fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Úkraínumenn skjóta flesta dróna og flugskeyti Rússa niður

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 10. janúar 2023 08:05

Íranskur dróni en Rússar eiga marga slíka. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir því sem hefur liðið á stríðið í Úkraínu hafa Úkraínumenn náð betri tökum á því að svara þeirri ógn sem að þeim steðjar í formi rússneskra flugskeyta og ódýrra íranskra Shahed-dróna.

Meðal þess sem hefur áhrif á þessu sviði er að Úkraínumenn hafa fengið sjálfvirkar Gepard-loftvarnabyssur frá Þýskalandi og þurfa því ekki að nota dýr flugskeyti til að skjóta ódýra íranska dróna niður.

En úkraínska hernum hefur einnig tekist að þróa aðrar aðferðir til að takast á við drónana að sögn Anders Puck Nielsen, sérfræðings við danska varnarmálaskólann. Í samtali við Danska ríkisútvarpið sagði hann að Úkraínumenn hafi meðal annars tekið farsímaapp í notkun sem geri landsmönnum kleift að beina símum sínum til himins, þegar þeir sjá háværu og hægfleygu írönsku drónana. Appið sendir síðan GPS-staðsetningu á drónunum og gerir viðvart um yfirvofandi árás. „Þá er nánast hægt að panta loftvarnir eins og Uber,“ sagði Nielsen. Hann sagði að Úkraínumenn hafi einnig náð ágætum árangri við að skjóta drónana niður með því að lýsa á þá með sterkum ljóskösturum á meðan skotið er á þá með þungum vélbyssum.

Þetta gerir Úkraínumönnum kleift að nota dýrari og þróaðri loftvarnarkerfi til að takast á við rússnesk flugskeyti sem eru mun hættulegri en írönsku drónarnir. í desember tókst Úkraínumönnum að skjóta 60 af 70 rússneskum flugskeytum, sem voru notuð í einni árás, niður.

Nielsen sagði að það virðist sem Rússar séu hægt og rólega að missa getuna til að komast í gegnum úkraínsku loftvarnirnar og að áhrif árása þeirra verði sífellt minni. Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War komst að sömu niðurstöðu í nýlegri greiningu á stöðu stríðsins og segir að Úkraínumenn hafi að undanförnu náð góðum árangri í að skjóta Shahed-dróna niður. Því hafi notkun þeirra í árásum á skotmörk, bak við víglínuna, takmörkuð áhrif.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt