fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Segir samruna stórfyrirtækja og hins opinbera vera grunn að fasisma

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 1. febrúar 2023 11:30

Arnar Þór Jónsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnar Þór Jónsson varaþingmaður segir sterkan undirtón fasisma í samfélaginu og að við verðum að vera á varðbergi gagnvart samruna stórfyrirtækja og stjórnvalda. Arnar er nýjasti getur Podcasts Sölva Tryggvasonar og þar ræðir hann þá þróun að stórfyrirtæki séu að verða stærri og stærri og hvernig það endar á að verða lýðræðinu stórhættulegt.

„Ein alvarlegasta myndbirting fasisma“

„Í viðskiptum er þessi þróun líka í gangi. Undir merkjum samkeppni fækkar stöðugt fyrirtækjum og þau stóru verða stærri og stærri og í raun verður meiri og meiri fákeppni. Það eru fleiri og fleiri svið þar sem eitt, tvö eða þrjú fyrirtæki ráða nánast öllu og í staðinn fyrir að áherslan sé á verðmætasköpun er áherslan á samruna og yfirtökur svo að topparnir geti greitt sjálfum sér sem mestan arð. Þessi fyrirtæki eru oft alþjóðleg og þessi glóbalismi sem er stundum talað um er í raun þessi markaðshyggja á sterum sem hirðir ekkert um hagsmuni vinnandi fólks. Svo eru þessir risar í raun orðnir hættulegir lýðræðinu af því að þeir vilja bara þagga niður í fólki sem er ekki sátt við þessa þróun og vill breytingar. Yfirmenn þessarra fyrirtækja eru svo farnir að nota svipað tungumál og embættismenn og það eru merki um ákveðinn samruna milli risafyrirtækja og hins opinbera. Það er eitt það hættulegasa sem gerist og ein alvarlegasta myndbirting fasisma þegar stórfyrirtæki og pólitíska valdakefið sameinast og talar sama máli gagnvart almenningi. Nú eru í gangi margar ráðstefnur og fleira þar sem er verið að taka ákvarðanir um að verja milljörðum af skattfé borgaranna í verkefni sem eru beinteingd alþjóðlegum stórfyrirtækjum.“

Lítið þol fyrir andstæðum skoðunum

Arnar, segir að svart hvít heimsmynd sé á uppleið í bæði hægri og vinstri hliðinni í stjórnmálum. Það sé hættuleg þróun sem við verðum að vera vakandi fyrir.

„Það er rosalega sterkur undirtónn fasisma í gangi í samfélaginu núna. Það er ákveðin hóphyggja í gangi sem er með mjög lítið þol fyrir efa og andstæðum skoðunum. Það er engin stemmning fyrir því að þú sem einstaklingur leyfir þér að vera sjálfstæður og efast um það sem hópurinn er að hugsa. Það má finna þessa þróun bæði á hægri og vinstri vængnum og hlutunum er stýrt upp mjög svart hvítum og ekki mikið um samtöl þar sem blæbrigðin eru rædd. Það er alið svo mikið á ótta á þeim tímum sem við lifum núna og með því að hræra í pottum óttans er fólk fengið inn í fylkingar. Við sjáum þetta bæði á vettvangi stjórnmálanna og líka í fjölmiðlunum. Einn fjölmiðill boðar eina víddina og hinn bara eitthvað alveg öfugt. Ég vil hafa trú á fólki og einstaklingum og að við getum talað okkur saman inn í niðurstöðu með því að rökræða ólíkar skoðanir. Þannig getum við lifað saman með ákveðið rými sem einstaklingar, en samt í ákveðinni sátt.“

Eins og guðlast að vera ósammála

Arnar er á því að verkefni nútímans sé að ná aftur á þann stað að grunnur valdsins sé hjá þegnunum, en ekki valdhöfum og stofnunum.

„Viðfangsefnið núna er í mínum huga fyrst og fremst að fólkið minni hið opinbera og stjórnmálamenn stöðugt á að grunnur valdsins er hjá borgurunum. Allt ríkisvald kemur frá borgurunum, sem gefa ákveðnum aðilum umboð til að fara með valdið um ákveðinn tíma. Þróunin bæði alþjóðlega og á Íslandi núna er sú að það er sífellt meira verið að færa valdið frá einstaklingum yfir til valdhafa eða stofnana, sem jafnvel búa ekki einu sinni í sama landi. Þannig er í raun verið að aftengja eðlilega lýðræðislega valddreifingu. Fyrir mér verðum við að vera mjög vakandi yfir þessu núna, enda segir sagan okkur að það er full ástæða til þess. Maður heyrir dáldið mikið þessa hugmynd núna hjá ungu fólki að við höfum ekki frjálsan vilja sem einstaklingar. Með þeim rökum erum við ekki einu sinni siðferðisverur sem höfum alltaf val og berum ábyrgð. Ef fólk trúir því að við séum bara hormón og hvatir erum við í mjög veikri stöðu gagnvart yfirvöldum.“

Arnar Þór segir áhugavert að á sama tíma og guðlast hafi verið gert leyfilegt með því að afnema það úr hegningarlögum séu að verða til annars konar trúarbrögð, þar sem þeir sem eru ósammála séu eins og trúvillingar sem stundi nútíma guðlast:

,,Við lifum núna á tímum þar sem má guðlasta, en það var ekki fyrr búið að heimila það með lögum að það verður til önnur hugmyndafræði sem vill setjast í hásæti heilagleikans sem má ekki gagnrýna. Það má til dæmis guðlasta, en það má ekki draga í efa loftslagsmálin, þá ertu trúvillingur og fleira í þeim dúr. Nú er orðið til nýtt guðlast og rétttrúnaðurinn ber öll merki kirkjunnar, nema án fyrirgefningar og umburðarlyndis. Mannskepnan virðist alltaf þurfa að trúa á eitthvað og hafa eitthvað til tilbeiðslu og þá er eins gott að við veljum eitthvað gott. Eitthvað sem heldur í skefjum okkar verstu tilhneigingum til ofbeldis og valdagræðgi.”

Þáttinn með Arnari og alla aðra Podcastþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á: https://solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ljúka við stóran áfanga í afhendingu á kerfi fyrir stjórnun flugumferðar í Ungverjalandi og Kosovo

Ljúka við stóran áfanga í afhendingu á kerfi fyrir stjórnun flugumferðar í Ungverjalandi og Kosovo
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“
Fréttir
Í gær

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Í gær

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“