New York-búar eru í áfalli eftir að fregnir bárust af óhugnanlegum skotárásum í Queens-hverfi borgarinnar í gær. Ónefndur maður keyrði um hverfið á vespu og virtist skjóta á fólk af handahófi. Meðal annars skaut viðkomandi 87 ára gamlan mann í bakið en rétt áður hafði íbúi sem var úti að ganga með hundinn sinn sloppið með naumindum og náð að flýja af vettvangi. Sá sem varð fyrir skotinu lést af sárum sínum en lögregla hefur einnig staðfest að þrír aðrir hafi særst í sambærilegum árásum.
Lögregla náði að handsama manninn en komið hefur fram að hann hafði talsvert magn skotfæra á sér og talið er að hann hafi haft í hyggju að skjóta enn fleiri vegfarendur. Hann er 25 ára gamall og var nýlega handtekinn vegna þess að hann var að selja falsaðan varning.