fbpx
Fimmtudagur 08.desember 2022
Fréttir

Lýsir afskiptum Ferðafélags Íslands af ásökunum hennar í garð Helga – „Ég ætla ekki að þegja lengur“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 27. september 2022 14:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Málefni Ferðafélags Íslands hafa mikið verið til umræðu í dag eftir að forseti félagsins, Anna Dóra Sæþórsdóttir, sagði af sér með vísan til þess að hún geti ekki starfað í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi gangi þvert á hennar eigin gildi.

Lýsir gerendameðvirku félagi

Í ítarlegri færslu er fylgdi tilkynningu hennar um afsögn rekur hún hvernig hún upplifði að félagið hefði ekki brugðist við málum er vörðuðu ásakanir um áreitni og gróft kynferðislegt ofbeldi eða athugasemdum um rekstur félagsins. Þegar hún hafi farið að beita sér fyrir úrbótum hafi farið að bera á brestum í samstarfi hennar við stjórn og framkvæmdastjóra.

Alvarlegustu málin hafi varðað einstaklinga sem gerst höfðu brotlegir á siðareglum félagsins eða verið sakaðir um áreitni eða gróft kynferðislegt ofbeldi. Æðstu stjórnendur Ferðafélagsins hafi vitað af þessum málum lengi án þess að taka á þeim og þeir sem bornir voru þessum alvarlegu sökum hafi fengið að starfa áfram sem fararstjórar á vegum félagsins.

Eitt málið hafi varðað Helga Jóhannesson lögmann, sem mikið var til umfjöllunar síðasta vetur eftir að ásakanir um ítrekað ótilhlýðilega háttsemi hans og áreitni í garð kvenna rötuðu í fjölmiðla. Svo fór að Helgi sagði sig úr stjórn Ferðafélagsins sem og baðst afsökunar á framferði sínu opinberlega.

Önnu Dóru til furðu hafi síðan komið upp ágreiningur í stjórn félagsins um hvernig hafi verið tekið á þessum málum og jafnvel barist fyrir því að fá Helga aftur inn. Síðan hafi nýleg akomið upp enn eitt málið er snerti annan stjórnarmann sem hafi ekki fengið meðhöndlun í samræmi við stefnu félagsins. Anna hafi þá mátt sitja undir dónaskap og leiðindum er hún hóf að kynna sér það mál. Anna segir valdaójafnvægi ríkja í stjórn og starfsmannahópi þar sem sitji fólk sem tengist sterkum böndum, ýmist fjölskyldu- eða vinaböndum eða einstaklingar sem lengi hafi unnið saman.

Vísa ásökunum á bug

Stjórn Ferðafélags Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar ásakana Önnu Dóru í þeirra garð þar sem tekið var undir að samstarfsörðugleikar hafi verið til staðar en þá mætti rekja til stjórnarhátta Önnu Dóru og framkomu hennar í garð framkvæmdastjóra, sem er Páll Guðmundsson. Öðrum ásökunum var vísað á bug.

Eins sendi Tómas Guðbjartsson, læknir og stjórnarmaður Ferðafélagsins, frá sér yfirlýsingu þar sem hann neitaði að hafa barist fyrir því að Helgi fengi aftur að koma í stjórnina og sagði Önnu Dóru snúa staðreyndum málsins á hvolf.

Opnar sig um reynsluna af Helga

Elísabet Bjarnadóttir opnaði sig um reynslu sína af Helga Jóhannessyni í færslu á Facebook í maí á þessu ári og um aðkomu Ferðafélagsins að hennar máli, rétt er að taka fram að Elísabet nafngreinir hvorki Ferðafélagið né Helga í færslu sinni en er það ljóst af samhenginu að um þau sé rætt. Hún vildi ekki fjölmiðlaumfjöllun um málið á sínum tíma en nýjustu vendingar innan Ferðafélagsins hafa gert það að verkum að henni hefur snúist hugur.

Í umræddri færslu greindi Elísabet frá því að hafa ítrekað um árabil mátt sæta áreitni frá Helga og að hann hafi brotið alvarlega gegn henni í ferðalagi á vegum Leiðsöguskólans. Þetta hafi átt sér stað á árunum 2012-2015 og haft mikil áhrif á hana en hún hafi meðal annars einangrast og þurft að grípa til ýmissa ráða til að forðast Helga til að komast undan áreitni hans. Hún hafi árið 2018 ákveðið að skila skömminni og fór að opna sig við sína nánustu um hvað hafi átt sér stað.

Þá hafi hann nýlega tekið sæti í stjórn Ferðafélagsins og fjölskyldutengsl við þáverandi forseta og varaforseta félagsins hafi orðið til þess að þau fengu upplýsingar um hvað hefði gerst milli Elísabetar og Helga. Svörin sem Elísabet hafi fengið hafi verið skýr.

„Þar sem þetta átti sér ekki stað innan félagsins kæmi þetta þeim ekki við. Ekkert var aðhafst meira í málinu, enda var ætlunin ekki að félagið yrði nokkurn tímann milliliður í málinu, heldur voru þau látin vita til upplýsinga.“ 

Framkvæmdastjórinn vildi láta hana hitta geranda sinn í tvígang

Síðan í október á síðasta ári þegar seinn metoo-bylgja hafi verið komin vel á flug hafi yfirmenn Ferðafélagsins haft samband við Elísabetu. En þá hafði Anna Dóra Sæþórsdóttir tekið við sem forseti. Þá hafi Elísabetu verið boðið að koma til félagsins og segja sína sögu.

„Þau segja að það séu breyttir tímar og nú skipti ekki máli hvort málið átti sér stað innan félagsins eða ekki. Ég samþykki, mæti á fund með nýjum forseta félagsins og framkvæmdastjóra og fékk tækifæri á að segja mína sögu.“

Stuttu síðar hafi hún þó fengið símtal frá Páli framkvæmdastjóra. „Þar sem hann er að hringja fyrir hönd gerandans sem vildi hitta mig og ræða málin. Í janúar 2022 fæ ég annað símtal frá sama manni um sömu beiðni, en nú á þeim forsendum að gerandinn væri búinn að vinna í sjálfum sér. Ég afþakkaði í bæði skiptin enda hef ég engan áhuga að setjast niður með gerandanum og ræða málin. Stuttu eftir seinna símtalið frétti ég að gerandinn væri kominn í stjórn nýstofnaðs dótturfélags umrædds félags“

Elísabet segir í færslu sinni að hún hafi á sínum tíma ákveðið að kæra Helga ekki því hún hafi fyrst viljað halda friðinn og eins ekki talið sig eiga neinn mögulega gegn honum þar sem hann er þekktur lögmaður. Þegar atvik áttu sér stað var Elísabet 21 árs en Helgi 28 árum eldri. Hún hafi ekki treyst sér til að opna sig um málið þegar málefni Helga komu fyrst til umræðu í nóvember. En í maí hafi hún upplifað að rétti tíminn væri komin.

„Ég ætla ekki að þegja lengur enda tel ég að þögnin sé besti vinur gerandans. Ég hef burðast með þetta í að verða áratug og ég á allt lífið eftir en ég tel að með því að segja frá, þá léttist sá burður.“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fréttavaktin: Segir Eflingu hafa svikið sig | Ríkisendurskoðun harðorð

Fréttavaktin: Segir Eflingu hafa svikið sig | Ríkisendurskoðun harðorð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tálbeitan gómar annan íslenskan mann – Vildi fara í trekant með 11-12 ára stelpum

Tálbeitan gómar annan íslenskan mann – Vildi fara í trekant með 11-12 ára stelpum