fbpx
Föstudagur 10.maí 2024
Fókus

„Í raun og veru segir þessi frétt mér ekki neitt annað en að Þorgrímur Þráinsson er orðinn hálfsjötugur“

Fókus
Föstudaginn 13. október 2023 12:11

Jón Bragi og Þorgrímur Þráinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðtal við rithöfundinn Þorgrím Þráinsson vakti mikla athygli í gær en þar lýsti hann í raun yfir neyðarástandi hjá æsku landsins og kallaði eftir því að foreldrar tækju meiri ábyrgð á uppeldi barna sinna. Sagði Þorgrímur í stuttu máli að börn væru mörg hver á kafi í snjallsímum og samfélagsmiðlum sem gerði það að verkum að kvíði og þunglyndi væri að aukast gríðarlega, íslenskukunnátta væri á undanhaldi og agaleysi væri allsráðandi. „Við erum að missa börnin okkar,“ sagði Þorgrímur og brotnaði niður í stúdíóinu.

Viðtalið vakti mikla athygli og umtal og vakti eflaust marga til umhugsunar og naflaskoðunar.

Aðrir töldu Þorgrím teikna upp full nöturlega framtíðarsýn. Einn þeirra var þýðandinn Jón Bragi Sigurðsson sem henti í skemmtilegan pistil sem hann gaf DV góðfúslegt leyfi til að birta.

Sagðist Jón Bragi hafa hugsað að Þorgrímur væri greinilega að verða gamall þegar hann las þessa „heimsendaspá og þetta svartagallsraus“.

Var allt betra í gamla daga?

„Hvað sagði fólk á hans aldri og eldra á sjöunda áratug síðustu aldar? Jú, það var neyðarástand. Unglingarnir voru helteknir af þessari nýju tónlist, sem ekki var nein tónlist (þó margt hennar sé orðið klassík í dag), heldur bara garg og hávaði, sem þar að auki var spiluð svo hátt að það blasti við að heil kynslóð yrði heyrnarlaus um alla sína framtíð. Fyrir nú utan það að menningin var í mikilli hættu ef að börn og unglingar hættu að syngja og hlusta á Eldgamla Ísafold, Ríðum ríðum rekum yfir sandinn o.s.frv. Og hvað sagði fólk á hans aldri og eldra á áttunda áratugnum? Jú, þá var líka neyðarástand. Börn og unglingar héngu yfir sjónvarpinu þar sem þau sáu ýmislegt óhollt auk þess sem það spillti námi og svefni og margir vísir eldri menn töldu það mjög svo óvíst að þessi kynslóð yrði nokkurn tíma að fólki. Á níunda áratugnum kom svo vídeóið og þá var líka fjandinn laus. Hvernig áttu börn og unglingar sem héngu yfir vídeói lon og don, horfandi jafnvel á ljótar og siðspillandi myndir, nokkurn tíma að verða að fólki spurði eldri kynslóðin,“ skrifaði Jón Bragi.

Þorgrímur kallaði eftir því að börn færu að lesa meira af bókum frekar en að hanga yfir skjám en Jón Bragi benti á að blessuð bókin hefði verið umdeild á sínum tíma.

„Foreldrar mínir og fleiri af þeirri kynslóð sögðu að þeir eldri hefðu tuðað yfir því að þeir lægju í bókum, eyðilegðu í sér sjónina með því og gætu hreinlega orðið skrýtnir eða vitlausir. Fyrir utan það að til voru bækur sem engu ungmenni var hollt að lesa að áliti hinna eldri. Nú er það hins vegar vinsæl skoðun að bara ef að blessuð börnin fáist til að lesa bækur og helst mikið af bókum að þá megi bjarga málunum. Og þarf varla að taka það fram að glötun heilla kynslóða var augljós vegna agaleysis á öllum ofangreindum áratugum,“ skrifaði Jón Bragi.

Aldrei spurt um geðheilsu í den

Um helmingur ungmenna í unglingadeildum er á því að geðheilsa þeirra sé ekki góð. Jón Helgi segist ekki hafa samanburðinn varðandi þá tölfræði enda var hann aldrei spurður sem unglingur.

„Fyrir það fyrsta, þá vil ég benda á að þessi spurning var ekki til þegar ég gekk í skóla á sjöunda og áttunda áratugnum. Og hefði einhver spurt heilan bekk um geðheilsu þá hefði enginn svarað því til að geðheilsa þeirra væri ekki góð. Á þeim tíma var fólk annað hvort geðveikt eða heilbrigt og ekkert þar á milli og hvernig sem okkur leið hefði okkur aldrei komið til hugar að segja það upphátt að við værum ekki við góða geðheilsu. Í dag er talað mun opnara um andlega líðan og börn og unglingar hafa miklu meiri skilning á þessum hlutum og eru mun opnari sjálf varðandi þessa hluti, sem ég vil taka fram að er mjög mikilvægt og mjög gott. Það að „helmingur nemenda í unglingadeildum telur geðheilsu sína ekki góða“ segir nákvæmlega ekki neitt um hvort að unglingum líði verr almennt en þeim leið fyrir 50, 30 eða 10 árum. Til þess að fullyrða það þurfum við upplýsingar/rannsóknir aftur í tímann til viðmiðunar og ég efast stórlega um að þær séu tiltækar 50 ár aftur í tímann,“ skrifar Jón Bragi.

Í viðtalinu við Þorgrím segir rithöfundurinn að ung stúlka hafi sjálf rétt upp hönd í tíma sem hann heimsótti og sagt að samfélagsmiðlar væru vandamál. Jón Bragi telur þó að á því sé mögulega skýring.

Foreldrar á fullu

„Þurfum við frekari vitnanna við? Getur verið að hún hafi heyrt það hjá ömmu sinni og afa?Er það ekki jafn dagljóst og að poppið, síða hárið, sjónvarpið, vídeóið og fleira eyðilagði kynslóðirnar hér áður fyrr (eða urðu þær kannski hreinlega að fólki þrátt fyrir allt?), að nú eru það samfélagsmiðlarnir og snjallsímarnir sem eru ógnin? Svo mikil ógn að hægt er að tala um „neyðarástand“? Og svo kemur þessi mótsögn: „Hann segir börn í dag ekki mega vera blaut, ekki mega vera þreytt, ekki mega vera svöng. Málin séu græjuð fyrir þau á meðan stað­reyndin sé sú að þau muni lenda á veggjum í fram­tíðinni.“ „Einn kennari sagði við mig í vetur: „For­eldrar nenna ekki lengur að vera for­eldrar.“ Ef að foreldrar í dag eru sífellt að sjá til þess að börnin séu ekki blaut, þreytt og svöng (sem Þorgrímur virðist telja neikvætt), bendir það ekki til þess að foreldrarnir séu að sinna börnunum of mikið heldur en hitt og er hægt að telja það til leti? Og heldur fólk að foreldrar hafi almennt haft meiri tíma og áhuga á að sinna börnunum hér áður fyrr þegar vinnutími var mun lengri en hann er í dag?,“ skrifar Jón Bragi.

Bendir hann á að til þess að umræðan um þetta málefni verði vitræn þurfi að vita með vissu ákveðna hluti á borð við hvort geðheilsa barna og ungmenna sé verri en hún áður var og hvað sé til viðmiðunar þar. Hvort að námsárangur sé sannarlega verri og hvort að það sé sannað að samskiptamiðlar og snjallsímar hafi neikvæð áhrif á börn og unglinga.

„Í raun og veru segir þessi grein/frétt mér ekki neitt annað en að Þorgrímur Þráinsson er orðinn hálfsjötugur,“ skrifar Jón Bragi að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hver er dularfulla konan sem gerði allt vitlaust á Met Gala?

Hver er dularfulla konan sem gerði allt vitlaust á Met Gala?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Laufey vaknaði með slæman hausverk – Lá nokkrum tímum síðar á milli heims og helju á sjúkrahúsi

Laufey vaknaði með slæman hausverk – Lá nokkrum tímum síðar á milli heims og helju á sjúkrahúsi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lofar þeim sem styrkja hana kampavínsboði á Bessastöðum

Lofar þeim sem styrkja hana kampavínsboði á Bessastöðum
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég er mjög meðvituð um að ég á bara þetta eina líf sem Katrín Myrra“

„Ég er mjög meðvituð um að ég á bara þetta eina líf sem Katrín Myrra“