Erlendir starfsmenn í kvikmyndatökuliði voru reknir vegna illrar meðferðar á hestum og munu hverfa af landi brott. Frá þessu greinir Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamanna, í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Í hádeginu í dag [föstudag] fékk ég símtal þar sem mér var sagt frá meintri illri meðferð á hestum í kvikmyndaverkefni. Ég fór beint í það að kynna mér málið og hringdi í fjölda fólks î þeim tilgangi. Í framhaldinu sendi ég tilkynningu til MAST um málið og krafðist tafarlausra aðgerða, sem orðið var við,“ segir Guðni í færslunni en í kjölfarið fór boltinn að rúlla og síðar um daginn dró til tíðinda.
„Um kaffileytið skilst mér að búið hafi verið að stoppa starfsemina og rétt síðar fékk ég upplýsingar um að allir í hinu erlenda kvikmyndatökuliði sem tengdust málinu hafi verið reknir og muni hverfa af landi brott. Svona lagað má aldrei líðast og vona ég svo innilega að það fólk sem svona fer með skepnur verði dregið til ábyrgðar og fái ekki að halda áfram iðju sinni í öðrum löndum,“ segir Guðni. Slíkar aðgerðir séu þó ekki í hans höndum en aðalatriðið hafi verið að stoppa hina illu meðferð strax.
Í samtali við DV segir Guðni honum hafi sem manneskju, dýravini og ekki síst sem formanni LH, fundist mikilvægt að bregðast fljótt og hart við. „Ég er ánægður með að það tókst að stoppa þetta þó að það sé auðvitað ömurlegt að þetta hafi getað gerst. Það er líka ánægjulegt hvað eftirlitsaðilar hafi brugðist hratt við og stoppað þetta. Einnig er ég sáttur við að eigandi kvikmyndaverkefnisins hafi tekið þetta alvarlega og brugðist við. Allavega eftir að ég talaði við hann,“ segir Guðni.
Eins og áður segir munu erlendu starfsmennirnir halda af landi brott en Guðni hefur áhyggjur af því að þeir læri lítið af þessari reynslu.
„Eftir situr óbragð yfir því að þetta fólk vinnur við þetta um allan heim til fjölda ára, og mun væntanlega gera áfram,“ segir Guðni.
Í áðurnefndri færslu birti hann myndband sem honum barst af umræddum starfsmönnum en þar má sjá þá slá hesta, sem þeir sitja í ótilgreindu rými, ítrekað í höfuðið.