Kristján Þorvaldsson, ritstjóri og fjölmiðlamaður, er látinn, sextugur að aldri. Hann varð bráðkvaddur sunnudaginn 6. ágúst á Lálandi í Danmörku. Vísir.is greinir frá þessu og hefur eftir tilkynningu frá aðstandendum.
Kristján fæddist þann 4. maí árið 1962 á Fáskrúðsfirði. Hann var yngstur fjögurra systkina, sonur hjónanna Þorvaldar Jónssonar og Oddnýjar Aðalbjargar Jónsdóttur. Hann ólst upp á Fáskrúðsfirði þar til hann flutti til Reykjavíkur til náms við Menntaskólann við Sund.
Kristján starfaði við fjölmiðla áratugum saman og var t.d. um langt skeið ritstjóri hins vinsæla tímarits, Séð og heyrt. Hann ritstýrði fleiri tímaritum og var um skeið útvarpsmaður í dægurmálaútvarpi Rásar 2.
Kristján skrifaði ævisögu stjórnmálamannsins Guðmundar Árna Stefánssonar: Hreinar línur, sem kom út árið 1994.
Kristján bjó síðustu æviárin á Lálandi í Danmörku. Hann lætur eftir sig sambýliskonu, tvö börn, tvö stjúpbörn og sjö barnabörn.
DV sendir öllum aðstandendum Kristjáns innilegar samúðarkveðjur.