fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Guðni ætlar ekki að bjóða sig aftur fram

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 1. janúar 2024 13:08

Guðni Th. Jóhannesson Mynd/Skjáskot RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Thorlacius Jóhannesson forseti Íslands tilkynnti fyrir örstuttu í nýársvarpi sínu, sem verið er að senda út á meðan þessi orð eru rituð, að hann muni ekki bjóða sig fram til endurkjörs í forsetakosningum sem standa fyrir dyrum síðar á árinu.

Óhætt er að segja að þetta komi mjög á óvart en margir stjórnmálaskýrendur bjuggust fastlega við að Guðni myndi bjóða sig fram til endurkjörs en Guðni þykir njóta sín vel í embættinu og nýtur mikilla vinsælda hjá þjóðinni.

Guðni var kjörinn forseti Íslands 2016 og síðan endurkjörinn 2020. Kjörtímabilin hans á Bessastöðum verða því aðeins tvö.

Í ávarpi sínu sagði Guðni meðal annars:

„Auðvitað vitum við aldrei til fulls hvað framtíðin ber í skauti sér en í því
felst einmitt hin fagra óvissa lífsins. Þannig komst ég að orði vorið 2016, þegar
ég bauð mig fyrst fram til forseta. Þá sagði ég að næði ég kjöri og svo endurkjöri
vildi ég ekki sitja lengur á Bessastöðum en átta til tólf ár. Hafði ég þá til
hliðsjónar eigin sjónarmið og ýmissa annarra í tímans rás.“

Guðni sagði að þegar væri komið að forsetakosningum hefði það freistað sín óneitanlega að bjóða sig fram einu sinni í viðbót:

„Hvern einasta dag hef ég fundið hversu einstakur sá heiður er að gegna
þessari stöðu. Þess vegna neita ég því ekki að ég íhugaði vandlega að sækjast
eftir stuðningi til frekari setu eitt kjörtímabil enn. Aftur á móti komst ég ætíð að
þeirri niðurstöðu að betra væri að láta hjartað ráða en fylgja öðrum rökum sem
hljóta að teljast veikari þegar allt kemur til alls.“

Maður kemur í manns stað

Guðni sagði að þótt skyldur manns í samfélaginu lægju víða yrði um leið að huga að eigin líðann og þeirra sem stæðu manni næst:

„Í öflugu lýðræðissamfélagi kemur maður líka í manns stað. Engum er
hollt að telja sig ómissandi og skyldurækni á misskildum forsendum má ekki
ráða för, því síður eigin hégómi eða sérhagsmunir.“

„Kæru landar, kæru vinir: Af öllum þessum sökum hyggst ég ekki vera í
framboði í því forsetakjöri sem verður í sumar, kýs frekar að halda sáttur á braut
innan tíðar og er þess fullviss ‒ ef ég má nefna það sjálfur ‒ að Íslendingum
muni eins og fyrri daginn auðnast að kjósa sér forseta sem þeir una við.“

Guðni sagðist vera afar bjartsýnn fyrir framtíð Íslands og íslenskt samfélag nú þegar hann hefur tekið þá ákvörðun að yfirgefa Bessastaði á því ári sem nú er hafið:

„Eftir sem áður hlakka ég til að fylgjast með íslensku samfélagi vaxa og
dafna. Þekktu sjálfan þig og þekktu þína þjóð. Þannig hef ég viljað mæta
hverjum degi hér og segi hiklaust að við Íslendingar megum svo sannarlega
horfa björtum augum fram á veg. Ég þarf þó að nefna sitthvað sem getur valdið
áhyggjum eða ama: sífelldur ys og þys sem ýtir jafnvel undir sýndarmennsku
eða kvíða nema hvort tveggja sé, harka og heift í dómum á líðandi stundu,
gáleysi um mál okkar og menntun, fátækt sumra í samfélagi allsnægta.“

„En allt þetta getum við samt lagað. Grunnstoðirnar eru traustar og
heimurinn er ekki á heljarþröm. Þrátt fyrir allt sem betur má fara er það svo
margt sem getur fyllt okkur stolti og gleði, bjartsýni og von.“

Ávarpið í heild sinni er hægt að lesa á vef forsetaembættisins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí