fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Svona þvætta glæpamenn peningana sína á Íslandi – Umsvifamiklir glæpamenn í lúxusbílum, leppar og skúffufélög velta milljörðum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 27. desember 2023 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Embætti ríkislögreglustjóra gaf í dag út uppfært áhættumat fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á landi. Þar kennir ýmissa grasa og af lestri skýrslunnar má sjá margar þær leiðir og glufur sem glæpamenn hér á landi nota til að þvætta ávinning brota sinna. Brotin að baki peningaþvætti geta verið af mörgum toga og má þá helst nefna skattsvik, sala ólöglegra vímuefna, innbrot, ólöglegt fjárhættuspil, fjárdráttur og svona mætti áfram telja. Þessir peningar, sem eiga rætur að rekja til ólöglegra athafna, eru svo settir í eitthvað ferli til að dulbúa uppruna þeirra, svo sem með þeim hætti sem hér verður gert grein fyrir.

Peningaþvætti fer fram á mörgum sviðum samfélagsins svo sem í fasteignaviðskiptum, verslunum, fyrirtækjarekstri, gjaldeyrisviðskiptum eða með kaupum á lausafjármunum. Með þessu móti verður erfiðara fyrir lögreglu og önnur yfirvöld að hafa upp á þessum peningum og leggja á þá hald. Þar með hefur ríkissjóður orðið af tekjum, brotaþolar fá verðmæti sín ekki til baka og samfélagið í heild tapar á því að hér þrífist umhverfi þar sem glæpir borga sig.

Dulið hagkerfi Íslands

Hér á landi þrífst svokallað dulið hagkerfi – viðskiptaumhverfi sem hvergi er skráð. Allt er þar undir yfirborðinu og hvorki talin fram gjöld né tekjur. Þetta dulda hagkerfi er með gífurlega veltu sem hið opinbera sér ekki krónu af.

Segir í áhættumati að líkur megi leiða að því að skattsvik á Íslandi séu gríðarlega alvarleg og kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Almennt sé svo litið að auðvelt sé að fremja brotin og þvætta ávinning þeirra. Erfitt reynist yfirvöldum að hafa hendur í hári skattsvikara þar sem brotin eru flókin og tekur rannsókn þeirra langan tíma. Eins hafi færst í aukanna að brotamenn njóti sérfræðiaðstoðar við framkvæmd peningaþvættis.

„Í málunum virðist skína í gegn einbeittur brotavilji. Brotin krefjast skipulags og varða oft háar fjárhæðir. Í mörgum tilvikum er um að ræða misnotkun á félagaformum og við sögu koma oft sömu brotamenn í hverju félaginu á fætur öðru þar sem félögin virðast ekki gegna öðrum tilgangi heldur en að nýta í svikastarfsemi. Auðvelt aðgengi að félögum virðist m.a. gera þetta kleift. Þá virðist sem að skipulagðir brotahópar séu í auknum mæli að nota annars löglega atvinnustarfsemi til skattsvika og peningaþvættis auk þess sem ávinningur af refsiverðri háttsemi er þvættaður inn í gegnum fyrirtækjarekstur.“

Tilhæfulausir reikningar

Eitt gott dæmi um skipulagða brotastarfsemi hér á landi eru hin alræmdu skattsvik, þar sem skattkerfið er misnotað með kerfisbundnum hætti. Dæmi um þetta er þegar einstaklingar og fyrirtæki gefa út tilhæfulausa sölureikninga til að komast hjá greiðslu skatts eða til að ná peningum út úr rekstrinum án þess að á því beri. Eins hafa verið gefnir út tilhæfulausar inneignaskýrslur hvað varðar virðisaukaskatt þar sem brotamenn freista þess að fá endurgreiðslu án þess að eiga rétt til þess.

Um þetta segir í áhættumati:

„Dæmi um þetta er að félag A gefur út reikning sem félag B móttekur og greiðir. Félag A tekur svo fjármunina ásamt innheimtum virðisaukaskatti út í reiðufé og skilar ekki virðisaukaskattinum til ríkisins, Með úttekt fjármuna í reiðufé reynist ógerningur að rekja slóð þeirra og þ.a.l. erfiðara að bera kennsl á hagnaðaraðila brotsins og hvort reikningarnir eru tilhæfulausir eða réttmætir. Þegar upp hefur komist um brotin er brotamaðurinn svo oft á tíðum búinn að yfirgefa félagið og færa sig yfir á „næstu kennitölu“ þar sem sama háttsemi heldur áfram.“

Annað dæmi sé svo þegar brotamaður hefur aflað sér félags með gamla kennitölu. Hann notar þetta félag til að senda inn beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem byggir á röngum upplýsingum. Þar sem Skatturinn fær gífurlegt magn slíkra beiðna þá er erfitt að tryggja að þær séu allar á rökum reistar.

Burðardýr 

Annað dæmi sem brotamenn nota til að þvætta peninga er að flytja reiðufé í og úr landi. Þá er hægt að nota hefðbundið smygl með pósti og öðrum varningi eða með burðardýrum. Þar sem hér eru til 10 þúsund krónu seðlar og  5 þúsund krónu seðlar er auðvelt að flytja mikið fjármagn svo lítið beri á því. Reiðufé er svo illrekjanlegt og því eftirsóknarverð og örugg leið fyrir brotamenn til að fela slóð ágóðans.

Skatturinn gerði greiningu á úttektum reiðufjár á árunum 2019-2021 og mat það svo að umfang óeðlilegra úttekta næmi um 13 milljörðum á ári.

Með reiðufé er hægt að eiga hraðvirk, nafnlaus og nánast órekjanleg viðskipti og þar með skilvirk leið til að þvætta peninga.

Sýndareignir

Með tilkomu sýndareigna á borð við Bitcoin, Monero og aðrar rafmyntir sem og NFT og álíka þá fóru glæpamenn að nýta sér slíkt til þvættis. Þróun síðustu ára hefur verið hröð og fyrirtækjum fjölgað sem taka við sýndareignum sem greiðslu. Dæmi eru jafnvel um að sýndareignir séu tengdar greiðslukortum sem svo má nota í hefðbundnum viðskiptum. Þetta eru alþjóðleg viðskipti sem flæða frjálst yfir landamæri. Erfitt getur verið að finna uppruna eignanna eða raunverulega eigendur þeirra. Þar með er þetta kjörið fyrir glæpamenn.

Hér á landi eru vísbendingar um að glæpamenn ráðstafi ávinningi brota sinna í sýndareignir og eins að slíkar eignir séu notaðar til að koma fjármunum úr landi. Lögreglu og rannsakendum hér á landi skortir bæði þekkingu og búnað til að rannsaka mál sem varða sýndareignir með fullnægjandi hætti.

Lánastarfsemi

Glæpamenn eru útsmognir og finna sér ýmsar leiðir til að koma ávinningi sínum í löglegan búning. Ein leið er að nota sér lánakerfið. Þá taka brotamenn lán, gjarnan í gegnum fyrirtækjakennitölu, og greiða af því með ágóða brota sinna. Lánveitendur ættu að vera vakandi fyrir því þegar lán eru greidd upp óvenjulega hratt, en með þessu móti er hægt að þvætta umtalsverðar fjárhæðir.

Lögmenn

Ýmsir sérfræðingar geta meðvitað eða ómeðvitað komið að peningaþvætti. Þá horfir ríkislögreglustjóri sérstaklega til lögmanna og segir grunsamlegt hversu fáar tilkynningar berist frá þeirri stétt um möguleg tilfelli peningaþvættis. Mögulega sé freistnivandi hjá stéttinni sem láti eigin fjárhagslega hagsmuni ofar samfélagslegri ábyrgð sinni. Lögreglan á Íslandi hefur upplýsingar um að brotamenn, fjársterkir með mikil umsvif, hafi greiðan aðgang að sérfræðingum sem aðstoða þá við peningaþvætti.

Hvað lögmenn varðar þá er hætt við að brotamenn noti sér þjónustu þeirra til að ljá ólögmætum viðskiptum eða starfsemi lögmæta ásýnd. Svo sem með því að fá lögmenn til að koma fram fyrir þeirra hönd, eða fá þeim að inna af hendi þjónustu sem rúmast innan ramma laganna. Lögmenn eru einnig nýttir til að  fela raunverulegt eignarhald á félögum eða slóð ávinnings sem tengist t.d. skattundanskotum.

Vísbendingar eru um að lögmenn tengist málum sem hafa verið til rannsóknar hér á landi vegna ýmiss konar atbeina við brotastarfsemi. Eins eru vísbendingar um að hluti lögmanna fari ekki í öllu að lögum. Þeir geri ekki áreiðanleikakannanir með fullnægjandi hætti, eða gæti að því hvaða tengsl viðskiptamenn geta haft við valdamenn eða hvort þeir hafi verið beittir viðurlögum á alþjóðlegum grundvelli. Virðist sem svo að sumir lögmenn líti sem svo á að störf þeirra falli utan gildissvið þeirra laga sem krefjast slíks áhættumats, og mögulega forgangsraði þeir fjárhagslegum hagsmunum ofar áhættu viðskiptanna.

Endurskoðendur

Hætt er við að þjónusta endurskoðenda sé misnotuð í peningaþvætti. Svo sem með því að ljá ólögmætum viðskiptum eða starfsemi lögmæta ásýnd. Eins að þeir séu notaðir til að dylja raunverulegt eignarhald á félögum og ólögmætu skattundanskoti. Endurskoðandinn áttar sig ekki alltaf á því að verið sé að misnota hann, en eins er hætt við því að endurskoðandi verði háður viðskiptamanni sínum og samsami sig hagsmunum hans. Upp hefur komið hér á landi að endurskoðendur tengist málum þar sem þeir hafa aðstoðað við brotastarfsemi. Þó berast fáar tilkynningar frá stéttinni vegna gruns um slík brot á ári hverju.

Vísbendingar eru um að endurskoðendur sýni ekki nægilega aðgát við áritun reikninga og geri ekki fullnægjandi áreiðanleikakannanir.

Eins eru dæmi um að þjónusta bókara sé misnotuð með sama hætti og dæmi um að bókarar tengist málum sem til rannsóknar hafa verið hjá yfirvöldum. Eru þeir gjarnan ómeðvitaðir um brotastarfsemina sem þeir taka þátt í.

Fasteignaviðskipti

Umfang fasteignaviðskipta hér á landi er umtalsvert. Hægt er að leyna eignarhaldi fasteigna með því að færa þær inn í félög sem jafnvel hafa verið stofnuð í þeim eina tilgangi að halda utan um eignina. Þá má selja félagið og fasteignina með án þess að gætt sé að reglum um fasteignaviðskipti, eða því eftirliti sem slík viðskipti sæta. Þekkt er hér á landi að brotamenn beiti fyrir sig leppum í fasteignaviðskiptum og með þessu móti geta erlendir aðilar eins fengið kerfiskennitölu og keypt eignir og félög hérlendis.

Eins tíðkast að selja fasteignir langt undir markaðsverði eða yfir því og þar með hylja hluta verðs sem í raun var greiddur með illa fengnu fé. Lögreglan hefur sterkar vísbendingar um að íslenskir glæpamenn þvætti ágóða í gegnum fasteignaviðskipti, þá einkum í gegnum fasteignaframkvæmdir, en hér er um að ræða viðskipti með gífurlegar fjárhæðir.

Dæmi eru um að fasteignasalar hafi verið misnotaðir af brotamönnum, en engu að síður berast sorglega fáar tilkynningar frá stéttinni vegna gruns um peningaþvætti. Fjármálastofnanir sjái í gögnum viðskipta að eitthvað grunsamlegt er á ferðinni og tilkynna til yfirvalda, en fasteignasalinn sem kom við sögu og sá sömu merkin – gerði ekkert.

Bílar og list

Brotamenn notfæra sér viðskipti með bifreiðar og listmuni til að þvætta peninga. Oft má sjá brotamenn á Íslandi sem lifa íburðarmiklum lífsstíl, með rándýra bíla og verðmæt listaverk, án þess að hafa nokkrar tekjur sem koma fram í opinberum skrám.

Spilakassar

Veruleg hætta er á því að spilakassar séu notaðir til peningaþvættis og eru vísbendingar um að slíkt tíðkist hér á landi. Til dæmis hafi fjöldi brotamanna skýrt reiðufé sem finnst á þeim við líkams- og húsleit sem vinning úr spilakassa og hafa þeir jafnvel gögnin til að sanna það.

Að baki gæti til dæmis verið sú framkvæmd að dæla peningum í spilakassa og fá svo inneignarnótu án þess að spila svo mikið sem einn leik. Þá hafa þeir kvittun fyrir vinning, geta fengið peningana greidda út, og hafa þar með þvættað ágóða sinn. Rekstraraðilar spilakassa beri því ábyrgð að fylgjast með slíkri háttsemi og tilkynna en jafnvel gæti verið að brotamenn komi beint að rekstri spilastaða eða hafi ítök og aðgengi að slíkum sem geri þeim kleift að kaupa vinningsmiða. Þvætti með þessari aðferð er auðvelt og krefst ekki sérfræðiþekkingar, undirbúnings eða tilkostnaðar.

Lögreglan hefur eins vísbendingar um að íslenskir brotamenn noti fjárhættuspil á erlendum vefsíðum til peningaþvættis og hafa borist tilkynningar frá erlendum eftirlitsaðilum vegna gruns um að erlendar fjárhættuspilasíður séu notaðar til þvættis af íslenskum ríkisborgurum.

Félagaformið

Það er einfalt og frekar ódýrt að stofna einkahlutafélag hér á landi. Lagakröfur til eigenda, stofnenda og fyrirsvarsmanna eru ekki miklar og mögulegt er að stofna „skúffufélög“ þar sem ekki er gerð krafa um starfsemi. Þar með er hægt að stofna fjölda félaga og koma þannig á fót neti sem er hægt að nota til að þvætta fjármuni.

Það skortir heildarsýn yfir félög skráð á Íslandi og lagaumgjörðin er ekki nægilega góð. Eftirlit er af skornum skammti og skortir á úrræði til að slíta félögum sem ekki eru í rekstri og sinna ekki lögbundnum skyldum sínum.

Ríkislögreglustjóri telur að ákveðin menning ríki á Íslandi um glæpastarfsemi í gegnum félagaformið. Hér þrífst kennitöluflakk, notkun leppa, svört atvinnustarfsemi, sjálftaka úr sjóðum félaga, sýndarviðskipti, skipulögð skattsvik, rangfærslur bókhalds og vanskil á ársreikningum og öðrum skilaskyldum skýrslum.

Þetta er þó vonandi að breytast. Lagabreytingar hafa átt sér stað sem stefna að því að draga úr kennitöluflakki og leppum en ekki er komin nægileg reynsla á þessar aðgerðir til að meta árangur þeirra.

Ólögleg atvinnustarfsemi er mjög umfangsmikil hér á landi en talið er að umfang hennar nemi um 3-7 prósentum af vergri landsframleiðslu. Þessi starfsemi fer aðallega fram í verktakageiranum og öðrum iðngreinum. Þar þrífast einkum skattsvik.

Af áhættumatinu má merkja að lögreglu og skattrannsóknarstofnunum skortir í raun sérþekkingu, búnað, verklag og annað til að geta með fullnægjandi árangri barist gegn peningaþvætti.

Hafa ákærendur ítrekað rekið sig á að peningaþvætti sé vísað frá dómi þar sem það er ekki nægilega rökstutt, en erfitt getur verið að tengja þvættið við tiltekin brot með slíkum hætti að það uppfyllir kröfur laga um sönnunarbyrði. Eins skorti á eftirlit, lagaúrræði og fleira.

Peningaþvætti er vandi sem ekki verður leystur á einni nóttu og líklega seint að fullu. Engu að síður er mikilvægt fyrir trúverðugleika Íslands að hér sé spornað gegn þessum brotum eins og hægt er. Yfirvöld hafa ráðist í ýmsar aðgerðir til að gera brotamönnum erfiðara um vik, svo sem með því að reyna að setja hömlur á kennitöluflakk eða með því gera félögum skylt að skrá raunverulega eigendur. Á sama tíma eru brotamenn að læra betur inn á nýja tækni sem getur gert rannsókn brotanna erfiðari, og jafnvel flækjustig stöðva ekki einbeittan brotavilja, og jafnvel hægt að fá lögmætan sérfræðing til að sjá um bókhaldið. Áhættumatið segir í raun að margt gott hafi átt sér stað, en áhættan á Íslandi er enn nokkur og betur má ef duga skal.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við