fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Sakfelldur fyrir að ráðast á barn sem hann sagði vera að leggja son hans í einelti

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 3. apríl 2024 15:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt mann fyrir að hafa ráðist á níu ára gamlan dreng en maðurinn sagði drenginn hafa verið að leggja son hans í einelti. Það kemur ekki fram í dómnum í hvaða sveitarfélagi þetta átti sér stað en það var embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum sem lagði ákæruna fram.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi verið ákærður fyrir barnaverndarlagabrot með því að hafa sumarið 2022 sýnt ógnandi tilburði og yfirgang gagnvart drengnum með því að hafa tekið harkalega í hann, reist hann við, haldið fast í vinstri hönd hans, leitt hann með sér, ýtt með honum og staðið ógnandi yfir honum og skammað hann í kjölfar þess að drengurinn losaði sig. Því næst tekið fast í hægri hönd drengsins, haldið hægri hönd hans fastri aftur fyrir bak, leitt hann þannig af stað og haldið fast og togað í hann þegar hann reyndi að losa sig frá manninum þar til hann reif sig lausan, allt með þeim afleiðingum að drengurinn varð mjög hræddur og óttasleginn. Með háttsemi sinni hafi maðurinn sýnt drengnum yfirgang, ruddalegt athæfi og með ógnandi tilburðum og annarri vanvirðandi háttsemi, sært og móðgað hann.

Upptaka varpaði skýrara ljósi á málið

Um málsatvik segir í dómnum að móðir drengsins hafi tilkynnt um að hann hefði orðið fyrir árás. Drengurinn sagði lögreglumönnum að hann hefði verið að leika sér ásamt bróður sínum og syni mannsins, sem hann hafi ýtt. Hann sagði að sonur mannsins hafi þá hringt í föður sinn sem hafi komið á staðinn og tekið hann hálstaki og snúið hann niður.

Maðurinn tjáði lögreglumönnum að hann hefði komið á staðinn eftir að sonur hans hefði tilkynnt honum að drengurinn væri að stríða sér og ýta. Maðurinn sagðist hafa haldið drengnum föstum með því að halda í aðra öxl hans og handlegg og sagt honum að hætta að leggja son sinn í einelti. Hann viðurkenndi að hafa haldið drengnum föstum við jörðina í skamma stund.

Þar sem engir sjáanlegir áverkar voru á drengnum tilkynnti móðir hans lögreglu að hún myndi ekki leggja fram kæru.

Í febrúar 2023 barst lögreglu hins vegar myndbandsupptaka af atvikinu úr öryggismyndavél.

Samskipti mannsins og drengsins náðust ekki öll á upptökuna en í dómnum segir að í myndbandinu sjáist maðurinn taka í handlegg drengsins og draga hann burt. Drengurinn hafi komist frá honum en maðurinn náð honum aftur með því að grípa í öxl hans og hafi þjarmað að honum með ógnandi tilburðum. Hann hafi dregið drenginn með sér í tvö önnur skipti en drengurinn komist jafn harðann frá honum og á endanum hafi drengurinn yfirgefið svæðið á hlaupahjóli.

Vildi lítið segja

Í skýrslutöku hjá lögreglu í apríl 2023 neitaði maðurinn að mestu leyti að tjá sig um þann þátt málsins sem sneri að því að hann hefði tekið í drenginn og dregið hann með sér. Þó nokkur tengsl voru milli drengjanna áður en atvikið átti sér stað og sagðist maðurinn hafa sagt við drenginn að sonur hans ætti ekki skilið að hann sýndi honum slíka framkomu.

Sáttamiðlun var reynd í málinu en hún bar ekki árangur.

Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa óttast um öryggi sonar síns og verið að stöðva drenginn við að beita hann ofbeldi. Hann neitaði því að hafa haldið fast í drenginn en drengurinn hefði áður sýnt af sér ofbeldi. Í dómnum segir hins vegar að eini aðilinn sem sjáist beita ofbeldi á upptökunni sé maðurinn. Maðurinn sagðist enn fremur ekki geta skýrt þann hluta upptökunnar þar sem hann sást halda hönd drengsins fyrir aftan bak.

Móðir drengsins sagði fyrir dómi að drengurinn hefði komið heim eftir aðfarir mannsins í áfalli og verið búinn að pissa á sig af hræðslu. Vildi hún meina að aðdragandinn að atvikinu hafi verið sá að upp hafi komið ágreiningur milli drengjanna sem endað hafi með því að sonur hennar hafi gert eitthvað á hlut sonar mannsins.

Upptakan segi sína sögu

Í niðurstöðu dómsins segir að af upptökunni megi að ráða að maðurinn hafi verið í miklu uppnámi sem hann hafi sjálfur viðurkennt. Miðað við framburði drengsins, móður hans og mannsins sé ljóst að aðdragandi atvikisins hafi verið stríðni af hálfu drengsins í garð sonar mannsins. Hegðun drengsins réttlæti hins vegar ekki framkomu mannsins í hans garð. Misræmi hafi verið í framburði mannsins hjá lögreglu og framburði fyrir dómi.

Á upptökunni sjáist greinilega að maðurinn beiti drenginn valdi og sé mjög ógnandi og ruddalegur gagnvart honum.

Að mati Héraðsdóms Reykjaness er það mikill annmarki á rannsókn málsins að lögreglan hafi ekki hirt um að taka skýrslu af drengnum en þrátt fyrir að rannsókn málsins hafi verið ábótavant megi án nokkurs vafa ráða af upptökunni að maðurinn hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök.

Þar sem maðurinn hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi þótti hæfilegt að dæma hann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg