Hátíðarhöld um verslunarmannahelgina hafa víðast hvar farið vel fram, að sögn skipuleggjanda. RÚV greinir frá þessu. Fjölmennasta hátíðin er Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og þar hafa nokkrar líkamsárásir verið tilkynnar og eitt kynferðisbrot er til rannsóknar. Einnig eru nokkur fíkniefnamál tengd hátíðinni í rannsókn.
Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að hátíðin hafi gengið vel miðað við þann mikla fjölda sem kom saman í Herjólfsdal. Hann segir að líkamsárásirnar í nótt hafi verið minniháttar og einnig fíkniefnamálin. Tveir gistu fangageymslur í nótt var sleppt snemma í morgun.
Að sögn lögreglu var nóttin á höfuðborgarsvæðinu mjög róleg. Nokkuð fámenni var í miðborginni í nótt.