Karlmaður hefur verið dæmdur í 30 daga fangelsi eftir að hafa gengið berserksgang í bústaðaferð sumar 2021 og gerst annars vegar sekur um nytjastuld og umferðarlagabrot og hins vegar líkamsárás.
Málsatvikum var í skýrslu lögreglu lýst svo að í júní 2021 hafi borist tilkynning um líkamsárás í sumarbústað. Sagði í tilkynningu að fyrir utan bústaðinn væri aðili sem væri æstur og mjög ógnandi. Aðrir gestir bústaðsins hafi forðað sér og læst sig inni í herbergi.
Er lögreglu bar að garði hittu þeir fyrir árásarþola sem benti þeim á ákærða sem svaf þá fastasvefni á veröndinni við hliðina á heita pottinum. Ákærði var vakin af værum ölvunarsvefni er lögregla handtók hann og flutti á lögreglustöð. Við þessu brást ákærði hinn versti við, streittist á móti og hafði í hótunum við lögreglu. Hann hafi verið í annarlegu ástandi og lýst því í „óspurðum fréttum“ í smáatriðum hvernig hann hafi gengið í skrokk að árásarþola og lamið hann ítrekað í andlitið.
Degi síðar var hægt að ræða betur við ákærða sem greindi svo frá málum að hann hafi verið í sumarbústaðaferð með hópi fólks og drukkið ótæpilega, nokkuð sem hann eigi almennt ekki að gera, enda alkóhólisti. Sagði hann að vanalega færi „allt í háaloft“ þegar hann fái sér í glas og endi það gjarnan með óminni, eða svokölluðu blackout-i. Hann sagðist muna fátt frá síðustu tveimur dögunum, en kannaðist við að hafa lent saman við árásarþola, sem hafi „örugglega verið að rífa kjaft.“
Árásarþoli hafði greint lögreglu frá því að deginum áður hafi ákærði stolið bifreið hans og ekki henni nokkurn spöl undir áhrifum. Þetta kannaðist ákærði ekki við þegar lögregla bar það undir hann, en það gæti svo sem passa því bifreiðin var ekki við bústaðinn og hann var með lyklana.
Árásarþoli lýsti atvikum þannig að hann hafi fengið sér að kvöldi dags nokkra bjóra og svo farið að sofa um tíuleytið. Þá hafi ákærði tekið bílinn og brunað í burtu. Ekkert hafi svo náðst í ákærða fyrr en morguninn eftir og fannst hann í kjölfarið utandyra, sauðdrukkinn.
Var ákærða komið aftur upp í bústaðinn og sett ofan í hann fyrir drykkjuna enda væri það aðstandendum hans erfitt. Þegar aftur var komið í bústaðinn hafi ákærði þó „trompast“ og ráðist á árásarþola. Hann hafi kastað stól í áttina að brotaþola og sparkað ítrekað í höfuð hans. Aðrir hafi flúið inn í bústað, læst að sér og hring í lögreglu.
Þá hafi bráð af ákærða og hann svo sofnað áfengisdauða áður en lögregla mætti á vettvang.
Árásarþoli fékk nokkra áverka, braut tönn auk þess sem fleiri tennur losnuðu og hlaut hann rispur og aðra yfirborðsáverka.
Önnur vitni greindu svo frá því að þeim hafi í raun grunað að ákærði gæti gert eitthvað að sér eftir að hann hóf að drekka. Hann hafi lýst því yfir kvöldið fyrir árásina að honum langaði út að keyra og aðrir gestir í bústaðnum því reynt að fela bíllyklana.
Fyrir dómi sagði ákærði brotaþola hafa espað sig upp, sært hann og móðgað með orðum. Við þetta hafi hann reiðst. Hann neitaði að hafa stolið bílnum, enda hafi hann aðstoðað árásarþola við kaup á téðum bíl og aldrei verið vandamál áður að fá hann að láni.
Sagðist ákærði þó frá atvikinu hafa horfst í augu við áfengisvanda sinn. Hann væri nú edrú, hafi snúið við blaðinu og væri duglegur að mæta á AA-fundi. Honum liði illa yfir brotum sínum, en hafi náð sáttum við brotaþola og greitt bætur vegna lækniskostnaðar. Hafi ákærði haldið að málið væri úr sögunni, en svo reyndist ekki.
Greindi ákærði frá því að hann og brotaþoli hafi verið nágrannar og félagar, og búið hlið við hlið. Samgangur hafi verið mikill þeirra á milli.
Brotaþoli sagðist fyrir dómi enn glíma við afleiðingar af árásinni. Tennur hans hafi losnað og hann glími við minnisleysi og orðið var um skapgerðarbreytingar. Taugalæknir bar vitni fyrir dómi og hafði greint brotaþola með eftirheilahristingsheilkenni og væru batahorfur hans slæmar.
Dómari taldi sannað að ákærði væri sekur um þau brot sem ákært var fyrir. Við ákvörðun refsingar þyrfti að horfa til þess að dráttur hafi orðið á rannsókn sem ákærða yrði ekki kennt um. Öll gögn bæru með sér að lögregla hafi fljótlega eftir að málið kom upp tekið skýrslur af öllum sem komu við sögu og rannsókn þá lokið að öðru leyti en að það vantaði nokkur skjöl. Engu að síður hafi málið safnað ryki ofan í skúffu lögreglu þar ákæra var gefin út í febrúar 2023. Eins var horft til þess að ákærði hafi sýnt iðrun og greitt bætur til brotaþola m.a. vegna lækniskostnaðar.
Ákærði átti nokkra brotasögu, helst fyrir umferðarlagabrot. Með vísan til dómvenju væri því ekki tilefni til að skilorðsbinda refsingu sem væri hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Eins var honum gert að greiða brotaþola 300 þúsund krónur í miskabætur.