fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Segja Þorgrím missa marks

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 15. október 2023 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og fyrirlesari, vakti mikla athygli í liðinni viku með grein í Morgunblaðinu og í kjölfarið í viðtali við Bítið á Bylgjunni. Þar lýsti hann gríðarlegum áhyggjum sínum af framtíð íslenskra barna og unglinga. Hann ræddi meðal annars um vanlíðan þeirra, slæm tök á íslenskri tungu og óæskileg áhrif umfangsmikillar snjallsímanotkunar þessa hóps.

Sjá einnig: Þorgrímur Þráins áhyggjufullur:„Daglegir blaðamannafundir í beinni eins og þegar Covid geisaði“

Ekki eru þó allir sammála þessari greiningu Þorgríms. Jón Bragi Sigurðsson þýðandi hæddist til að mynda að svartsýni Þorgríms.

Sjá einnig: „Í raun og veru segir þessi frétt mér ekki neitt annað en að Þorgrímur Þráinsson er orðinn hálfsjötugur“

Nú hafa sálfræðingarnir Linda Björk Oddsdóttir og Berglind Brynjólfsdóttir bæst í hóp gagnrýnenda Þorgríms. Í aðsendri grein á Vísi sem ber titilinn „Árið er 2023“ segja þær meðal annars framsetningu Þorgríms einkennast af einföldunum og hún sé ekki hjálpleg til lengri tíma litið.

Í upphafi greinarinnar taka Linda og Berglind þó undir sumt af því sem Þorgrímur sagði í grein sinni og í viðtalinu:

„Undirritaðar fagna umræðunni og geta tekið undir sumt af því sem fram kom m.a. mikilvægi þess að koma böndum á skjátíma barna og unglinga og kenna þeim að umgangast tækin og miðlana öllum til heilla. Við tökum líka undir það með Þorgrími að miklar og oft óraunhæfar kröfur séu gerðar til kennara í dag.“

Vanlíðan barna og unglinga sé misjöfn

Linda og Berglind gera einkum athugasemd við tvö atriði sem fram koma hjá Þorgrími. Þær hafa mikla reynslu af því að vinna með börnum og unglingum, bæði á sálfræðistofu og í skólaþjónustu um allt land. Þær eru báðar þar að auki þriggja barna mæður.

Linda og Berglind gera í fyrsta lagi athugasemd við orð Þorgríms um vanlíðan barna og unglinga. Í þeim sé falin einföldun og ekki sé öll vanlíðan eins:

„Í viðtalinu vísar Þorgrímur í glæru úr fyrirlestrum sínum, með þeim upplýsingum að 43% nemenda í unglingadeildum segist ekki líða vel. Ekki kemur fram hvaðan sú tala er fengin en við gerum ráð fyrir að hann vísi þar í kannanir Skólapúlsins. En hvað þýðir það að líða ekki vel? Við sem hittum börn og unglinga alla daga í okkar vinnu, fáum á okkar borð allt frá vægum vanda yfir í alvarlega vanlíðan. Öll myndu þó blessuð börnin taka undir að þeim liði ekki vel.

Það að setja alla vanlíðan undir einn hatt er mikil einföldun. Rannsóknir síðustu ára benda vissulega til að kvíði og depurð fari vaxandi meðal unglingsstúlkna á meðan líðan unglingsdrengja virðist standa meira í stað. Nokkrar tilgátur hafa þegar komið fram um ástæðu þess sem verið er að rannsaka nánar.“

Linda og Berglind leggja einnig mikla áherslu á að orsakir vanlíðunar séu ekki í öllum tilfellum óhófleg notkun snjalltækja:

„Í starfi okkar hittum við fjölda barna og unglinga sem glíma við kvíða og þunglyndi. Sum þeirra hafa upplifað áföll, hafa orðið fyrir einelti, búa við erfiðar aðstæður eins og t.d. við líkamleg eða andleg veikindi foreldra o.s.frv. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að sýna samkennd og viðurkenna erfiða lífsreynslu og áhrif hennar.

Við hittum að sjálfsögðu líka börn og unglinga sem … eru of mikið í snjalltækjum og upplifa vanlíðan af vanvirkni, svefnleysi og skorti á tengslum við annað fólk. Þar fellst svarið líkt og Þorgrímur bendir á m.a. í að auka virkni og koma böndum á skjátíma með virkri aðkomu foreldra. Grunnur í allri okkar vinnu er að komast að því af hverju vanlíðan stafar áður en farið er af stað við að finna lausnir. Það að gera lítið úr vanlíðan unglinga sem oft hafa gengið í gegnum margt er ekki bara einföldun heldur getur bókstaflega verið skaðlegt.“

Foreldrar séu misjafnir

Linda og Berglind gera í öðru lagi athugasemdir við lýsingar Þorgríms á frammistöðu íslenskra foreldra og vísa þar til viðtalsins við hann í Bítinu á Bylgjunni:

„Á viðtalinu mátti skilja sem svo að það væri á allra vitorði að foreldrar í dag væru almennt áhugalausir um uppeldi barna sinna, væru að bregðast skyldum sínum og nenntu ekki lengur að vera foreldrar, en að enginn þyrði að segja það.“

Þær segja að samkvæmt þeirra reynslu sé alls ekki svo. Flestir foreldrar séu að gera sitt besta en vissulega sé hluti þeirra sem sé ekki að standa sig við uppeldi barna sinna:

„Sumir foreldrar eru að gera sitt besta en samt er vandi, við hittum foreldra sem eiga einhverra hluta vegna erfitt með að setja börnum sínum mörk, einhverjum tekst illa að átta sig á í hverju uppeldi er fólgið eða heldur að það sé að gera vel með nálgun sinni í uppeldi. Við höfum einnig hitt foreldra sem ætlast til alls konar hluta, eiga sjálfir erfitt með að axla ábyrgð á uppeldi barna sinna og benda á aðra í þeim efnum. En reynsla okkar er sú að þessi hópur er minnihluti foreldra.

Stærstur hluti foreldra í dag er að reyna að gera sitt allra besta til að fóta sig og finna jafnvægi í nútímasamfélagi. Í samfélagi þar sem tækniþróun er mjög hröð, upplýsingaflæði er stöðugt og oft misvísandi. Hversu mikið er nóg og hvaða leiðir er best að fara þannig að úr verði sjálfbær einstaklingur?“

Linda og Berglind segja að orðalag Þorgríms muni ekki hvetja þá foreldra sem þurfi virkilega að bæta sig til að gera einmitt það:

„Ef tilgangur greinarinnar er að vekja foreldra til vitundarvakningar þá er því miður ólíklegt að sá hópur foreldra sem ætti að taka skrifin til sín, geri það. Það er nefnilega reynsla okkar að þegar talað er við hóp þá taka þeir síst til sín sem ættu, en þeir sem eru að vanda sig og leitast eftir að gera betur taka skilaboðin til sín af öllum mætti, jafnvel svo miklum mætti að um þverbak keyrir.“

Í stað þess að finna sökudólga sé líklegra til árangurs að líta á það sem samfélagslegt verkefni að bæta stöðu barna og unglinga. Samfélagið hafi tekið breytingum og það geti verið erfitt fyrir þau sem eldri eru. Finna þurfi ákveðið jafnvægi:

„Þegar miklar breytingar eiga sér stað tekur tíma að finna jafnvægi og átta sig á því hversu mikið er of mikið og hvað er óhollt. Þetta vitum við yfirleitt ekki fyrr en eftir á og tíminn og reynslan sýnir okkur hvað skal varast, hvað er gagnlegt og hvernig við finnum jafnvægi. Sagan sýnir okkur að breytingar hræða yfirleitt þau sem eru eldri, hvort sem það er rokktónlist, dans eða sítt hár á meðan unga fólkið upplifir að þau eldri skilji sig ekki og geti ekki sett sig í þeirra spor.“

Þær hvetja að lokum til samtöðu um að íslenskt samfélag taki utan um „unga fólkið okkar“ og segja það líklegra til árangurs að gera ráð fyrir að allir séu að gera sitt besta.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“
Fréttir
Í gær

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia
Fréttir
Í gær

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Í gær

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við