Þetta kemur fram í tilkynningu frá WHO í kjölfar þess að veiran fannst í feðginum frá Kambódíu. Dóttirin lést af völdum veirunnar en hún var 11 ára. Faðir hennar greindist síðan með veiruna í kjölfarið.
Ekki er vitað hvort þau smituðust af sama dýrinu, mismunandi dýrum eða hvort annað þeirra smitaðist fyrst af dýri og smitaði síðan hitt.
WHO fylgist því grannt með stöðunni um allan heim.
Sylvie Briand, forstjóri heimsfaraldurs- og farsóttardeildar WHO, sagði að staðan vegna H5N1, sem er fuglaflensuveiran, sé áhyggjuefni á heimsvísu vegna þess hversu útbreidd veiran er í fuglum um allan heim auk sífellt fleiri tilfella í spendýrum, þar á meðal fólki.
Hún sagði að WHO taki hættuna, sem stafar af veirunni, mjög alvarlega og hvetji til aukinnar árvekni um allan heim.
Fyrr í mánuðinum sagði WHO að lítil hætta steðjaði að fólki af fuglaflensunni.