Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV úr fleiri en einni átt hafði verið haft samband við lögreglu vegna átaka á heimili Tómasar Waagfjörð í Ólafsfirði sunnudaginn 2. október, daginn áður en hann var myrtur. Lögregla sinnti ekki því útkalli. Íbúar á Ólafsfirði sem DV hefur rætt við segja að þetta minni á Barðavogsmálið, að því leyti að tilkynningu í aðdraganda voðaatburðar hafi ekki verið sinnt nægilega vel af lögreglu. Í Barðavogi var óskað eftir að hinn grunaði í málinu yrði fjarlægður vegna ofbeldishegðunar en við því var ekki orðið. Í Ólafsfjarðarmálinu snerist tilkynningin um meint framferði þolandans í málinu, Tómasar, en aðfaranótt mánudagsins, lét hann lífið í átökum sem urðu í íbúð í miðbæ Ólafsfjarðar, daginn eftir að hringt hafði verið í lögreglu og varað við meintu ofbeldisfullu framferði hans.
DV hefur ennfremur heimildir fyrir því að maður rétt yfir tvítugt og stúlka á 19. ári hafi komið á vettvanginn um 20 mínútum á undan lögreglu og sjúkraliði. Eiginkona Tómasar, en hún situr núna í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins, gerði þá vart við sig og óskaði hjálpar. Ungi maðurinn hringdi í Neyðarlínuna sem hafði þá þegar upplýsingar um hnífstungu í Ólafsfirði og var sjúkralið og lögregla á leiðinni.
Samkvæmt heimildum DV var vettvangur mjög blóðugur en lífgunartilraunir á Tómasi voru hafnar áður en sjúkralið og lögregla kom á vettvang. Hafði Tómas verið stunginn í magann með áhaldi sem að öllum líkindum var eldhúshnífur. Lífgunartilraunirnar voru árangurslausar. Maður sem situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins, vinur eiginkonu Tómasar, var með stungusár á fæti. Ennfremur, samkvæmt heimildum DV, kom vitni á vettvang á undan sjúkraliði og lögreglu gerði að sárum mannsins. Konurnar tvær, húsráðandi og eiginkona Tómasar, voru ómeiddar en viti sínu fjær á vettvangi. Íbúar í nágrenninu lýsa því að önnur konan hafi komið alblóðug út á götu og verið handtekin þar.
Fyrir liggur að lögregla og sjúkralið höfðu ekki upplýsingar um heimilisfangið þar sem atburðurinn átti sér stað fyrir utan að atvikið væri á Ólafsfirði, fyrr en eftir símtal vitnis við Neyðarlínuna. Voru þá lögreglubílar og sjúkrabílar á leiðinni til Ólafsfjarðar.
Konurnar tvær og karlmaðurinn á vettvangi voru öll handtekin. Krafist var gæsluvarðhalds yfir þeim öllum þremur en Landsréttur hafnaði gæsluvarðhaldskröfu yfir húsráðandanum. Eru því eiginkona hins látna og vinur hennar, sem stunginn var í fótinn, í gæsluvarðhaldi . Ekki liggur fyrir hvort þeirra stakk Tómas né nánari upplýsingar um átökin. Fyrir liggur að rétt áður en voðaatburðurinn átti sér stað fór Tómas viti sínu fjær af reiði í íbúðina til að sækja eiginkonu sína. Sá vitni hann ganga að íbúðinni en heimili hans er í sömu götu.