Landsréttur staðfesti á föstudag dóm Héraðsdóms Norðulands eystra yfir manni sem dæmdur var í skilorðsbundið fangelsi og ökuleyfissviptingu fyrir að valda slysum á gangandi vegfaranda og hjólreiðamanni. Maðurinn krafðist sýknu bæði í héraði og fyrir Landsrétti.
Atvikið átti sér stað í ágúst árið 2019 en dómur héraðsdóms í málinu féll í janúar síðastliðnum. Í ákæru er broti mannsins lýst þannig:
„fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 18. ágúst 2019 ekið bifreiðinni […] óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja (í blóði mældist […] 66 ng/ml, […] 69 ng/ml og […] 420 ng/ml) án nægilegrar aðgæslu og langt yfir leyfilegum hraða, eða með allt að 110 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst, norður Glerárgötu á Akureyri, þar sem hann missti stjórn á bifreiðinni, ók upp á umferðareyju og aftur út á Glerárgötu við Grænugötu, í veg fyrir bifreiðina […], sem ekið var í sömu akstursstefnu, og á gangandi vegfaranda, A, og hjólreiðamann, B, og hund hans, með þeim afleiðingum að A hlaut heilahristing og B hlaut fjöláverka, brot á lendalið, herðablaðsbrot, spjaldbeinsbrot, mjaðmarbeinsbrot, mörg rifbrot og rof á þvagblöðru. Með akstri sínum raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleið og á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu A og B, sem og farþega bifreiðarinnar, C, og annarra vegfarenda, sem leið áttu um Glerárgötu á sama tíma, í augljósan háska.“
Eins og ákærutextinn ber með sér voru meiðsli hinna slösuðu alvarleg. Myndskeið úr eftirlitsmyndavélum þóttu gefa góða mynd af atburðarásinni en um þau segir í texta héraðsdóms:
„Bregður bifreið ákærða fyrst fyrir á myndskeiði er sýnir gatnamót Glerárgötu og Strandgötu. Ellefu sekúndum áður en bifreið ákærða sést koma norður Glerárgötu, sést bílaleigubifreið vitnisins D, af gerðinni Toyota Yaris, […], beygja inn á götuna og aka til norðurs. Á myndskeiði er sýnir Glerárgötu sést bifreiðinni […] ekið eftir götunni á umferðarhraða. Skömmu síðar sést hvar bifreið ákærða er ekið eftir götunni og fram úr öðrum bifreiðum. Loks sést á þriðja myndskeiðinu hvar bifreið ákærða hefur dregið uppi bifreiðina […] og geysist fram úr henni á miklum hraða og snarsnýst bifreið ákærða í hálfhring á veginum fyrir framan hana, en kastast síðan upp á gangstétt og hverfur sjónum úr myndskeiðinu.“
Maðurinn kvaðst hafa ekið á umferðarhraða en taldi að djúp hjólför í slitlagi vegarins hefðu valdið slysinu. Gögn þóttu hins vegar sýna fram á að maðurinn hefði verið á miklum hraða og hann hefði ekið undir áhrifum lyfja.
Var maðurinn sakfelldur fyrir líkamsmeiðingu af gáleysi og hættubrot. Héraðsdómur dæmdi hann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til sviptingar ökuleyfis í sex mánuði.
Landsréttur hefur nú staðfest dóminn.
Dóma Landsréttar og hérðaðsdóms í málinu mál lesa hér