fbpx
Laugardagur 12.október 2024
Fréttir

Brasilíufanginn með 10 í bókfærslu sem átti meint hóruhús í Ármúla – Hver er Sveddi tönn ?

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. apríl 2023 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fregnir bárust frá Brasilíu í morgun um að íslenskur karlmaður hafi þar verið handtekinn, grunaður um að vera einn af höfuðpaurunum í umfangsmikilli glæpastarfsemi og fíkniefnasmygli. Síðar greindu RÚV og Vísir frá því að fréttastofur þeirra hefðu heimildir fyrir því að um væri að ræða Sverri Þór Gunnarsson, sem er þó betur þekktur undir viðurnefninu Sveddi tönn.

Sveddi tönn var áberandi í umræðunni hér á landi á árum áður og lenti ítrekað í kast við lögin. En hver er þessi maður?

Krókurinn beygðist snemma

Sveddi er fæddur árið 1972 og hófst brotaferill hans strax við sextán ára aldur. Hafði lögreglan þá ítrekað afskipti af honum vegna umferðar- og fíkniefnabrota. Með tíð og tíma urðu brot hans skipulagðari og stórtækari og á árunum 1991-1995 var hann fjórum sinnum sakfelldur fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnabrot. Viðurnefnið Sveddi tönn fékk hann vegna tannlýtis.

Hann vakti svo gífurlega athygli um aldamótin þegar hann var einn höfuðpauranna í Stóra fíkniefnamálinu. Þar var Sverrir dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi og voru um 20 milljónir í hans eigu gerðar upptækar. Var honum gert að sök að hafa tekið á móti 105 kílóum af kannabis yfir nokkurra mánaða tímabil. Teygði málið sig út fyrir landsteinana til Danmerkur, Hollands og Bandaríkjanna og varðaði innflutning á miklu magni af kannabis, amfetamíni, kókaíni og e-pillum.

Í kjölfar málsins var í fyrsta sinn dæmt fyrir peningaþvætti á Íslandi en Sveddi hafði skipulagt þvættið í gegnum kjötvinnslufyrirtækið Rimax. Fjallað var um Svedda í þáttunum Sönn íslensk sakamál þar sem fram kom að hann lifði hátt, átti miklar eignir, góða bíla og gekk í dýrum fatnaði.

Eftir að hann lauk afplánun flutti hann erlendis og var þar sagður umfangsmikill í undirheimum, en hann bjó um tíma á Spáni og sást til hans í Amsterdam. Að mestu hélt hann sig þó í Brasilíu. Var hann lengi grunaður um að standa að baki fíkniefnasmygli til landsins.

Hann hélt þó áfram tengslum við landið og átti hér eignir.

Átti um tíma rosalega villu – „Algjört glæsihýsi“

Hafði blaðamaður DV samband við félaga Sverris af Litla-Hrauni í tengslum við nærmynd sem var gerð árið 2012. Sá þekkti vel til undirheima.

„Hann var upp á sitt besta fyrir árið 2000, en sá tími mun ekki. koma aftur. Þá var hann áberandi í fíkniefnaheiminum á Íslandi. Á tímabili átti hann rosalega villu í Brasilíu og þarna voru verðir með vélbyssur og sundlaug og allt. Algjört glæsihýsi.“

Var greint frá því að félagar Svedda hafi heimsótt hann til Brasilíu og dvalið þar í góðu yfirlæti.

„Hann tekur svona syrpur, græðir eitthvað, klúðrar einhverju, græðir, klúðrar – þetta er svona upp og niður. Stundum hefur hann ekki átt fyrir mat.“

Var Svedda stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur árið 2010 í tengslum við faðernismál en hann var talinn vera faðir ungrar stúlku sem fæddist árið 2006 og hafði móðir barnsins ítrekað reynt að ná sambandi við Svedda en hafði það ekki borið árangur og hafði hann hundsað ítrekaðar beiðnir sýslumanns um fund.

Brasilíufanginn sem fékk 10 í bókfærslu

Viðmælandi DV árið 2012 greindi frá því að Sverrir hefði komið sér í vandræði í Brasilíu. Þar hafi hann skuldað pening og þurft að forða sér.

„Sverrir er enginn aumingi, hann er bara á millistiginu og hefur eflaust haft það bara ágætt síðustu árin. En hann er náttúrlega búinn að étast alveg upp.“

Einn af heimildarmönnum DV í nærmyndinni 2012 greindi frá því að Sveddi væri almennt yfirvegaður í hátterni en ætti það til að æsast ef vegið væri að honum.

„Þessi gaur er vingjarnlegur og góður í að tala fólk til. Hann er þannig séð ósköp venjulegur gaur.“

Sögðu heimildarmenn að Sveddi væri líka vel gefinn en á Litla-Hrauni hafi hann verið vinsæll meðal kennara og þótt afar samviskusamur. Þar stundaði hann nám af kappi við Fjölbrautaskólann á Suðurlandi. Fjallað var um námsárangur hans í DV árið 2003, en um það leyti var hann fluttur frá Litla-Hrauni í fangelsið á Akureyri. Sverrir fékk háar einkunnir: 10 í bókfærslu, 10 í verslunarrétti, 9 í stærðfræði og 8 í íslensku. Ingi Ingason sem þá var kennslustjóri á Litla-Hrauni sagði í viðtali: „Ég get alveg staðfest það að hann hefur staðið sig ákaflega vel. Hann er mjög samviskusamur alla jafnan.“

Brasilískar mellur og dóp í hóruhúsi í Ármúla

Í lok mars árið 2006 gerðu fíkniefnalögreglan og víkingasveitin strandhögg þegar þær brutust inn í húsnæði í Ármúlanum. Þar fundust fíkniefni og brasilískar stúlkur sem talið var að hefðu verið þar til að selja vændi. Eigandi húsnæðisins var Sveddi tönn. Enginn var úrskurðaður í gæsluvarðhald en hafði DV heimildir fyrir því að húsið hefði verið vaktað um þó nokkurn tíma af fíkniefnadeild lögreglu.

Fannst við leitina fullkomið bókhald yfir starfsemi hússins í umslögum. Þar var að finna yfirlit um hversu mikið af verjum hafi verið keypt og hversu mikið af stinningarlyfinu Viagra. Eins var þar að finna bókhald yfir sölu fíkniefna og um vændisþjónustu.

Rannsóknarlögreglan greindi síðar frá því að fíkniefnaleit sem framkvæmd var í húsinu í Ármúla hefði ekki tengst rannsókn á skipulögðu vændi og hafi engar vísbendingar fundist um slíkt.

DV fjallaði þó áfram um málið og greindi frá því að brasilískar stúlkur sem hafi haft búsetu í Ármúlanum hafi verið gerðar út í vændi og þeim jafnvel skutlað heim til viðskiptavina í eins konar heimsendingarþjónustu. Hafði DV fengið það staðfest frá fjölda eintaklinga að slík starfsemi hefði vissulega verið í Ármúlanum.

Fljótlega eftir að málið kom upp fóru brasilísku konurnar úr landi.

„Ég er dópisti“

Árið 2012 steig Sveddi tönn fram í einkaviðtali við DV, en hann var þá staddur í fangelsi í Brasilíu og hafði í undirrétti verið dæmdur til 22 ára fangelsisvistar fyrir að hafa skipulagt smygl á rúmlega 50 þúsund e-pillum. Yfirmaður lögreglunnar í Rio de Janeiro orðaði það svo að lögreglan hefðu lagt út net og náð þá hákarli.

Þegar viðtalið var tekið hafði Sveddi áfrýjað málinu og sagðist sannfærður um að hann yrði sýknaður.

„Ég verð sýknaður. Á ég að segja þér út af hverju? Af því að ég gerði ekki neitt af mér.“

Lofaði hann því að hann yrði kominn út innan árs. Hann hafi lent í þessum aðstæðum því hann hafi vissulega brotið af sér í gegnum tíðina en hann hafi aldrei neytt neinn til að gera eitt né neitt.

„Ég er dópisti. Ég neyti fíkniefna á hverjum einasta degi. Ég er nefnilega miklu meiri dópisti en dópsali. Mér finnst voða gott að fá mér kók í nefið, ég er alveg sjúkur í þetta. En ég er ekki að hagnast á eiturlyfjum.“

Hann hafi fyrir tilviljun endað á McDonalds með stúlku sem var að smygla e-pillum, en hann hafi bara verið þangað kominn til að versla sér kókaín. „Ég var bara að fara kaupa mér 10 grömm af kóki.“

Bar hann blaðamönnum og fjölmiðlum á Íslandi ekki góða söguna og sagði þá hafa eyðilagt líf hans og neitaði hann fyrir þær sakir að vera með um níu óáfplánaða dóma á bakinu.

„Fjölmiðlar eru búnir að gefa afkáralega mynd af mér þannig ég fæ 22 ára dóm núna. Fjölmiðlar ásamt eiturlyfjum eru búnir að eyðileggja líf mitt eins og ég hef kannski eyðilagt líf margra annarra sem hafa endilega viljað kaupa dóp.“

Sveddi sagðist ekki líta á sig sem hættulegan mann og sagðist hann hættur að sýsla með fíkniefni. Hann sagðist lifa góðu lífi á peningum sem íslensk ríkið hafi þvegið fyrir hann.

„Er ég hættulegur? Ég myndi ekki segja það, nei. Ég er dópisti. Ef félagar mínir leita til mín og spyrja hvort ég geti reddað dópi þá þekki ég yfirleitt alltaf eitthvert fólk sem á dóp. Að því leytinu til er kannski hægt að kalla mig hættulegan, ég er ekki handrukkari, ég er hættur að sýsla með dóp. Ég á einhverja smá peninga, íslenska ríkið, það þvoði fyrir mig milljón evrur á sínum tíma. Þegar þeir dæmdu mig fyrir þetta stóra fíkniefnamál þá gerðu þeir upptækar flestar eignirnar mínar og áætluðu á mig fíkniefnagróða upp á einhverjar 30 milljónir. Ég borgaði milljónirnar og fékk allt dótið mitt til baka. Svo þegar ég losnaði út úr fangelsinu þá voru þessar þrjátíu milljónir orðnar 100. Ríkið í rauninni hreinsaði peningana mína. Ég hef haft það alveg ágætt án þess að vera mikið að smygla dópi eftir það. Ég er enginn engill, ég kem stundum með puttana nálægt svona hlutum, redda fólki stundum og svona. Ég er ekki að smygla. Ég nota þetta dóp, það er eiginlega það eina sem ég geri.“

Trúlofaður í fangelsinu

Í júlí árið 2012 greindi DV frá því að Sveddi hefði nýlega trúlofað sig í fangelsinu í Brasilíu. Var unnusta hans sögð íslensk og var hún sögð hafa farið til Brasilíu eftir að Sveddi var handtekinn í júlí árið 2011. Hafi parið sett upp hringana í fangelsinu Ary Franco í úthverfi Rio og væru þau alsæl með ráðahaginn. Í þeirri frétt kom einnig fram að Sveddi væri eftirlýstur á Spáni en hann hafi flúið þaðan land eftir að hafa verið dæmdur í níu ára fangelsi vegna innflutnings á kókaíni árið 2010.

Fannst ekki í fangelsi í Brasilíu

Stundin greindi frá því árið 2016 að Svedda væri hvergi að finna í fangelsum Brasilíu. Hefði hann átt að vera staddur í fangaklefa rétt fyrir utan Rio de Janeiro að afplána þann 22 ára dóm sem hann hlaut fyrir smyglið á e-pillunum. Hafði Stundin reynt að hafa upp á Sverri til að ræða við hann um hvarf Friðriks Kristjánssonar sem ekkert hafði spurst til síðan í mars 2013 eftir að hann flaug til Suður-Ameríku á slóðir Svedda og fleiri Íslendinga. Í undirheimum hafi sú kjaftasaga gengið fjöllum hærra að Sveddi hefði stungið af í Brasilíu eftir að hafa fengið dagsleyfi úr fangelsinu. Þetta hafi verið skipulagður flótti. Ekkert af þessu fékk Stundin þó staðfest.

Ef þær heimildir sem kveða á um að Sveddi tönn hafi í morgun verið handtekinn í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar í Brasilíu eru réttar gæti hann átt yfir höfði sér allt að 40 ár í fangelsi og það þrátt fyrir að eiga samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum að vera nú þegar í afplánun í fangelsi.

Aðgerðin gengur undir heitinu „Match Point“ og var unnin í samstarfi við íslensk yfirvöld og tóku starfsmenn íslensku lögreglunnar meðal annars þátt í þeim. Markmið aðgerðarinnar er að leysa upp skipulögð samtök sem hafa sérhæft sig í peningaþvætti og fíkniefnasmygli en grunur leikur á um að samtökin stundi víðtæka brotastarfsemi í Brasilíu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Er ríkisstjórnin að springa? Segir að Bjarni gæti freistast til að boða til kosninga á næstu dögum

Er ríkisstjórnin að springa? Segir að Bjarni gæti freistast til að boða til kosninga á næstu dögum
Fréttir
Í gær

Maður hátt á sjötugsaldri dæmdur í 20 mánaða fangelsi

Maður hátt á sjötugsaldri dæmdur í 20 mánaða fangelsi
Fréttir
Í gær

Guðbjörn um dóminn yfir Albert – „Sæti fótboltastrákurinn er enn þarna úti og sennilega enn nauðgandi“

Guðbjörn um dóminn yfir Albert – „Sæti fótboltastrákurinn er enn þarna úti og sennilega enn nauðgandi“
Fréttir
Í gær

Minnist banaslyssins í Breiðamerkurjökli og hraunar yfir ferðaþjónustufyrirtæki – „Margur verður af aurum api“

Minnist banaslyssins í Breiðamerkurjökli og hraunar yfir ferðaþjónustufyrirtæki – „Margur verður af aurum api“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefán skiptir um skoðun og vill vera áfram

Stefán skiptir um skoðun og vill vera áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fréttamaður fékk fljúgandi rusl í andlitið – Áhorfendur CNN mjög áhyggjufullir | Myndband

Fréttamaður fékk fljúgandi rusl í andlitið – Áhorfendur CNN mjög áhyggjufullir | Myndband