fbpx
Þriðjudagur 05.júlí 2022
Fréttir

Sverrir ásakar meirihlutann – „Ég óska engum að ganga í gegnum sambærilega meðferð og við fjölskyldan höfum upplifað“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 13. maí 2022 12:30

Svona lítur húsið út. Ekki hefur verið unnið við það síðan í lok árs 2019.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sverrir Örn Leifsson og fjölskylda hans eru í nöturlegri biðstöðu eftir að byggingarfulltrúi Reykjanesbæjar stöðvaði byggingu einbýlishúss fjölskyldunnar í Reykjanesbæ í lok árs 2019.

DV fjallaði um málið þann 23. apríl.

Árið 2020 staðfesti úrkurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðun byggingarfulltrúans. Ástæðan var sögð sú að hæð hússins væri ekki í samræmi við deiliskipulag. Þó lá fyrir að hæð hússins var í samræmi við byggingarleyfi sem gefið var út.

Umboðsmaður Alþingis birti álit um málið þann 7. apríl síðastiðinn. Mælist hann til þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taki málið aftur fyrir.

„Ég fékk útgefin leyfi og áformin samþykkt árið 2017, ég fékk síðan byggingarleyfi útgefið árið 2018 og þá hófust framkvæmdir,“ segir Sverrir. Húsið byggði Sverrir í góðri trú vegna þeirra gagna sem byggingarfulltrúi hafði lagt fram. Segir hann að í þessu máli sé réttaröryggi borgaranna í húfi.

„Það hefur ekkert verið gert í bygginunni síðan í lok árs 2019. Allt árið 2020 og fram á 2021 lá málið síðan hjá Umboðsmanni Alþingis. Lífið hefur sannarlega verið á hold hjá mér og þetta er mikið högg,“ segir Sverrir en ofan á þetta áfall bættist við að hann missti vinnuna sem flugmaður í Covid-faraldrinum.

„Núna er spurningin hvernig þetta þróast allt saman. Maður veltir því fyrir sér hvað það þýðir almennt fyrir réttaröryggi borgaranna ef svona vinnubrögð tíðkast. Hvað hafa margir lent í því sama og bara einfaldlega gefist upp,“ segir Sverrir sem vonast til að fá leyfi til að halda byggingu hússins áfram enda er húsið uppsteypt.

Í úrskurði  Umboðsmanns Alþingis segir meðal annars:

„Í málinu lá fyrir að hæð hússins var í samræmi við byggingarleyfi sem A hafði fengið útgefið og þá uppdrætti sem byggingarfulltrúinn hafði upphaflega samþykkt. Umboðsmaður benti á að byggingarfulltrúa væri við ákveðnar aðstæður rétt að stöðva framkvæmdir tímabundið á meðan rannsakað væri hvort byggingarleyfi yrði fellt niður eða afturkallað. Þrátt fyrir það yrði ekki annað ráðið af rökstuðningi ákvörðunar hans um stöðvun framkvæmda en að hún hefði byggst á því að hæð hússins væri ekki í samræmi við skipulagsskilmála og uppfærða uppdrætti hússins. Að þessu leyti hefði aftur á móti ekkert komið fram um að byggingarfulltrúi hefði eftir stöðvun framkvæmdanna hafið undirbúning að ákvörðun um niðurfellingu eða afturköllun byggingarleyfisins.“

Hvað hefur meirihlutinn í Reykjanesbæ gert?

Sverrir reifar mál sitt í pistli á vef Víkurfrétta og dregur bæjarstjórnarmeirihlutann til ábyrgðar vegna aðgerðaleysis í máli hans. Sverrir skrifar:

„Nú er langt gengið á þriðja ár síðan byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdir að tilvonandi heimili okkar fjölskyldunnar – hvernig gengur? Við bara bíðum. Svör á borð við tjahh… „það verður fundur á morgun“, „þetta er hið versta mál“, „skoðum málið“, „það er kannski réttast að einhver annar leysið málið“.  Hver stjórnar?

Þjösnaskapur sitjandi meirihluta, þöggun orðins hlutar sem var upphaflega samþykktur í júní 2017 og staðfestur á bæjarstjórnarfundi. Nú 5 árum seinna og tæpum 3 árum eftir að framkvæmdir að heimili okkar voru stöðvaðar af byggingarfulltrúa, með mjög svo sérstökum hætti, er ég ekki þess áskynja að neitt hafi breyst. Menn humma og hía hlutina fram af sér allt í boði útsvarsgreiðenda.

Ítrekað hefur undirritaður reynt að fá leyst úr máli sínu, bent á ólögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans en það hefur ekki skilað neinum árangri. Undirritaður hefur líka bent á ýmsar samþykktir sem eru í andstöðu við sama skipulag hverfisins sem framkvæmdin tilheyrir, en það hefur allt mætt tómum hljóðum eða svörum á þann veg „ekki á okkar vakt“

Sitjandi meirihluti hefur því virt meðalhófs- sem og jafnræðisreglur stjórnsýslulaga að vettugi.“

Sverrir segir að mörg dæmi sé um að mistök séu gerð á sviði byggingar- og skipulagsmála en leiti þeir einstaklingar sem fyrir slíkum mistökum verða réttar síns þá dragi yfirvöld lappirnar í málunum. Hann segir jafnframt að álit Umboðsmanns Alþingis í hans máli sé áfellisdómur yfir sveitarfélaginu:

„Við leituðum til Umboðsmanns Alþingis vegna þessarar meðferðar og nú í apríl sl. lá álit hans fyrir. Niðurstaðan þar skýr, málsmeðferð þessara stjórnvalda var ólögmæt. Það getur ekki talist mjög svo ánægjuleg lesning fyrir sveitarfélagið að fá slíkan áfellisdóm líkt og raun ber vitni. En viti menn – æðstu stjórnendur Reykjanesbæjar eru eftir bestu vitund vissulega fúlir við niðurstöðuna enda ekki langt síðan þeir fengu ekki svo viðunandi úttekt í skýrslu frá Ríkisendurskoðun.“

Sverrir segir að framtíðarheimili fjölskyldu hans sé undir í þessu máli en einnig réttaröryggi borgaranna. Leggur hann til að kjósendur í Reykjanesbæ kjósi núna aðra flokka en þá sem eru við stjórn:

„Ég vona að þú, ágæti útsvarsgreiðandi Reykjanesbæjar,  sjáir þér allavega fært um að kjósa og kjósa eitthvað annað en það sem hefur verið við lýði síðustu 8 ár, því þeir geta ómögulega leyst einföld mál í líkingu við þetta, heldur vilja þeir að einhver annar geri það. Hvernig ætla menn þá að leysa stóru málin?

Ég óska engum að ganga í gegnum sambærilega meðferð og við fjölskyldan höfum upplifað nú á þriðja ár. Til að setja hlutina í samhengi, þá hefur heimsfaraldur riðið yfir jörðina og mönnum hefur tekist að finna upp bóluefni við þeirri veiru, á skemmri tíma en málsmeðferðartími þessa máls.“

Sjá grein Sverris

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ugla Stefanía segir Sigmund Davíð hafa talað af vanþekkingu í Sprengisandi – „Þetta er auðvitað stórkostlega mikil þvæla“

Ugla Stefanía segir Sigmund Davíð hafa talað af vanþekkingu í Sprengisandi – „Þetta er auðvitað stórkostlega mikil þvæla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skotárás í verslunarmiðstöð í Kaupmannahöfn – „Hún grét og grét“ segir móðir stúlku sem var á staðnum – Uppfærð frétt

Skotárás í verslunarmiðstöð í Kaupmannahöfn – „Hún grét og grét“ segir móðir stúlku sem var á staðnum – Uppfærð frétt
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Leigusvik á Háteigsvegi – Borgaði tryggingu fyrir íbúð sem er ekki til

Leigusvik á Háteigsvegi – Borgaði tryggingu fyrir íbúð sem er ekki til
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Rokkstjörnusonur fjárfestir í íslensku sprotafyrirtæki

Rokkstjörnusonur fjárfestir í íslensku sprotafyrirtæki