fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Sætti sig ekki við að þurfa borga til að fá sjúkraskrá sína afhenta

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 4. nóvember 2023 16:30

Heilsugæslan í Efstaleiti. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 1. nóvember síðastliðinn kvað heilbrigðisráðuneytið upp úrskurð vegna stjórnsýslukæru einstaklings sem var lögð fram vegna gjalds sem Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins tók fyrir að afhenda lögmanni viðkomandi sjúkraskrá hans. Fór kærandinn fram á að gjaldtakan yrði felld niður og að Heilsugæslunni yrði gert að endurgreiða honum. Tók ráðuneytið undir með kærandanum og úrskurðaði að gjaldið væri ólögmætt og að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bæri að endurgreiða honum.

Í úrskurðinum segir um málavöxtu að samkvæmt gögnum málsins hafi lögmaður, fyrir hönd kæranda, óskað eftir sjúkraskrá hans frá Heilsugæslunni frá 18. desember 2021. Stofnunin hafi hins vegar krafið kæranda um 15.791 krónu vegna beiðninnar.

Í úrskurðinum segir að kæran hafi byggt á því að gjaldtaka Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna afhendingar á sjúkraskrá eigi sér ekki stoð í lögum. Gjaldtakan hafi verið reist á reglugerð nr. 1551/2022 en kærandin hafi talið ákvæðið sem gjaldtakan hvíli á ekki eiga sér lagastoð og gangi í berhögg við ákvæði laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár. Í þeim lögum sé kveðið á um almennan rétt sjúklinga til afrits af sjúkraskrám sínum en í lögunum sé hvergi kveðið á um gjaldtöku. Hafi kærandi vísað til meginreglunnar um að stjórnvöldum sé ekki heimilt að innheimta þjónustugjöld nema samkvæmt ótvíræðri lagaheimild.

Af hálfu kæranda hafi einnig verið byggt á því að umrætt ákvæði reglugerðar nr. 1551/2022, sem fjalli um vottorð til lögmanna, eigi sér þannig ekki lagastoð. Feli það í sér ólögmæta mismunun og brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Í umsögn sinni hafi Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins vísað til ákvæða í umræddri reglugerð.

Í niðurstöðuhluta úrkurðarins segir að í 14. grein laga um sjúkraskrár séu ákvæði um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá. Samkvæmt 1. málsgrein eigi sjúklingur eða umboðsmaður hans rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess sé óskað.

Líta verði til þeirrar meginreglu að gjald verði ekki innheimt fyrir þjónustu stjórnvalda nema heimild sé til gjaldtökunnar í lögum.

Ljóst sé að lög um sjúkraskrár veiti sjúklingi eða umboðsmanni hans rétt á að fá afrit af sjúkraskrá afhenta í heild eða hluta. Í lögunum sé engin heimild til stjórnvalda til að innheimta gjald af sjúklingi í tengslum við beiðni um afhendingu á sjúkraskrá. Ákvæði reglugerðarinnar sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi stuðst við eigi sér stoð í lögum um sjúkratryggingar sem veiti heimild til gjaldtöku vegna útgáfu læknisvottorða á heilsugæslu. Beiðni kæranda hafi hins vegar aðeins snúist um afhendingu á sjúkraskrá en ekki læknisvottorði.

Þar af leiðandi ógilti Heilbrigðisráðuneytið gjaldtökuna og fyrirskipaði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að endurgreiða kærandanum.

Úrskurðinn í heild sinni er hægt að lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe