Það er dýrt að gagnrýna Pútín og hina „sérstöku hernaðaraðgerð“ í Úkraínu og því fá andstæðingar Pútíns að kenna á.
Pútín er þekktur fyrir að taka andstæðinga sína engum vettlingatökum og einn helsti andstæðingur hans, Alexei Navalny, hefur ítrekað orðið fyrir ýmsum aðgerðum af hálfu Pútíns og undirsáta hans. Það hefur verið eitrað fyrir honum, hann handtekinn, dæmdur í fangelsi og að undanförnu hafa fréttir borist af því að heilsu hans hafi hrakað mjög en hann situr í fangelsi. Stuðningsmenn hans telja að eitrað sé fyrir honum í fangelsinu.
Ekki má gleyma öllum þeim andstæðingum Pútíns sem hafa látist við dularfullar kringumstæður. Dottið út um glugga, verið skotnir eða eitrað fyrir þeim.
Í síðustu viku lokuðu Pútín og hans menn munninum á tveimur stjórnarandstæðingum til viðbótar . Valdimir Kara-Murza, 41 árs rússnesk/breskur blaðamaður, var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir landráð. Hann var sakfelldur fyrir að hafa fordæmt innrás Rússa í Úkraínu. Ákæran hljóðaði upp á landráð og dreifingu rangra upplýsinga um rússneska herinn.
Ilya Yahsin, 39 ára, tapaði áfrýjun sinni í síðustu viku en hann er gamall bandamaður Navalny. Hann var dæmdur í átta og hálfs árs fangelsi á síðasta ári fyrir að „dreifa fölskum upplýsingum“.
Þetta eru þekktustu stjórnarandstæðingarnir sem hafa orðið fyrir barðinu á Pútín og undirsátum hans að undanförnu. En miklu fleiri andstæðingar forsetans hafa hlotið svipuð örlög.