fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Stafræna stríðið í borgarstjórn harðnar – Starfsandinn sagður í molum út af fyrirspurnaflóði og meirihlutinn sakaður um að vaða áfram í blindni

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 9. apríl 2024 10:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi borgarstjórnar í dag mun Flokkur fólksins leggja til að óháður aðili utan borgarkerfis verði fenginn til að gera allsherjar úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Úttekt hafi það fyrir augum að hagræða og meta hvaða þáttum starfseminnar væru betur útvistað til sérfræðinga á einkamarkað.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, vekur athygli á tillögunni á Facebook í gærkvöldi. Hún segir að um býsna erfitt mál sé að ræða. Ljóst sé að framkvæmd stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar hafi hingað til ekki skilað því sem þeim var ætlað í upphafi. Nú þegar fjárfestingaátaki borgarinnar í stafrænni umbreytingu sé að ljúka sé rétt og eðlilegt að borgarbúar fái úr því skorið hvort verið sé að fara með skattpeninga þeirra á skynsaman máta.

Það er þekkt staðreynd í fræðum stafrænnar umbreytingar að slík verkefni mistakast í um 70 prósent tilvika, þegar horft er til opinberrar starfsemi. Jafnvel hafa rannsóknir frá fræðimönnum, greiningaraðilum og ráðgjöfum bent til þess að í 70-95 prósent tilvika mistakist stafrænum umbreytingarverkefnum að ná upphaflegum markmiðum sínum.

Stríð um stafræn verkefni

Þjónustu- og nýsköpunarsvið var stofnað í kringum stafræna umbreytingu á þjónustu borgarinnar, fjárfestingaverkefni sem meirihluti borgarstjórnar ákvað sumarið 2021 að verja 10 milljörðum í næstu þrjú árin. Því fjárfestingaátaki er nú að ljúka.

Flokkur fólksins hefur gengið hart fram gegn sviðinu í fyrirspurnum í hinum ýmsu ráðum og nefndum borgarinnar, og þykir greinilega nóg um. Á fundi forsætisnefndar borgarinnar í gær var rætt um fyrirspurnaflóðið. Tekið var fyrir bréf frá þjónustu- og nýsköpunarsviði og í kjölfarið lagði meirihlutinn fram bókun þar sem sagði að þó fyrirspurnir væru órjúfanlegur þáttur af lýðræðislegu hlutverki borgarfulltrúa þá væri greinilega hægt að misbeita þeim.

„Þó verður ekki orða bundist með það að fjöldi og umfang fyrirspurna sem beinst hafa sérstaklega að sviði þjónustu- og nýsköpunar hefur skapað mikið álag og kallað á mikla vinnu við svörun sem hefur haft veruleg áhrif á eðlilega starfsemi. Þetta gildir sérstaklega þegar um miklar endurtekningar er að ræða. Eins hefur orðalag fyrirspurna og eftir atvikum dylgjur um fagmennsku eða heiðarleika starfsfólks haft mælanleg áhrif bæði á starfsanda á sviðinu og möguleika borgarinnar til að ráða starfsfólk. Þegar fyrirspurnum er misbeitt með þessum hætti veikir það þær sem aðhaldsverkfæri og þegar fjöldi þeirra er eins mikill og raun ber vitni, án þess að svo virðist sem svör séu lesin eða tekið mark á þeim og sömu eða svipaðar fyrirspurnir sendar inn ítrekað, rýrir það vægi þeirra. Forsætisnefnd bendir fagráðum og nefndum borgarinnar á þann möguleika að biðja um greiningu á fjölda fyrirspurna endurtekningar og kostnaði sem fylgir vinnslu þeirra.“

Einar Sveinbjörn Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Flokks fólksins, sat fundinn og lagði fram gagnbókun þar sem hann furðaði sig á svörum meirihlutans. Ekki sé við Flokk fólksins að sakast að fyrirspurnum sé ekki alltaf svarað innan æskilegs tíma, en slíkt valdi því að þær safnist fyrir. Einar tók fram að þó svo að borgin hafi stofnað Stafrænt ráð til að hafa eftirlit með stafrænum verkefnum borgarinnar þá sé aðhaldið í raun ekkert.

„Stafrænt ráð virkar í raun sem eins konar „gamaldags stimpil skrifstofa“ sem stimplar áfram allar þær fjárheimildarbeiðnir sem sviðið sækir um hverju sinni gagnrýnislaust. Stafrænt ráð hefur sem dæmi engan verkefnalista í sínum fórum þar sem skráð eru öll verkefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem hafa verið samþykkt frá stofnun sviðsins – ásamt því hversu miklum fjármunum var veitt í hvert verkefni fyrir sig, hver staða hvers verkefnis er og svo heildarkostnaður. Þess vegna veit ráðið í raun ekkert hversu miklum fjármunum sviðið hefur eytt í þau verkefni sem samþykkt hafa verið frá stofnun sviðsins.“

Ytri endurskoðun gerði athugasemdir

Flokkur fólksins hefur meðal annars sent inn fyrirspurnir sem miða að því að varpa ljósi á hvernig kostnaður þjónustu- og nýsköpunarráðs er bókfærður í bókhaldi borgarinnar. Sem dæmi má nefna að kostnaður sem fram kemur í opnum fjármálum Reykjavíkur gefa ekki rétta mynd. Kostnaður vegna verkefna, þar með talið launakostnaður, er í miklum mæli gjaldfærður á eignasjóð, þá með vísan til þróunarkostnaðar. Til að eignfæra þróunarkostnað þar þó að liggja fyrir að verkefni sé komið það vel á leið að það geti skilað tekjum, hagræði eða með öðru komið eiganda að gagni, innan tíðar. Ytri endurskoðandi borgarinnar hefur við yfirferð ársreikning borgarinnar gert athugasemd við þann kostnað sem Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur bókað á eignasjóð, en ekki er ljóst í hverju þessar athugasemdir fólust. Í glærum ytri endurskoðunar um endurskoðunarskýrslu 2022 segir:

„Óefnislegar eignir A-hluta samanstanda af eignfærðum kostnaði við hugbúnað og þróunarverkefna í upplýsingatækni. Eignfærðar voru 2.3 ma.kr vegna þróunarverkefna á Þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON) á árinu 2022 (2021: 1,2 ma.kr). Stærsti hluti eignfærslu er launakostnaður starfsmanna borgarinnar.

Mikilvægt er að eignfærsla slíkra þróunarverkefna uppfylli kröfur ársreikningalaga og settra reikningsskilareglna. Þær reglur fela meðal annars í sér að þróunarverkefni þurfa að vera nægilega afmörkuð og ávinningur þeirra óumdeildur til að teljast hæf til eignfærslu.

Við höfum yfirfarið ferli við eignfærslu þróunarverkefna og staðfest eignfærslur þeirra með úrtaksprófum. Við höfum einnig yfirfarið forsendum um líftíma eigna.

Við höfum komið nokkrum ábendingum til stjórnenda um það sem við teljum betur mætti fara við eignfærslu þróunarverkefna til að tryggja samkvæmni við reikningsskilareglur“

Kostnaður lendir líka á öðrum sviðum

Eins lendir kostnaður á öðrum sviðum borgarinnar sem greiða milligjald til ÞON fyrir afnot af hugbúnaði eða fyrir þjónustusviðsins. Það bókast á sviðið sem tekjur en á önnur svið sem kostnaður. Heimildir blaðamanns herma að í sumum tilfellum hafi önnur svið lent í því að fá mun hærri rukkun frá ÞON en lagt var út með, og eins hafi stundum fengist þau störf að ÞON bæti 15 prósentum ofan á gjaldið sem þau rukka til að eyrnamerkja framtíðarverkefnum.

Flokkur fólksins er ekki eini flokkurinn úr minnihlutanum sem vill vita hvort skattpeningum sé varið skynsamlega hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði. Á fundi borgarstjórnar í byrjun mars kallaði Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, eftir óháðir úttekt á starfsemi sviðsins. Meirihlutinn hafnað því að einu sinni taka tillöguna fyrir.

Blaðamaður hefur sent ítarlega fyrirspurn á borgina um málefni ÞON, þar með talið um reglur sem varða þróunarkostnað og heimildir til að færa kostnað á eignasjóð. Þrjár vikur eru síðan fyrirspurnin var send en svör hafa enn ekki borist. Samkvæmt upplýsingalögum er frestur vegna afgreiðslu upplýsingabeiðni 20 dagar.

_____________________

Veistu meira um málið? DV tekur sem við ábendingum á ritstjorn@dv.is. Fullum trúnaði heitið. Eins er hægt að senda okkur fréttaskot
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu
Fréttir
Í gær

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Í gær

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu
Fréttir
Í gær

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“