Eins og fram kemur á vef Fréttablaðsins í dag er hugmyndin af bakaríinu og kaffihúsinu kemur upphaflega frá Danmörku. „Markmiðið var að skapa stað þar sem fólk getur komið og notið sín í fallegu og afslappandi umhverfi og drukkið gott kaffi og fengið sér gæðabakkelsi. Við viljum að fólk sem komi hingað upplifi ,“hygge“og við leggjum áherslu á hlýlegt umhverfi. Mikil áhersla er lögð á að allt sem við bjóðum upp á hafi ákveðinn standard án þess að festa okkur við sérstakan matseðil. Við erum sífellt að prófa nýja hluti í eldhúsinu og munum síðan fylgjast með og spyrja gesti hvað þeim finnst best og hvort það sé eitthvað sérstakt sem þau myndi vilja sjá í úrvalinu hjá okkur. Við erum opin fyrir nýjum hugmyndum,“segir þær stöllur Þórey og Guðrún.

Hver er sérstaða kaffihússins Hygge?

„Það var lagt af stað með það í upphafi að öll umgjörð Hygge myndi fanga þýðingu danska orðsins hygge, sem í grunninn þýðir að hafa það notalegt með vinum, fjölskyldu í hlýlegu umhverfi. Danska listakonan Birgitte Munck sérhannaði alla bollana sem okkur finnst einstaklega fallegir. Hún gerði líka ljósin á staðnum og diskana. Sara Jónsdóttir sá um að hanna staðinn, áferð, liti og flísar. Litapalletan inn í staðnum er rólegum jarðlitum sem passa vel inn í merkinguna hygge. Gluggar eru háir, ná niður í gólf og hleypa góðri dagsbirtu inn. Stór ljósmynd eftir íslensk/sænska ljósmyndarann Valtý Daregard prýðir einn vegginn okkar sem við erum mjög hrifin af. Við erum meira að segja með ruggustól þar sem hægt er að setjast niður og drekka kaffi. Svo okkar sérstaða felst ekki bara í því að bjóða upp á framúrskarandi kaffi og veitingar heldur einnig að njóta þess í hlýlegu umhverfi þar sem fólki líður vel og getur slappað af.“

Er allt bakað og gert á staðnum?

„Það var mikil hugmyndavinna í byrjun hvernig við myndum þróa bakkelsið en það var alltaf stefnan að baka allt á staðnum. Það tryggir stöðugleika í gæðum og einnig er bakaríið okkar þá í beinu sambandi við gestina okkar. Eldflaugin í merkinu er líka skírskotun í að við ætlum að vera með það gott kaffi og bakkelsi að það sé “out of this world“,“ segir Þórey.

Hvað er ykkar uppáhald?

Tarte-in með hindberjum er í sérlegu uppáhaldi sem og sítrónu-croissantið með ítölskum marengs. Í þróun hjá okkur er veganbakkelsi, sem hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð frá vegansmakkaranum okkar sem lofar mjög góðu. Við viljum geta boðið upp á eitthvað fyrir alla.

Þessa dagana er verið að vinna í heimasíðu sem verður vefverslun og hægt verður að kaupa brunchbakka, keramikbollana, kaffi og fleira. „Framundan er svo fyrsti bolludagurinn í Hygge sem við lofum að verði frábær.“