Þetta kom fram í máli Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, á blaðamannafundi í morgun.
„Allt bendir til þess að þetta hafi verið hryðjuverkaárás sem var beint að Svíþjóð og Svíum,“ sagði hann.
Árásarmaðurinn, sem hét Abdesalam L. samkvæmt belgískum fjölmiðlum, var felldur í umfangsmiklum aðgerðum belgísku lögreglunnar í nótt. Maðurinn notaði AR-15 árásarriffil í voðaverkinu.
Árásin í gærkvöldi náðist á myndband sem dreift hefur verið um samfélagsmiðla. Á því sést árásarmaðurinn elta stuðningsmann og skjóta hann ítrekað. Í myndbandi sem maðurinn birti sjálfur eftir ódæðið sagðist hann hafa tengsl við ISIS-hryðjuverkasamtökin.
Ulf sagði á blaðamannafundi að maðurinn hafi dvalið í Svíþjóð „í nokkur skipti“ og þá hafi hann ákveðin tengsl við Svíþjóð. Ulf sagði að sænska lögreglan hefði þó ekki haft nein afskipti af honum áður.
„Við erum að ganga í gegnum dimma tíma núna,“ sagði Ulf á blaðamannafundinum og bætti við að viðbúnaðarstig vegna hryðjuverka hefði verið hækkað fyrr á þessu ári, einmitt vegna ótta við árás eins og framin var í gærkvöldi.
Nöfn og aldur þeirra sem myrtir voru í árásinni í gærkvöldi hafa ekki verið gerð opinber. Í frétt Aftonbladet kemur fram að annar hinna myrtu hafi verið búsettur í Sviss.