fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Þrír mánuðir síðan stríðið hófst – Svona er staðan á nokkrum mikilvægum sviðum

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 25. maí 2022 07:00

Úkraínskur hermaður í Odesa en borpallarnir eru sunnan við borgina. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var aðfaranótt 24. febrúar sem rússneski herinn réðst inn í Úkraínu. Innrásin kom fáum á óvart því mikil hernaðaruppbygging Rússa við landamæri ríkjanna hafði ekki farið fram hjá mörgum. Rússar þvertóku fyrir að þeir ætluðu að ráðst á Úkraínu en þeirri neitun þeirra trúðu fáir á Vesturlöndum. Enda fór svo að Vladímír Pútín, forseti, skipaði hernum að ráðast inn í Úkraínu.

Þetta átti að vera skammvinn hernaðaraðgerð sem að sögn Pútíns miðaði að því að „afnasistavæða“ Úkraínu og afvopna landið. En þessi „sérstaka hernaðaraðgerð“ eins og Rússar kalla stríðið hefur heldur betur dregist á langinn og er nú eiginlega orðin að martröð fyrir Rússa. Vestrænar leyniþjónustustofnanir telja að Rússar hafi misst um 15.000 hermenn en það eru álíka margir og féllu á þeim níu árum sem þeir stóðu í stríði í Afganistan á níunda áratugnum.

En hver er staðan eftir þriggja mánaða stríð? Hversu stóru landsvæði hafa Rússar náð á sitt vald? Miðar eitthvað í friðarviðræðum? Hvernig hefur heimsbyggðin brugðist við?

Staðan á vígvellinum

Eftir erfiðleika á vígvellinum á fyrstu vikum stríðsins hörfuðu rússneskar hersveitir frá KyivTjernihiv og Sumy. Eftir það hafa Rússar einbeitt sé að því að ná austurhluta Donbas á sitt vald en þar eru Luhansk og Donetsk.

Reiknað var með að til stórorustu kæmi þar sem mörg hundruð rússneskir skriðdrekar myndu sækja fram en af því hefur ekki orðið. Þess í stað hefur rússneskum hersveitum miðað örlítið áfram og hafa lagt undir sig þorp og bæi. Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, segir að Rússarnir hafi „gjöreyðilagt“ Donbas.

Rússum hefur miðað ágætlega áfram í Luhansk og nú er það aðeins við Severodonetsk sem Úkraínumenn veita mótspyrnu.

Rússnesk ökutæki í stöflum í Bucha í byrjun apríl. Mynd:EPA

 

 

 

 

 

 

Í Donetsk er staða Úkraínumanna betri en þó ekki góð. Þeir hafa þurft að hörfa frá stórum hluta héraðsins. Þeir þurftu meðal annars að gefa hafnarborgina Maríupól upp á bátinn í síðustu viku.

Sérfræðingar telja að víglínurnar í Donbas muni ekki breytast mikið næstu vikur því herir ríkjanna séu álíka sterkir. Rússar eru taldir vera að endurskipuleggja hersveitir sínar og gera þær stærri. Úkraínumenn bíða eftir næstu stóru sendingu af fullkomnum vopnum frá Vesturlöndum.

Friðarviðræður

Síðast ræddust samninganefndir ríkjanna saman í Istanbul í Tyrklandi í lok mars. Þá lögðu Úkraínumenn fram fjölda tillagna um hvernig væri hægt að binda endi á stríðið en Rússar vildu ekki fallast á þær.

En eftir því sem erlend sendiráð eru farin að opna á nýjan leik í Kyiv og stjórnarerindrekar snúa aftur til landsins opnast hugsanlega á að hægt verði að hefja samningaviðræður á nýjan leik.

Sendinefndir ríkjanna ræddust við í Tyrklandi í mars. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

Rússneska Tass fréttastofan segir að Vladimir Medinskij, aðalsamningamaður Rússar, hafi nýlega sagt að Rússar séu reiðubúnir til að hefja viðræður á nýjan leik um frið og hugsanlegt vopnahlé. En hann sagðist telja að boltinn væri hjá Úkraínu.

Úkraínskir leiðtogara hafa sagt að þeir muni ekki fallast á vopnahlé á meðan rússneskar hersveitir eru á úkraínsku landsvæði. Þeir óttast að Rússar muni nota vopnahlé til að endurskipuleggja hersveitir sínar og styrkja áður en þeir ráðast aftur á Úkraínumenn.

Mannfall

Það er mjög erfitt að segja til um mannfall herjanna af nákvæmi því bæði ríkin halda spilunum þétt að sér um mannfallið í eigin röðum.

Úkraínski herinn birtir daglega tölur með yfir ætlað mannfall í röðum Rússa og samkvæmt þeim þá hafa tæplega 30.000 rússneskir hermenn fallið í stríðinu. Vestrænir sérfræðingar telja þessar tölur of háar og telja breskar leyniþjónustustofnanir að um 15.000 Rússar hafi fallið.

Úkraínskir hermenn taka hergögn af föllnum rússneskum hermanni. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

Hvað varðar mannfallið hjá úkraínska hernum eru tölurnar ekki mikið traustari en Zelenskyy hefur sagt að allt að 3.000 úkraínskir hermenn hafi fallið. SÞ áætla að um 4.000 óbreyttir borgarar hafi fallið, þar af um 200 börn. Þessar tölur eru þó of lágar að mati SÞ.

Úkraínskir hermenn hjá föllnum borgurum í Irpin. Mynd:Getty

Flóttafólk

Um 6,5 milljónir Úkraínubúa hafa flúið land vegna stríðsins. Pólverjar hafa tekið á móti 3,5 milljónum en flest ríki Evrópu hafa að einhverju leyti opnað landamæri sín fyrir Úkraínubúum.

Eftir að Rússar hörfuðu frá Kyiv hafa margir snúið aftur heim. Ekki er vitað með vissu hversu margir en SÞ telja að allt að tvær milljónir hafi snúið aftur heim.

Úkraínubúar á flótta. Mynd:EPA

Viðbrögð umheimsins

Innrásin var strax fordæmd af Vesturlöndum og ríkjum utan þeirra. Bandaríkin og ESB hafa gripið til harðra refsiaðgerða gegn Rússlandi og eru þær sífellt í endurskoðun. Nú er verið að ræða bann við innflutningi á rússneskri olíu.

Nýlega samþykkti Bandaríkjaþing enn einn hjálparpakkann fyrir Úkraínu. Heildarupphæð hans er 40 milljarðar dollara. Meirihlutinn fer í kaup á vopnum.

Líklegt má telja að Pútín hafi talið að Vesturlönd, bæði ESB og NATÓ, gætu ekki staðið saman hvað varðar málefni Úkraínu og að Rússar myndu hafa nokkuð frjálsar hendur. Ef svo var þá hafði hann algjörlega rangt fyrir sér.  Samstaðan innan ESB og NATÓ hefur verið algjör og mun meiri en í langan tíma.

Með innrásinni hefur Pútín tekist að hrekja Finnland og Svíþjóð í arma NATÓ en bæði ríkin höfðu haldið fast við hlutleysisstefnu sína áratugum saman. Þannig hefur honum tekist að búa til 1.340 km löng landamæri að NATÓ þegar Finnland verður tekið inn í bandalagið en það mun væntanlega gerast innan ekki svo langs tíma þrátt fyrir andstöðu Tyrkja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga