Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag og er haft eftir Ármanni að gosin fjögur á síðustu þremur mánuðum séu öll keimlík og að þau megi rekja til jarðhræringanna 10. og 11. nóvember á síðasta ári.
„Þessi atburðarás byrjar á því að jaðarinn á flekamótunum slitnar í nóvember og smám saman fer kvika að flæða inn í lítinn laggang undir Svartsengi. Þegar þrýstingurinn var orðinn nægur þar gat hann lyft blokkinni upp, sem losnaði í nóvember í jarðskjálftahrinunum, og kvikan skaust út, upp um þessa þekktu gossprungu,“ sagði hann og benti á að þetta muni endurtaka sig á meðan kvika flæðir inn í Svartsengi.
„En um leið og Eldvörpin ná að rifna geri ég ráð fyrir að eldvirknin færist þangað og þá verður auðveldara fyrir kvikuna að koma upp þar,“ sagði hann síðan.
Hann sagði að gögn sem Veðurstofan hefur birt sýni að ef gýs í Eldvörpum muni áhrifanna gæta sífellt meira til vesturs en takmarkist meira til austurs. Fyrir austan liggur aðalsprungan á flekamótunum um Sundhnúkagígaröðina. Þegar þetta gerist geta gosin varað lengur en síðustu gos að sögn Ármanns. Þá geti kvikan komið af meira dýpi og hætti að safnast upp í Svartsengi.