fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Fréttir

Hatrammar deilur í fjölskyldu Ásmundar – Davíð tekst á við Golíat, eldri hjón flæmd af heimili sínu og furðuleg viðbrögð lögreglu við yfirstandandi innbroti

Ritstjórn DV
Mánudaginn 24. júlí 2023 11:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hatrammar fjölskylduerjur hafa lengi átt sér stað í Dalabyggð, en málið tengist inn í stjórnarráðið þar sem um er að ræða fjölskyldu Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra. Ljósi er varpað á eina hlið þessa erfiða deilumáls í hlaðvarpi sem þrjár systur, sem tengjast Ásmundi ættarböndum, hafa farið af stað með. Hlaðvarpið kallast Lömbin þagna ekki og þar segjast systurnar svipta hulunni af 15 ára ættardeilum ráðherra sem meðal annars hafi falið í sér ofsóknir, skemmdarverk, innbrot og andlegt ofbeldi.

Sjá einnig: Hatrammar ættardeilur Ásmundar afhjúpaðar – Sólundaður föðurarfur, myrkraverk, ofsóknir og ráðherra staðinn að innbrotum sem löggan lét slæda

Fyrsti þáttur kom út fyrir viku síðan en þar röktu systurnar aðdraganda þessa erfiða máls, andlát afa þeirra, en í kjölfar þess hafi faðir Ásmundar, Daði Einarsson, sólundað öllum föðurarfi sínum, sem og sjö systkina sinna, sem varð til þess að Lambeyrar, jörð fjölskyldunnar, var sett á uppboð. Á uppboðinu festi Skúli Einarsson, faðir systranna og bróðir Daða, kaup á jörðinni ásamt tveimur systrum sínum og mági, en Daði mun aldrei hafa viðurkennt eignarétt þeirra þrátt fyrir skýra eignarheimild samkvæmt þinglýstu afsali.

Annar þáttur kom út í gær en þar rekja systurnar hlut sem föðurbróður þeirra, Valdimar Einarsson, á að málum, en eins gerðu þær formála að þættinum þar sem þær fara yfir þau viðbrögð sem hlaðvarpið hefur vakið í samfélaginu og yfirlýsingu sem Ásmundur Einar gaf frá sér.

Sjá einnig:  Ásmundur Einar tjáir sig loks um fjölskylduerjurnar

Davíð gegn Golíat

Í formálanum segja systurnar að þær hafi verið varaðar við áður en þær færu af stað með hlaðvarpið að enginn fjölmiðill myndi nenna að hlusta og gera málinu skil. Raunin hafi þó verið önnur og eru þær gífurlega þakklát fyrir viðbrögðin. Helsta gagnrýnin sem þær hafi fengið sé að málið varði sorglegar deilur innan fjölskyldunnar og eigi ekki erindi við almenning. Við því benda þær á að málið sé þó alvarlegra en svo, þarna komi við sögu hegningarlagabrot, og slíkt sé ekki einkamál. Eins hafi þær verið gagnrýndar fyrir að þátturinn sé á léttu nótunum. Við því benda þær á að ef þær gætu ekki hlegið af þeim sem hafa kúgað þær þá myndu þær hreinlega gráta og það yrði ekki gott hlaðvarp að þar væru þrjár systur grátandi í fleiri fleiri klukkutíma. Þær hafi þó mikið grátið á bak við tjöldin.

Stórfjölskylda þeirra hafi þó ekki brugðist við fyrsta þættinum, en þær hafi svo sem reiknað með því. Ásmundur Einar hafi þó sent frá sér yfirlýsingu.

„Jæja þá er ráðherra loksins búinn að rjúfa þögnina – mikið var- og svara því sem er og eins og við mátti búast er þetta frekar flatt, ómerkilegt, stjórnmálalegt svar – „Þetta eru bara aumar ættardeilur, kemur mér ekkert við“. Við vekjum athygli á því að hann segir mjög skýrum orðum að hann hafi ekki verið ákærður fyrir innbrotið og ekki yfirheyrður.“

Það sé ekki tilviljun að Ásmundur hafi orðað það svo, enda sé það staðreynd að hann hafi verið staðinn að verki af lögreglu, en lögregla hafi þó ákveðið að aðhafast ekki í málinu.

„Við stöndum við sannleikann – hann var staðinn að innbrotum.“

Það jákvæða sé þó að engin frekari skemmdarverk hafi átt sér stað undanfarna viku, sem sé vissulega það markmið sem systurnar stefna að. Í þættinum gagnrýna þær viðbrögð lögreglunnar á Vesturlandi við málinu, en vinnubrögðin séu til skammar og velta þær fyrir sér hvort það séu ítök Ásmundar eða mögulegur vinskapur hans við lögreglu sem útskýri hvers vegna ekki sé gripið til neinna aðgerða. Þetta mál varði nefnilega ekki Jón á móti Jóni heldur Jón á móti séra Jóni, Davíð á móti Golíat.

Föðurbróðir og nágrannahrellir

Að þessu sinni rekja systurnar hlut föðurbróður síns, Valdimars Einarssonar, að málinu. Valdimar búi í Nýja-Sjálandi en komi reglulega til Íslands og þá ofsæki hann fjölskyldu systranna. Hann hafi brotist þar inn í vistaverur á jörðinni, tekið niður girðingar, eltihrellt systur sínar og reynt að bera föður systranna röngum sökum.

Þegar faraldur Covid hafi verið í hámæli hafi Valdimar til dæmis brotist inn í hús á Lambeyri og byrgt sig þar inni. Hafi hann notað girðingastaura til að byrgja fyrir hurðar svo lögregla og fjölskylda hans kæmust ekki inn án þess að valda töluverðum skemmdum. Hann hafi komið miða fyrir á hurð þar sem tilkynnt væri að þar væri maður í sóttkví. Hann hafi þó enga heimilt haft til að verja sóttkví í téðu húsnæði, enda ekki eigandi þess. Daði Einarsson hafi verið meðvitaður um þetta athæfi bróður síns og liðsinnt honum með því að leggja bifreið sinni þvert yfir heimreiðina.

Lögregla hafi verið kölluð til og hafi í stað þess að athæfast spurt hvort það væri nú ekki bara eðlilegt að hann fengi að klára sóttkví þarna, þar sem hann væri jú bróðir eigenda. Hafi hann þó áttað sig að lokum að þetta væri ekki að fara að ganga upp hjá honum og þá haft mikið fyrir því að koma sér út um glugga á húsnæðinu í von um að þar með þyrfti að brjóta upp hurð til að aðrir kæmust inn. Systurnar segja að tilhugsunina um hvernig þessum stóra og mikla manni hafi gengið að komast þessa leið út sé frekar skondin. Lögregla hafi þó fundið sama glugga og notað til að komast inn í húsið. Birta þær máli sínu til stuðnings myndir sem teknar voru í húsnæðinu eftir að Valdimar hafði haft sig á brott.

Röktu þær að um Valdimar hafi eins verið fjallað í erlendum miðlum fyrir framgöngu sína gagnvart nágrönnum í Nýja-Sjálandi. Þar hafi hann hrakið krabbameinsveika konu frá heimili sínu með því að byggja stærðarinnar bárujárnsgirðingu til að loka fyrir útsýni.

Sjá einnig:  Hjón á Nýja Sjálandi flæmd í burtu af íslenskum nágranna:„Hver vill sitja og horfa á þetta allan daginn?“

Rangar sakargiftir

Eitt sinn hafi Skúli, faðir systranna, komið að Valdimar og konu hans að rífa niður girðingar sem Skúli hafði sjálfur reist. Hafi Skúli stigið út úr bifreið sinni og Valdimar þá strax sakað hann um að hafa keyrt á konu sína. Skúli hafi þarna verið meðvitaður um að bróðir hans væri til alls vís og því ekki nálgast hann nema hafa á sér GoPro-myndavél til að geta fært sönnur á málsatvik. Á upptökunni sjáist hvar Valdimar hreytir í hann áðurnefndri ásökun og hvað það tók konu hans nokkra stund að byrja að spila með. Valdimar hafi engu að síður kært þetta meinta brot til lögreglu og haldið því fram að hann ætti atvikið á upptöku. Sú upptaka hafi þó aldrei verið lögð fram og hafi lögreglan fljótlega hætt rannsókn.

Eins hafi Valdimar sakað Skúla um að hafa ráðist á son Valdimars á fjölskyldufundi. Þar hafi þó verið fjöldi vitna, en enginn sá þessa meintu árás. Eins hafi sonur Valdimars verið fullorðinn maður og fullfær um að kæra slíkt brot sjálfur. Þar að auki hafi Valdimar ekki kært brotið til lögreglu heldur til fjármála- og efnahagsráðuneytisins – sem þurfti að benda Valdimar á að ráðuneytið leggi ekki stund á að rannsaka meint ofbeldisbrot.

„Einu sinnis vona fundur um þessi mál. 5-6 manneskjur á fundinum sem fór mjög eðlilega fram og ekkert dramatískt. Eftir fundinn fer Valdi og kærir pabba fyrir líkamsárás. Þá var sonur hans Valda á fundinum og Valdi kærir pabba fyrir að hafa ráðist á hann á fundinum þar sem allir voru og sáu að það réðst enginn á neinn. Hvert haldið að hann hafi kært þetta? Maður hefði haldið lögregluna en Valdi kærði pabba til efnahags- og viðskiptamálaráðuneytisins.“

Sjá einnig:  Föðurbróðir ráðherra finnst ekki – Fjölskylduerjur leiða til dómsmáls um innbrot

Stálu fyrir framan nefið á lögreglu

Rekja þær einnig í þættinum að Daði Einarsson og Valdimar hafi komið að gamla Lambeyrarhúsinu og þaðan stolið ýmsu lauslegu sem þeir hafi ekki átt tilkall til. Meðal annars þvottavél, skóm af Skúla bróður sínum, sængum og koddum og reynt að taka rúm sem ein dóttir Skúla átti. Lögreglan hafi komið á vettvang á meðan á þessu stóð og sem áður, ekki gripið til neinna aðgerða. Hafi eigendur bent á að bræðurnir væru að taka þvottavél sem væri um ársgömul og þeir ættu ekkert í. Þessu hafi lögreglan svarað með því að benda á að hægt sé að kaupa notaðar þvottavélar fyrir lítinn pening á netinu. Lögregla hafi bent á að rúmið sem þeir ætluðu að taka væri gamalt og líklega kominn tími til að kaupa nýtt. Velta systurnar fyrir sér hvort þetta sé almennt verklag hjá lögreglu sem kölluð er út í yfirstandandi innbrot, að standa hjá og fylgjast með ef þjófurinn hreinlega segist eiga hlutina sem hann er að taka þó hann hafi engar sönnur fært fyrir því.

„Löggan segir – Þú getur bara farið á bland.is og keypt aðra. Ha?“

Raunin sé sú að þegar Valdimar sé á Íslandi þá sé systrunum ekki rótt. Skemmdarverkum á jörðinni fjölgi mikið og það sé eins og Daði og Valdimar espi hvorn annan upp.

„Það hættir aldrei. Þessi maður, þetta er maðurinn sem Ásmundur Einar Daðason ráðherra styður og nú ætla ég bara að spyrja þig hlustandi, ef þú værir að díla við lögguna og dómskerfið og værir að fara á móti ráðherra – myndir þú treysta kerfinu fullkomlega? […] Svo er það bara þannig að Ásmundur styður þennan mann og eftir ráðherranum dansa limirnir svo öll restin á fjölskyldunni segir – Ásmundur segir að þetta sé fínt. Hann er svo frábært, hann er svo góður pólitíkus“.

Þetta sé ekki til þess fallið að auka traust á íslenskum stjórnmálum. Þær benda eins í þættinum á að þær séu alls ekki þær einu sem hafi harma að hefna gegn Daða, Valdimar og Ásmundi. Af ráðherra sé þess skemmst að minna að sum máli hafi ratað á síður fjölmiðla.

„Ekki okkar sögur að segja frá en sumar haf komið í fjölmiðlum eins og þegar hann ælir á fólk og svona í flugvél“

Systurnar segja verst að stórfjölskyldan hafi ákveðið að taka stöðu með Daða og Ásmundi í þessum erfiðu deilum. Það sé sagt í fjölskyldunni að þau eigi að bera harma sína í hljóði, eða með öðrum orðum ekki ræða um deilumál í „skólanum“.

„Ef það er eitthvað sem þetta mál getur kennt manni er það að fólk getur ekki valið sér ættmenni.“

Sjá einnig: Ásmundur Einar sakaður um innbrot af föðurbróður:„Ekki á mínum snærum“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt