fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Neytendasamtökin kanna lögmæti aðgerða Creditinfo – „Við teljum þetta stóralvarlegt“

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 29. nóvember 2023 18:00

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir samtökin vera að kanna, með lögmönnum sínum, lögmæti nýlegra breytinga Creditinfo á vinnslu fjárhagsupplýsinga við gerð lánshæfismats einstaklinga. Hann segir að samtökin muni væntanlega gefa út sérstaka tilkynningu um málið á morgun en í stuttu samtali við fréttamann DV sagði hann þó blasa við að um mjög alvarlegt mál sé að ræða.

Eins og DV greindi frá fyrr í dag hefur Creditinfo gert breytingar á þeim áhrifaþáttum sem teknir eru með í reikninginn við gerð lánshæfismats einstaklinga. Felst breytingin einkum í því að litið er til eldri upplýsinga um vanskil einstaklinga en áður. Nú er notast við fjögurra ára gamlar upplýsingar en áður voru 2 ára gamlar upplýsingar notaðar. Segir Creditinfo að besti sögulegi mælikvarði á það hvort einstaklingar standi við skuldbindingar sínar í framtíðinni sé hvort þeir hafi alltaf gert það áður. Eins og DV greindi frá hefur þessi breyting valdið miklu uppnámi meðal fólks ekki síst þeirra sem náð hafa að vinna sig út úr vanskilum og bæta lánstraust sitt. Þessi hópur stendur frammi fyrir lækkuðu lánshæfismati á ný og er því í raun kominn aftur á byrjunarreit í sínum fjármálum.

Sjá einnig: Uppnám vegna ákvörðunar Creditinfo um að nýta upplýsingar um eldri vanskilasögu fólks sem er ekki lengur í vanskilum: „Það er kominn tími á nýja búsáhaldabyltingu“

Eins og áður segir eru Neytendasamtökin, með fulltingi lögmanna sinna, að skoða málið og tilkynning um það verður væntanlega gefin út á morgun. Breki Karlsson formaður segir að Neytendasamtökin séu að skoða hvernig þau geti brugðist við. Breki hafði ekki mikið meira að segja um málið á meðan sú vinna stendur yfir en í samtali við fréttamann DV fór hann þó ekki í grafgötur með að hann teldi málið vera alvarlegt:

„Það eru rosalega margir sem hafa haft samband við okkur. Það að 40 prósent þjóðarinnar hafi færst til um lánshæfismatsflokk, miðað við fréttir, er rosalegt.“

Þar er Breki væntanlega að vísa til frétta Vísis af málinu en þar kemur fram, að samkvæmt tölum frá Creditinfo, hafi 25 prósent þjóðarinnar færst upp um lánshæfismatsflokk en 15 prósent færst neðar. Samkvæmt tölum hagstofunnar bjuggu 387.758 manns á Íslandi 1. janúar 2023.

Breki segir þessa miklu tilfærslu gefa til kynna að þetta kerfi sé gallað eða hafi verið gallað áður:

„Það er eitthvað þarna sem ekki stemmir. Við tökum þetta mjög alvarlega. Okkur þykir þetta mjög alvarlegt mál. Þetta fyrirtæki er nýbúið að fá hæstu sekt sem nokkurt fyrirtæki hefur fengið hjá Persónuvernd fyrir að misfara með fjárhagslegar upplýsingar fólks.“

Þar er Breki að vísa til þess að fyrr á þessu ári sektaði Persónuvernd Creditinfo um 37,9 milljónir króna vegna skráningar upplýsinga frá eCommerce 2020 ApS um vanskil á svonefndum smálánum.

Sjá einnig: Creditinfo slær dagsgamalt sektarmet Landlæknisembættisins

Breki var nokkuð skorinorður við lok samtalsins:

„Við teljum þetta stóralvarlegt.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt