fbpx
Fimmtudagur 09.maí 2024
Fréttir

Sauð upp úr þegar Þröstur neitaði að yfirgefa salinn – Rætt um lögreglu og handalögmál

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 14. september 2023 16:00

Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins, olli usla á sveitarstjórnarfundi í gær.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þröstur Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi Miðflokksins í Múlaþingi, neitaði að yfirgefa salinn eftir að hann var kosinn vanhæfur á sveitarstjórnarfundi í gær. Töluvert uppnám skapaðist og að sögn fundarfólks var rætt bæði um lögreglu og handalögmál í fundarhléi.

„Ég óhlýðnaðist valdi forseta,“ segir Þröstur. „Menn veltu því fyrir sér í fullri alvöru hvort það ætti að kalla til lögreglu og færa mig út úr salnum.“

Verið var að taka lokaákvörðun um leiðarval Fjarðaheiðargangna, það er hvort göngin ættu að fara svokallaða norðurleið eða suðurleið. Ákveðið var að fara suðurleið en Þröstur og félagar hans hjá Miðflokknum hafa barist fyrir norðurleiðinni.

Á fyrri stigum málsins hafa bæði Þröstur og annar Miðflokksmaður, Hannes Karl Hilmarsson, verið kosnir vanhæfir. Í tilfelli Þrastar var það vegna þess að bróðir hans á jarðir sem göngin myndu fara um.

 

Vitnaði í biblíuna og sat sem fastast

Þegar málið kom upp á fundinum bar Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknarflokks, upp vanhæfi Þrastar. En hann fékk að reifa sín málsrök áður.

Greindi hann frá því að hann hafi kært ákvörðun um vanhæfi sitt, í tvígang til Innviðaráðuneytisins og til Umboðsmanns alþingis. Einnig að hvorugur þessara aðila hafi úrskurðað um vanhæfi hans. Það er að ráðuneytið hafi ekki svarað spurningunni um vanhæfi með berum orðum eins og gert hefur verið í öðrum sambærilegum tilfellum. Umboðsmaður hafi vísað málinu frá þar sem ráðuneytiskærunum tveimur var blandað saman en í aðeins einu málinu hafi legið fyrir stjórnvaldsákvörðun Múlaþings.

Vitnaði Þröstur meðal annars í Biblíuna í tíu mínútna langri ræðu. Sagði hann það ekki auðvelt fyrir sig sem kristinn mann að stíga fram enn einu sinni í þessu vanhæfismáli. „Mér bera að elska óvini mína og biðja fyrir þeim sem ofsækja mig samkvæmt þeim lögum sem eru æðri öllum öðrum lögum, það er að segja ritningunni,“ sagði hann.

Eftir það voru greidd atkvæði um vanhæfi með handauppréttingu og tíu fulltrúar samþykktu það. Bað Þröstur þá aftur um að fá að tala. Þá greindi hann frá því að hann myndi ekki víkja úr salnum.

„Það er búið að kjósa mig vanhæfan hér og þar með eigi ég að víkja úr sæti. Þá segi ég eins og Pétur postuli, frammi fyrir yfirvöldum í Jerúsalem, til þess að gæta að lýðræði, kærleika, sannleika og tjáningarfrelsi í þessu landi, framar ber að hlýða guði en mönnum og ég mun sitja sem fastast,“ sagði hann.

 

Rætt um handalögmál í fundarhléi

Eftir að Þröstur neitaði að yfirgefa salinn ákvað Jónína að gera fundarhlé. Þetta fundarhlé stóð yfir í um 45 mínútur og var viðburðaríkt að sögn fulltrúanna.

„Við tókum fundarhlé og mátum stöðuna. Við ráðfærðum okkur við lögfræðing sem starfar hjá sveitarfélaginu svo við myndum ná að afgreiða málið með þeim hætti sem við töldum nauðsynlegt,“ segir Jónína.

Jónína gerði fundarhlé í 45 mínútur og kallaði til lögfræðing.

Spurningin sem uppi var komin var hvort halda ætti málinu áfram eða fresta því. Meirihlutinn taldi vænlegast að halda því áfram og var Þröstur spurður um hvernig hann sæi næstu skref fyrir sér.

Jónína segist ekki kannast við að hafa rætt um að kalla til lögreglu til að færa Þröst úr salnum.

„Það var ýmislegt reifað en ég get ekki sagt að það hafi komið sérstaklega til tals. Það var velt upp ýmsum möguleikum. Það var spurt hvort hann væri sjálfur að óska eftir því að það kæmi til handalögmála,“ segir Jónína.

 

Mátti sitja en ekki tala

Jónína segist aldrei hafa lent í neinu þessu líku áður en loks var ákveðið að Þröstur mætti sitja en ekki tala.

„Hann neitaði að víkja og þá var hann upplýstur um það að þar sem hann væri orðinn vanhæfur hefði hann hvorki málfrelsi, tillögu né atkvæðisrétt,“ segir Jónína.

Þröstur segist ekki hafa reynt að kveða sér orðs í umræðunum um leiðarvalið, það hefði ekkert þýtt.

Hann segir einnig að það hefði með réttu átt að stöðva fundinn. „Í samþykktum Múlaþings segir að ef komi upp aðstæður þar sem forseti ráði ekki við aðstæður eigi að slíta fundi. Hann má ekki klára fundinn.“

Vísar hann í b. lið 16. greinar samþykktar um stjórn Múlaþings, er lýtur að valdi forseta. Þar segir:

„Ef sveitarstjórnarfulltrúi hlýðnast ekki úrskurði forseta eða almenn óregla kemur upp á fundi skal forseti gera hlé um stundarsakir eða ef nauðsyn krefur fresta eða slíta fundi.“

„Það var gengið mjög hart á mig þangað til ég náði að koma fólki í skilning um hvað málið snerist. Fólk var greinilega ekki búið að skilja það að ég var búinn að reyna allt til að fá úrskurð,“ segir Þröstur.

 

Yfirgaf salinn í lokaumræðu

Í lok fundar var tekin fyrir fundargerð umhverfis og framkvæmdaráðs, þar sem komið var inn á sama efni. Bað Jónína Þröst þá aftur um að víkja úr salnum þar sem hann hefði verið kosinn vanhæfur um þetta umræðuefni fyrr á fundinum.

Í þetta skipti ákvað Þröstur að fara af fundinum eftir að hafa haldið stutta tölu og lét bóka eftirfarandi:

„Þar sem væntanlega ég yrði sviptur málfrelsi undir þessum liðum þó ég sæti í salnum líkt og gert var undir fjórða fundarlið hér á undan, sé ég ekki ástæðu til að tefja fund meir en orðið er af meintu vanhæfi mínu.
Mun því hlíta boði forseta og yfirgefa salinn. Það breytir ekki því að ég sætti mig ekki við að vera dæmdur og kosinn vanhæfur þegar úrskurðarvaldið í þessu landi hefur ekki tekið undir það sjónarmið að ég sé vanhæfur, hvorki Innviðaráðuneyti né Umboðsmaður Alþingis þó til beggja hafi verið leitað.
Mótmæli því alræðisvaldi sem sveitarstjórn hefur tekið sér í að lýsa mig vanhæfan sem áður nefnd úrskurðar-embætti taka hvorugt undir, heldur kveða ekki upp úrskurð eins og þeim þó ber og um var beðið.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Staðreyndavillur í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar um staðreyndavillur í innslagi Maríu Sigrúnar

Staðreyndavillur í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar um staðreyndavillur í innslagi Maríu Sigrúnar
Fréttir
Í gær

Biggi Sævars kærir konu til lögreglu fyrir rangar sakargiftir og meiðyrði

Biggi Sævars kærir konu til lögreglu fyrir rangar sakargiftir og meiðyrði
Fréttir
Í gær

Segja að Rússar hyggist neyða íbúa á herteknu svæðunum til herþjónustu

Segja að Rússar hyggist neyða íbúa á herteknu svæðunum til herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Klæddist eins og ruslapoki til að stela tveimur hleðslutækjum – „Ég hélt að einhver væri að grínast í mér“

Klæddist eins og ruslapoki til að stela tveimur hleðslutækjum – „Ég hélt að einhver væri að grínast í mér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fríkirkjan Kefas fær að standa – Lýður taldi sig eiga lóðina

Fríkirkjan Kefas fær að standa – Lýður taldi sig eiga lóðina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tíðindi hjá Sverri Einari: B5 hættir starfsemi en Exit heldur áfram

Tíðindi hjá Sverri Einari: B5 hættir starfsemi en Exit heldur áfram