fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Gagnrýnir bjarnargreiða kjarasamninganna – „Mögulega er þarna á ferðinni meðvitaður stuðningur og niðurgreiðsla til eignafólks“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 16. mars 2024 12:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, gefur lítið fyrir ágæti fyrirhugaðrar hækkunar húsnæðisbóta og útséð að ekki verði um raunverulega kjarabót fyrir leigjendur að ræða, heldur sé í raun verið að koma enn meiri fjármunum í vasa leigusala. Hvetur Guðmundur launþega til að fella kjarasamningana.

Þetta kemur fram í grein sem birtist hjá Vísi í morgun.

„Nú er staðan svo alvarleg að leigjendur eru á sífelldum vergangi með börnin sín og búslóðir eða hýrast í hreysum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og brenna þar jafnvel lifandi,“ segir Guðmundur um ástandið á leigumarkað í dag.

Guðmundur rekur að núverandi húsnæðisbótakerfi var komið á í desember 2016 og við það tilefni hækkuðu bæturnar um allt að 11 þúsund krónur, eða 40 prósent. Þetta olli því að vísitala leiguverðs hækkaði á fimm árum um rúmlega 8 prósent, sem jafngildi árshækkun upp á tuttuguprósent.

„Það er mesta hækkun á húsaleigu frá upphafi mælinga á vísitölu leiguverðs. Áður en þessi hækkun tók gildi hafði heildarhækkun húsaleigu verið fimmtíu prósent frá árinu 2011 sem svarar til um það bil sjö prósent hækkunar að meðaltali á hverju ári.“

Næst voru bæturnar hækkaðar í janúar 2018 og aftur hækkaði húsaleiga, að þessu sinni um fimm prósent á fimm mánuðum eða jafngildi 12 prósenta á ársgrundvelli.

„Á því sama tímabili var árshækkun á fasteignaverði aðeins þrjú og hálft prósent. Hækkun húsaleigu var því næstum því fjórfalt meiri en hækkun á kaupverði fasteigna.“

Guðmundur rekur hvernig hækkanir á húsnæðisbótum hafi haft keðjuverkandi áhrif á leiguverð sem hafi hækkað upp úr öllu valdi jafnvel á tímum þar sem húsnæðisverð dróst saman. Húsaleiga hafi hækkað þrefalt meira en verðlag og endalaust meira en kaupverð fasteigna en þessar hækkanir fari á flug þegar húsnæðisbætur hækka.

„Það er því óumdeilanleg staðreynd, sem fjölmargir hafa bent á í gegnum árin að hækkun húsnæðisbóta ýtir eingöngu undir hækkun húsaleigu. Það sýnir sagan okkur svart á hvítu og því hafa margir mætir menn haldið fram í ræðu og riti og jafnvel þeir sem núna tjá sig værðarlega um að „engin merki séu um slíkt“.

Hækkun húsnæðisbóta á óregluvæddum leigumarkaði er því með sanni eitt af því heimskasta sem er hægt að taka sér fyrir hendur, að ekki sé talað um að reyna að pakka því inn í einhverja björg fyrir fólk í neyð. En mögulega er þarna á ferðinni meðvitaður stuðningur og niðurgreiðsla til eignafólks á meðal leigusala. Meginstefið í yfirlýsingum fulltrúa breiðfylkingarinnar var jú að bæta kjör þeirra sem eiga fasteignir.“

Guðmundur segir átakanlega sorglegt, en satt að hækkun húsaleigu undanfarið sé mun meiri í krónum talið en kjarabætur sem nú hefur verið samið um fyrir launþega á leigumarkað. Hann hvetur til þess að kjarasamningar verði felldir.

„Já, það getur verið flókið að eiga peninga á Íslandi, en hjálpi mér að það þurfi mennskt blóðmerahald á leigumarkaði til að auðvelda fjármagnselítunni að sjúga tóruna úr leigjendum. Fjölskyldum á leigumarkaði er kastað særðum í gin braskara og allir sáttmálar um meðferð hins sjúka felldir úr gildi svo hinn fyrirsjáanlegi dauði hans reyni ekki of mikið á böðlana.“

Guðmundur hvetur leigjendur til að rísa á fötur og berjast fyrir réttindum sínum. Saman séu þau afl sem ekkert geti stöðvað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum
Talaði Trump af sér?