. „Ég er ekki landsþekktur og ég veit ekki hvort að það geri fólk endilega hæft í embættið. Né að einhver ákveðin ferilskrá geri fólk hæft“.

Að sögn Viktors þá er fjöldi meðmælanda hjá honum í tæpara lagi. Hann hafi eitthvað borð fyrir báru á höfuðborgarsvæðinu en í Norðlendingafjórðungi sé hann til að mynda nánast á sléttu.

„Ég get lofað því að alls ekki allar undirskriftirnar mínar verði teknar gildar. En ég vona að þetta gangi bara í gegn,“ segir Viktor.

Hann segir að spennufallið hjá sér sé búið. Það sé sigur í sjálfu sér að hafa náð að skila inn meðmælendaskránni og núna sé framhaldið ekki í hans höndum. „Stefnumálum mínum hefur verið komið á framfæri og mig grunar að það hafi óafturkræfar afleiðingar,“ segir Viktor.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við