fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Sakamál ársins: „Ef þið bara hefðuð skoðað hver skyldmenni mín eru“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 31. desember 2022 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við höldum áfram að fjalla um mest áberandi sakamálin á árinu og beinum sjónum að seinni helmingi ársins. Harmleikur á Ólafsfirði, hópárás á Bankastræti Club, hryðjuverkamálið sem lögreglan kynnti fyrir alþjóð á upplýsingafundi í september og hefur síðan tekið á sig óvæntar myndir, og loks risastórt kókaínmál þar sem meðal annars koma við sögu eigandi timbursölufyrirtækisins Hús og Harðviður og liðstjóri hjá rafíþróttaliði.

Sjá einnig: Sakamál ársins: „Þetta er hræðilegt en maður hefur verið að bíða eftir þessu“

Harmleikurinn á Ólafsfirði – böndin bárust fyrst að saklausum manni

Við hefjum þennan seinni hluta upprifjunarinnar á Ólafsfirði en þaðan bárust skelfilegar fréttir mánudagsmorguninn 3. október.

Fyrsta frétt DV af málinu byggði á tilkynningu frá lögreglu. Þar kom fram að karlmaður hefði verið stunginn til bana á Ólafsfirði um nóttina og fjórir einstaklingar hefðu verið handteknir vegna málsins og hefðu réttarstöðu sakbornings.

„Þegar fyrstu lögreglumenn komu á vettvang, voru endurlífgunartilraunir hafnar á karlmanni, sem var með áverka. Læknir og sjúkraflutningamenn komu einnig á vettvang en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi.“

Málið var ruglingslegt í byrjun en smám saman skýrðist myndin. RÚV baðst afsökunar á og leiðrétti frétt, þar sem sagði að hinn látni, Tómas Waagfjörð, og einn hinna handteknu hefðu átt í deilum undanfarið og sá hefði haft í hótunum við Tómas fyrr á árinu og hótað syni hans lífláti. DV náði sambandi við þann mann, sem augljóslega var ekki í gæsluvarðhaldi, hann viðurkenndi fjandskap við hinn látna en sagðist ekkert hafa haft með lát hans að gera. Það var síðan endanlega staðfest að maðurinn hafði ekki verið á vettvangi.

Íbúi fékk ískyggilegt símtal

DV komst í samband við íbúa sem fékk símtal frá vini hins látna, Tómasi Waagfjörð, um það leyti sem voðaatburðurinn átti sér stað. Kom þar fram að Tómas hefði farið bálreiður á staðinn þar sem hann lést skömmu síðar, en það var íbúð í miðbæ Ólafsfjarðar. Þar voru fyrir eiginkona Tómasar, vinur eiginkonunnar og kona sem var húsráðandi í íbúðinni.

Í frétt DV síðdegis daginn eftir atburðinn sagði:

„„Það hringdi í mig maður, gamall kunningi, sem hefur búið hjá honum undanfarið og sagði: Nú hefur eitthvað slæmt gerst.“ Að sögn þessa vinar hafði hinn látni rokið út til að sækja eiginkonu sína í íbúðina. Eftir það hafa að öllum líkindum brotist út átök milli mannanna.

„Í mínum huga hefur soðið upp úr endanlega því þeir hafa lengi verið að kýta út af þessari konu,“ segir maðurinn ennfremur.

„Ég veit auðvitað ekki hvað gerðist nákvæmlega en ég veit að þeir höfðu mikið verið að rífast undanfarið,“ segir íbúinn um hinn látna og manninn sem var á vettvangi og er í haldi lögreglu.“

Annað fólk kom á vettvanginn á undan lögreglu og sjúkraliði

Fljótlega eftir handtökur var konunum tveimur sleppt en maðurinn sem hafði  lent í átökum við Tómas var áfram í gæsluvarðhaldi. Þann 7. október fékk DV upplýsingar um að ungt par hefði komið á vettvang fyrir tilviljun, á undan lögreglu og sjúkraliði, sem var á leiðinni. DV greindi svo frá:

„DV hefur ennfremur heimildir fyrir því að maður rétt yfir tvítugt og stúlka á 19. ári hafi komið á vettvanginn um 20 mínútum á undan lögreglu og sjúkraliði. Eiginkona Tómasar, en hún situr núna í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins, gerði þá vart við sig og óskaði hjálpar. Ungi maðurinn hringdi í Neyðarlínuna sem hafði þá þegar upplýsingar um hnífstungu í Ólafsfirði og var sjúkralið og lögregla á leiðinni.

Mynd sýnir sjúkrabíl og lögreglubíl koma á vettvang nóttina sem Tómas Waagfjörð lést.

Samkvæmt heimildum DV var vettvangur mjög blóðugur en lífgunartilraunir á Tómasi voru hafnar áður en sjúkralið og lögregla kom á vettvang. Hafði Tómas verið stunginn í magann með áhaldi sem að öllum líkindum var eldhúshnífur. Lífgunartilraunirnar voru árangurslausar. Maður sem situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins, vinur eiginkonu Tómasar, var með stungusár á fæti. Ennfremur, samkvæmt heimildum DV, kom vitni á vettvang á undan sjúkraliði og lögreglu og gerði að sárum mannsins. Konurnar tvær, húsráðandi og eiginkona Tómasar, voru ómeiddar en viti sínu fjær á vettvangi. Íbúar í nágrenninu lýsa því að önnur konan hafi komið alblóðug út á götu og verið handtekin þar.

Fyrir liggur að lögregla og sjúkralið höfðu ekki upplýsingar um heimilisfangið þar sem atburðurinn átti sér stað fyrir utan að atvikið væri á Ólafsfirði, fyrr en eftir símtal vitnis við Neyðarlínuna. Voru þá lögreglubílar og sjúkrabílar á leiðinni til Ólafsfjarðar.“

Maðurinn sem lenti í átökum við Tómas sat í gæsluvarðhaldi til 7. nóvember. Krafðist þá lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, sem fer með rannsókn málsins, ekki framlengingar á gæsluvarðhaldi. Rannsókn málsins stendur enn yfir. Samkvæmt heimildum DV mun maðurinn hafa neitað sök í málinu og borið við að Tómas hafi hlotið áverka sína eftir að Tómas réðst á hann. Ekki er vitað hvort borið sé við sjálfsvörn eða hvort Tómas hafi látist fyrir slysni í átökunum sem maðurinn segir að Tómas hafi átt upptökin að.

Óvíst er hvort maðurinn verði ákærður og ef af ákæru verður, fyrir hvað. Sá möguleiki er fyrir hendi að lát Tómasar verði úrskurðað sem slys en ómögulegt er að ráða í það á þessum tímapunkti.

Hryðjuverkamálið og tengingin við föður ríkislögreglustjóra

Væntanlega þekkja allir vel til hryðjuverkamálsins svonefnda því það hefur verið mikið í fréttum. Sakborningarnir Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathanson ganga lausir en hafa verið ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka og vopnalagabrot. Þeir játa vopnalagabrot en harðneita sök í ákæruliðnum sem lýtur að tilraun til hryðjuverka. Þar er byggt á spjalli þeirra um slík áform á spjallforritinu Signal, en einnig því að þeir hafi viðað að sér efni um hryðjuverkaaðferðir, sem og áróðri hægri öfgamanna. Einnig kemur fram í ákæru að Sindri Snær er sagður hafa gert tilraun til að verða sér úti um lögreglubúning og lögreglumerki. Ekki er tilgreint nánar í ákæru hvernig Sindri Snær bar sig að í þeim tilraunum en í spjalli sínu ræddu þeir meðal annars um að vinna voðaverk á árshátíð lögreglunnar.

 

Hluti vopnanna sem gerð voru upptæk við rannsókn málsins. Mynd: Valli

Á upplýsingafundi lögreglu um málið var sýndur fjöldi skotvopna sem gerð voru upptæk við rannsókn málsins. Sindri Snær hefur játað að hafa búið til vopn og breytt vopnum með þrívíddarprentara.

Jafnframt var upplýst að ríkislögreglustjóri, Sigríðar Björg Guðjónsdóttir, hefði sagt sig frá rannsókninni vegna tengsla ættingja við málið. Fljótlega kom í ljós að sá ættingi var faðir ríkislögreglustjóra, vopnasalinn og -safnarinn Guðjón Valdimarsson.

Guðjón er ekki grunaður um hlutdeild í áformum um hryðjuverk en hann er grunaður um vopnalagabrot. Hann hefur þó ekki verið ákærður fyrir neitt og ekki liggur fyrir hvernig rannsókn á hans málum miðar eða hvort hún yfirleitt sé í gangi.

„Þið eruð raunverulega að segja að ég sé fáviti“

Snemma í nóvember komust fjölmiðlar, þar á meðal DV, yfir afrit af lögregluyfirheyrslu sem Guðjón Valdimarsson, faðir ríkislögreglustjóra, gekkst undir þann 28. september.

Guðjón var yfirheyrður á heimili sínu í Hafnarfirði, sem er nokkuð óvenjulegt og jafnvel á svig við lög um meðferð sakamála, þar sem kveðið er á um að yfirheyrslur skulu framkvæmdar í húsnæði lögreglu þegar því verður við komið.

DV reifaði yfirheyrsluna í frétt sem birtist 7. nóvember síðastliðinn og þar segir:

„Sko, ef ég fengi að ráða þá myndi ég reka ykkur alla saman út hérna bara eins og skot, en ég veit að það verður verra sem kemur þá á eftir, þess vegna umber ég ykkur,“ sagði Guðjón Valdimarsson, byssusali og byssusafnari, og faðir Sigríðar Bjarkar ríkislögreglustjóra, við lögreglumann sem yfirheyrði hann á heimili hans þann 28. september, á meðan fjölmargir lögreglumenn framkvæmdu húsleit á heimili Guðjóns, í leit að ólöglegum vopnum.

Guðjón ber stöðu sakbornings og er grunaður um vopnalagabrot. Framburðir sakborninga í hryðjuverkamálinu svonefnda urðu til þess að grunur féll á Guðjón. Hann er hins vegar ekki grunaður um áform um hryðjuverk líkt og sakborningarnir í hryðjuverkamálinu. Í yfirheyrslunni voru bornar undir Guðjón fullyrðingar um tvenn meint vopnlagabrot. Annars vegar var hann sagður hafa lánað einum sakborningi í málinu (þeir eru fjórir, þar af sitja tveir í gæsluvarðhaldi) Colt riffil. Hins vegar er hann grunaður um að hafa keypt af öðrum sakborningi þrívíddarprentað skotvopn og greitt fyrir það 400 þúsund krónur í reiðufé.

Í yfirheyrslunni harðneitaði Guðjón þessum áburði og sagðist aldrei hafa hitt sakborninganna og ekkert þekkja til þeirra.

Guðjón var viðskotaillur í yfirheyrslunni en lögreglumaðurinn sem yfirheyrði hann var mjög auðmjúkur og sótti ekki hart að honum. Hafði yfirheyrslan það eina markmið, að virtist, að fá fram viðbrögð Guðjóns við framburði mannanna sem vitnað hafa um vopnaviðskipti við hann. Sérkennilegt er að Guðjón skuli hafa verið yfirheyrður á heimili sínu og er það ekki í anda laga um meðferð sakamála þar sem kveðið er á um að yfirheyrsla skuli fara fram á lögreglustöð eða í sérútbúnu húsnæði, sé þess kostur. Undantekningar eru helst þær ef vitni eða sakborningur liggur á spítala, þá fer yfirheyrsla fram þar.

Guðjón harðneitaði þessum framburði, sagði öll sín vopn skráð, sagðist aldrei hafa framið vopnalagabrot og ekki hafa lánað skotvopn í tíu ár. Komið hefur fram í fréttum að við húsleitina fundust á fjórða tug vopna sem hann gat ekki gert grein fyrir.

Guðjón sagðist vera tilbúinn að gangast undir lygamælispróf, hann sagði orðrétt:

„Ef þú vilt þá skal ég fara í þarna ef þið hafið einhvers konar þarna lyga, lygapróf þá er það bara sjálfsagt. Ég hef aldrei gert þetta.“

Lögreglumaðurinn sagði að lygamælispróf væri óþarfi og minnti Guðjón á að ekki væri verið að ásaka hann um neitt, bara bera þessar fullyrðingar undir hann, þ.e. framburð sakborninganna. Guðjón sagði framburð þeirra um sig vera lygi.

Guðjón var mjög heykslaður á lögregluaðgerðunum og sagði meðal annars:

„Þetta, veistu það, ég bara sko eftir því sem lengra líður á þetta samtal okkar hérna og allt þetta verklag hérna, mér finnst bara eins og ég sé í Austur Þýskalandi hjá Stasi sko. Hvar er minn réttur, jú þið eruð búnir að benda mér á að fá mér lögmann en hvar, á hverju byggið þið þetta, einhverjum orðum einhverra manna. Hvað, hvaða menn eru þetta einhverjir glæpamenn sem eru að taka eða hvað hef ég brotið af mér til þess að verðskulda svona athygli?“

Hafi Guðjóni verið misboðið þegar borinn var undir hann framburður þess efnis að hann hefði lánað Colt rifill komst hann þá fyrst í uppnám þegar undir hann voru borin þau ummæli að hann hefði keypt þvívíddarprentað skotvopn fyrir 400 þúsund krónur. Guðjón sagði:

„Hversu gáfulegt heldur þú að það sé fyrir mig sem að, vopnasala og faðir ríkislögreglustjóra, að kaupa þrívíddarprent, þrívíddarprentaða byssu og hafa hana hér eða hvar sem væri sem hún gæti fundist á mínum vegum. Hversu gáfulegt fyndist þér það vera? Þið eruð raunverulega að segja að ég sé fáviti. Það bara það hlýtur að vera, vegna þess að það dytti engum heilvita manni í huga að gera þetta.““

Minnti á skyldmenni sín

Guðjón sagði ennfremur:

„Ef þið bara hefðuð skoðað hver skyldmenni mín eru, þá hefðuð þið ekki komið hingað, nema það sé bara einhver hefndarráðstöfun gagnvart dóttur minni. Það er það eina sem ég get séð úr þessu, því ég hef ekkert að fela og þið hafið fengið að skoða allt hér. Þið eruð reyndar ekki búnir að leita á mér.“

Guðjón kemst í mikið uppnám og þornar í hálsinum

Guðjón er afar sár og miður sín yfir áburðinum. Hann reiðist hvað eftir annað við lögreglumanninn, sér síðan að sér og biður hann afsökunar. Hann segist upplifa sig mjög varnarlausan gegn einhverjum framburði manna sem hann þekki ekki. Hann sagðist ekkert hafa að fela og hvatti lögreglumennina til að gera tölvuna sína upptæka:

„Bara takið þið helvítis tölvuna, ég, ég er ekki einu sinni að skoða klám. Þið megið það bara mín vegna, ég vil bara fá hana fljótt aftur, þið verðið bara að afrita hana þannig að ég fái hana aftur, ég nota hana.“

Nokkru síðar sagðist Guðjón þurfa að fá sér að drekka, þar sem hann væri orðinn þurr í kverkunum vegna þess að hann væri skelkaður af ásökununum sem á hann voru bornar:

„Komdu fram á bað með mér, ég ætla að fá mér vatn vegna þess að ég er bara orðinn sko, ég held að sé bara svona skelkaður að ég er bara þurr í kverkunum.“

Í lok yfirheyrslunnar sagðist Guðjón mögulega geta borið kennsl á mennina sem báru á hann vopnalagabrot ef hann fengi að sjá myndir af þeim. Nöfn þeirra kannaðist hann hins vegar ekki við. Hvað eftir annað í yfirheyrslunni sagði hann að ásakanirnar væru fráleitar, hann hefði engin vopn lánað og hann hefði ekki keypt þrívíddarprentað vopn.

Stærsta kókaínmál Íslandssögunnar

Um miðjan nóvember greindi DV frá stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar en fjórum mönnum hafði þá verið birt ákæra vegna meints smygls á rétt tæplega 100 kílóum af kókaíni.

Mennirnir heita Páll Jónsson, Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson. Páll Jónsson er 67 ára gamall og hefur stundað innflutning á timbri. Fyrirtæki hans heitir Hús og Harðviður en í ákæru segir að fyrirtækið hafi verið notað í peningaþvætti í tengslum við kókaínsmyglið.  Meðal ákærðra er einnig Jóhanns Páll Durr, 28 ára gamall, en hann er fyrrverandi liðstjóri hjá íslensku liði í rafíþróttum.

Kókaínið var flutt til landsins, falið í trjádrumbum í timbursendingu. Raunar var búið að skipta efnunum út fyrir gerviefni áður en þau komu til Íslands. Efnin komu fyrst með gámum frá Brasilíu til Hollands. Íslenska lögreglan hafði veður af smyglinu og lét tollverði í Rotterdam í Hollandi vita. Þeir skiptu fíkniefnunum út fyrir gerviefni áður en gámurinn fór til Íslands.

Götuvirði efnanna er talið nema um tveimur milljörðum króna.

Risasending af gerviefnum í skjóli sumarnætur

Gámurinn með efnunum kom hingað til lands aðfaranótt 25. júlí í sumar sem leið. Var gámurinn afgreiddur af tollsvæði þann 2. ágúst og þaðan fluttur að Borgartúni í Reykjavík. Þann 4. ágúst voru trjádrumbarnir fjarlægðir úr gámnum og fluttir að Gjáhellu 13 í Hafnarfirði þar sem gerviefninu, sem mennirnir töldu vera kókaín, var pakkað. Hluti af sendingunni var keyrður með sendibíl til ógreinds aðila hér á landi, eins og það er orðað í ákærunni, til að hægt yrði að koma efnunum í sölu og dreifingu. Lögreglan lagði hald á efnin í bílnum þar sem honum var lagt í stæði í Mosfellsbæ.

Mennirnir eru auk ákæru um stórfellt fíkniefnasmygl ákærðir fyrir peningaþvætti en á reikningum þeirra hafa fundist háar fjárhæðir sem þeir geta ekki gert grein fyrir. Þannig er timbursalinn Páll Jónsson sakaður um peningaþvætti upp á rúmlega 16 milljónir kóna. Er hann sagður hafa tekið, geymt, umbreytt og aflað sér ávinnings af refsiverðum brotum sem nemur þessari upphæð. Er hann sagður hafa notað peningana til eigin framfærslu og til að greiða fyrir innflutning fíkniefna.

Birgir Halldórsson, sem er fæddur árið 1995, er sagður hafa tekið við, geymt, umbreytt og aflað sér ávinnings af refsiverðum brotum fyrir samtals rúmlega 13 milljónir króna. Geymdi hann peningana og notaði til eigin framfærslu.

Rafíþróttaliðstjórinn Jóhannes Páll er sakaður um að hafa tekið við eða aflað sér með ólöglegum hætti ríflega 17 milljónum króna.

Daði Björnsson, sem fæddur er árið 1992, er sakaður um peningaþvætti sem nemur rúmlega 16,3 milljónum króna.

Réttað verður yfir mönnunum á næsta ári.

Árásin á Bankastræti Club

 

Fimmtudagskvöldið 17. nóvember fóru 27 menn inn á skemmtistaðinn Bankastræti Club, réðust á þrjá menn um tvítugt sem þar voru inni og stungu þá margsinnis með eggvopnum. Þolendur slösuðust illa en þó ekki lífshættulega.

Fréttablaðið greindi frá myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél sem sýndi árásina. Miðillinn treysti sér ekki til að birta myndbandið í heild en lýsti því svo, meðal annars:

„Mennirnir þrír reyna að verjast þeim með hnefum en það sést greini­lega í mynd­bandinu hvernig mennirnir ráðast að þeim með egg­vopnum. Einn liggur illa særður við inn­ganginn á her­berginu á meðan mennirnir hópast allir á hina tvo.

Mennirnir eru með lamb­hús­hettur og co­vid-grímur. Þeir ganga harka­lega og hratt að þeim. Það tekur á­rásar­mennina um 46 sekúndur að ryðjast inn berja og stinga mennina og yfir­gefa her­bergið.“

Nokkrar íkveikjur og sprengjuárásir urðu í kjölfar atburðarins sem tengdar voru við hann og töldust hefndarárásir.

Málið er enn í rannsókn en aðeins einn sakborningur er í gæsluvarðhaldi. Innrásin var sögð vera hefndarárás og tengjast uppgjöri milli hópa í undirheimum. Einn úr hópnum sem réðst inn á Bankastræti Club er Jón Pétur Vágseið. Jón Pétur hefur rekið dyravarðarþjónustu og margir þeirra sem að tóku þátt í árásinni eru samstarfs- eða undirmenn hans. Ekkert bendir þó til þess að Jón Pétur hafi sjálfur mundað eggvopn inni á staðnum en hann var handtekinn vegna árásarinnar og mátti sæta gæsluvarðhaldi í sex sólarhringa.

Jón Pétur steig fram í viðtali við Reyni Traustason á Mannlífi og lýsti, frá sínum sjónarhóli, því sem gekk á þetta kvöld og baksviði atburðarins. Segir hann að ástæðan fyrir því að hópurinn ruddist inn á Bankastræti Club hafi verið sú að þeir vildu fá menn úr svonefndum „Latínóhópi“ til að láta af hótunum við konur og aðstandendur sumra í hópnum. Meðlimir „Latínóhópsins“ hafi síðustu þrjú ár  staðið í  stríði við Jón Pétur og félaga og sprengt upp farartæki, kastað eldsprengjum fyrir framan hús og mætt með sveðjur við ýmis tilefni.

Fjölmörg þessara mála hafi komið fram í fjölmiðlum en ekki verið tengd saman sem hluti af sömu atburðarrás.

Rótin að átökunum sé sú að vinur Jón Péturs hafi sofið hjá fyrrverandi kærustu „krimma“ sem hafi í kjölfarið vilja leita hefnda. Staðan í dag sé sú að 5 milljóna króna greiðslu sé heitið hverjum þeim sem drepi viðkomandi. „Við höfum sæst við þennan hóp fjórum sinnum,“ sagði Jón Pétur og vildi meina að meðlimir Latínóhópsins hafi svikið friðinn. „Þeir eru á bak við 90 prósent af hnífastungunum,“ sagði Jón Pétur og telur hann að hnífastungufaraldurinn hafi eingöngu verið á ábyrgð Latínóhópsins.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg