fbpx
Mánudagur 26.september 2022
Fréttir

Valdimar ósáttur við rannsókn lögreglu á Óshlíðarharmleiknum – „Þetta er mannorðsmorð á öldruðum manni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 2. júní 2022 16:22

Valdimar Lúðvík Gíslason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valdimar Lúðvík Gíslason, leigubílstjóri frá Bolungarvík, er samtímamaður, kollegi og sveitungi leigubílstjórans Höskuldar Guðmundssonar, sem núna er undir rannsókn lögreglu, vegna dauða Kristins Hauks Jóhannessonar, sem fórst í bílsslysi í Óshlíð í september árið 1973. Dauði hans var úrskurðaður sem slys á sínum tíma en núna, 49 árum síðar, hefur Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafið rannsókn á málinu að nýju, vegna gruns um manndráp, og látið grafa upp líkamsleifar Kristins heitins.

Sjá einnig: Leigubílstjórinn í Óshlíðarharmleiknum segir enn að rannsóknin sé vitleysa – „Þetta sýslumannsskrípi, að hann skuli standa fyrir þessu“

Höskuldur er fæddur árið 1936 og býr í hárri elli á Ísafirði. Valdimar er fæddur árið 1939 og býr á Bolungarvík. Á þeim árum þegar dauða Kristins bar að þá voru þeir Höskuldur og Valdimar báðir mjög virkir leigubílstjórar á svæðinu og keyrðu oft heim drukkin ungmenni af sveitaböllum.

„Höskuldur er indælismaður, rólegur og yfirvegaður og alveg til fyrirmyndar í öllu. Hann var aldrei með nein læti og var aldrei að hnippa í menn,“ segir Valdimar í viðtali við DV og segir af og frá að Höskuldur hafi getað lent í slagsmálum við Kristinn sem hann þekkti ekki neitt.

„Þetta er með ólíkindum, ég veit ekki hvað á að upplýsa, ætla þeir að lesa í beinin, verða þeir ekki að fá spákonu? Þetta er svo alvarlegt mál fyrir bílstjórann, þennan grandvara mann sem er með hreint sakavottorð, tel ég víst. Til hvers að rifja svona upp og hvað á að upplýsa?“

Kannast ekki við orðróm á Bolungarvík og Ísafirði

Því hefur verið haldið fram að efasemdir hafi verið uppi um þann úrskurð á sínum tíma, að dánarorsök Kristins hafi verið slys. Þetta telur Valdimar, sem búið hefur í Bolungarvík áratugum saman, vera af og frá. Hann hafi aldrei heyrt slíkar sögusagnir og allir hafi á sínum tíma gengið út frá því að þarna hafi orðið dauðaslys.

„Þetta var afskaplega stórt mál á sínum tíma, mjög leiðinlegt. En ég hef aldrei heyrt grunsemdir um að þetta hafi verið annað en slys. Aldrei nokkurn tíma. Það kom mér mjög á óvart að sjá þetta í fréttum fyrir tveimur þremur dögum, ég varð svo hissa að ég varð alveg kjaftstopp,“ segir Valdimar.

Valdimar lenti sjálfur í bílveltu í Óshlíð á níunda áratugnum. „Ég er með þá reynslu á bakinu að ég valt einu sinni þarna niður Óshlíð. Ég veit nokkurn veginn hvað ég er að tala um þegar ég tala um bílveltu. Ég var bara einn í bílnum, þetta var í ofsaveðri og ég sneri við, hafði ætlað að sækja börn í menntaskólann. Það er mjög slæm vestanáttin þarna og ég fór upp á vitlausan kant, svo kom bíll á móti og ég þurfti að víkja, þá þá hreif hviðan mig niður.“

Valdimar slasaðist ekki mikið í slysinu en það var mikið andlegt áfall. Hann hlaut mar og aðra minniháttar áverka en bílllinn fór tvær til þrjár veltur. Hann segist ekki geta sagt til um hvort rúður í bílnum hafi brotnað við veltuna en margir hafa undrast að svo virðist sem bæði hliðarspeglar og rúður í bíl Höskuldar hafi sloppið óbrotin í slysinu sem dró Kristinn til dauða.

„Ég sá bílinn aldrei aftur, vildi ekki sjá hann, hann var ónýtur og tryggingafélagið lét fjarlægja hann,“ segir Valdimar.

Óshlíðarvegur var talinn hættulegasti vegur landsins

„Það urðu tíu til tólf dauðaslys í Óshlíð. Þetta var mjög hættulegur vegur, kallaður hættulegasti vegur landsins. Þarna fórust tveir ungir menn um tvítugt, fóru niður á sama stað og ég. Fyrsta dauðaslysið var 1951 eða 1952, en vegurinn var opnaður 1950. Þá fór steinn niður á afturenda rútu og þá fórust tveir menn,“ segir Valdimar og skýrir frá því að grjóthrun niður á veginn hafi verið algengt. Menn hafi eðlilega fipast mjög undir stýri þegar grjót valt niður fyrir framan bílinn og stundum fór grjót undir bílana.

Miðað við þessa forsögu hafi fólk eðlilega tekið því sem gefnu að Kristinn hafi látist þarna þegar leigubíll Höskuldar valt niður Óshlíðina og Valdimar telur fráleitt enn þann dag í dag að gera ráð fyrir að nokkuð annað hafi gerst.

Fordæmir rannsóknina og segir hana tilhæfulausa

„Það er stórmál sem þarf að athuga, hvernig á því stendur að lögreglan ákveður að rifja svona upp á forsendum sem enginn fótur er fyrir. Hér hefur enginn grunur verið nokkurn tíma um nokkurn skapaðan hlut fyrir utan einn eða tvo einstaklinga með einhverjar annarlegar hvatir,“ segir Valdirmar og telur þráhyggju eða óvildarhug hjá ættingjum Kristins heitins vera tilefni rannsóknarinnar.

„Ef fólkið heldur þetta, af hverju gerði það þá ekki eitthvað fyrr, af hverju komu engar athugasemdir frá þeim á sínum tíma, af hverju komu þau því ekki á framfæri ef þau töldu eitthvað saknæmt hafa gerst þarna?“

Valdirmar segir að verið sé að fremja mannorðsmorð á Höskuldi. „Þetta er mannorðsmorð á öldruðum manni. Ég fékk hálfgert áfall þegar ég heyrði þetta fyrst. Mér finnst þetta vera svo mikið högg undir belti, að opna svona alvarlegt mál á engum forsendum og samkvæmt engum föstum röksemdum, það finnst mér alveg með ólíkindum. Ég kalla það gott ef þessi maður á ekki skaðabótarétt á lögregluna, hann ætti að fá sér lögfræðing.“

Neita að afhenda lögregluskýrslur og úrskurð

DV hefur óskað eftir því að fá afhentar lögregluskýrslur í málinu sem skráðar voru á sínum tíma. Í svari frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum, Kára Inga Vilbergssyni, segir að embættinu sé ekki heimilt að afhenda þær skýrslur.

Hvorki lögreglustjórinn né Héraðsdómur Vestfjarða vilja láta af hendi úrskurð dómsins sem er grundvöllur þess að rannsóknin hefur verið opnuð og líkamsleifar Kristins voru grafnar upp. Er litið svo á að hvorttveggja, gömlu lögregluskýrslurnar og úrskurður héraðsdóms, séu viðkvæm rannsóknargögn í þeirri rannsókn á málinu sem nú er hafin.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur og Héraðsdómur fetta fingur út í matsgerð umdeilds sálfræðings – Of jákvæð í garð föður

Landsréttur og Héraðsdómur fetta fingur út í matsgerð umdeilds sálfræðings – Of jákvæð í garð föður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margréti Friðriks vísað úr flugi Icelandair fyrir að neita að bera grímu – Vísar því á bug að hafa verið með læti

Margréti Friðriks vísað úr flugi Icelandair fyrir að neita að bera grímu – Vísar því á bug að hafa verið með læti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flöskuháls í Landsrétti – Fjölga þarf dómurum

Flöskuháls í Landsrétti – Fjölga þarf dómurum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árás var talin yfirvofandi – Höfðu sérstakan áhuga á árshátíð lögreglunnar

Árás var talin yfirvofandi – Höfðu sérstakan áhuga á árshátíð lögreglunnar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Aðgerðir í gær tengdust ætluðum undirbúning að hryðjuverkum – Hætta beindist að borgurum og stofnunum

Aðgerðir í gær tengdust ætluðum undirbúning að hryðjuverkum – Hætta beindist að borgurum og stofnunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grunaðir um að framleiða þrívíddarprentaðar byssur – Rassía lögreglu staðið yfir frá því í síðustu viku

Grunaðir um að framleiða þrívíddarprentaðar byssur – Rassía lögreglu staðið yfir frá því í síðustu viku
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Fundu lík mæðgina eftir ábendingar nágranna – „Ég get ekki ímyndað mér neitt sorglegra“

Fundu lík mæðgina eftir ábendingar nágranna – „Ég get ekki ímyndað mér neitt sorglegra“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Helgi gagnrýnir skeytingarleysi lögreglu: „Löggan gerir bara samt ekki neitt, jafnvel þótt þú finnir þjófinn“

Helgi gagnrýnir skeytingarleysi lögreglu: „Löggan gerir bara samt ekki neitt, jafnvel þótt þú finnir þjófinn“