Meðal hinna handteknu er prins úr eldgamalli aðalsætt og fyrrum þingmaður.
Er hópurinn sagður hafa verið kominn langt í skipulagningu á þessu og að ekki hafi verið langt í fyrirhugaða árás og valdarán. Die Welt segir að ákveðið hafi verið að ráðast inn í þinghúsið og að búið hafi verið að úthluta embættum í nýrri ríkisstjórn.
Eins og fyrr sagði fóru aðgerðir lögreglunnar fram á 130 stöðum, meðal annars í herstöð og kastala. 25 voru handteknir en talið er að fjöldi grunaðra gangi laus.
Dei Zeit segir að samsærið hafi verið í undirbúningi í rúmlega eitt ár. Það hafi verið bæði pólitískt og hernaðarlegs eðlis. Sjálfskipað „Ráð“ var hin pólitíska yfirbygging á samsærinu. Ekki liggur fyrir hvaða markmið þetta „Ráð“ hafði sett sér en Die Welt segir að ætlunin hafi verið að endurreisa þýska keisaradæmið í þeirri mynd sem það var í þegar það var sett á laggirnar 1871.
Hvað varðar hernaðarleg markmið var ætlunin að ráðast inn í þinghúsið í Berlín og taka þingmenn sem gísla. Í tengslum við valdaránið var ætlunin að valda víðtæku rafmagnsleysi.
Talið er að væntingar hópsins hafi verið að þessar aðgerðir þeirra myndu valda því að þeir fengju strax breiðan stuðning almennings og ekki síst hluta lögreglunnar og hersins.
Þýskir fjölmiðlar byrjuðu strax í gærmorgun að skýra frá nöfnum sumra hinna handteknu. Þar á meðal er Heinrich XIII sem er prins af gamalli þýskri aðalsætt. Einnig var Birgit Malsack-Winkemann, fyrrum þingkona AfD, meðal hinna handteknu. Einnig var fyrrum yfirmaður úrvalssveita þýska hersins meðal hinna handteknu að sögn Die Zeit.
Sjónvarpsstöðin MDR segir að Heinrich XIII sé á áttræðisaldri og búsettur í suðurhluta landsins. Fjölskylda hans hefur áður sagt að hann sé „svolítið ringlaður“ stuðningsmaður ýmissa samsæriskenninga.
Birgit Malsack-Winkemann var þingmaður AfD, sem er hægrisinnaður þjóðernisflokkur, fram að síðustu kosningum. Hún var handtekin á heimili sínu í einu af betri hverfum Berlína. Lögreglan hafði fylgst með henni mánuðum saman. Flokkssystkini hennar, kunningjar og þingmenn segja hana stuðningskonu ýmissa samsæriskenninga og hallist að hugmyndafræði QAnon.
QAnon er samsæriskenning sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna og hafði meðal annars áhrif á marga þeirra sem tóku þátt í árásinni á þinghúsið í Washington í janúar á síðasta ári.
Það hefur vakið áhyggjur þýskra yfirvalda að margir í hópnum hafa gegnt herþjónustu, meðal þeirra eru margir herforingjar á eftirlaunum og fyrrum fallhlífahermenn og liðsmenn úrvalssveita hersins.
Hópurinn virðist eiga rætur að rekja til svokallaðra „Reichsburger“ (Ríkisborgara) sem eru einstaklingar og hópar sem viðurkenna ekki tilvist þýska sambandslýðveldisins, sem var stofnað 1949, og telja sig borgara í ímynduðu þýsku ríki.
Hreyfingin varð til á níunda áratugnum og hefur stækkað mikið síðan og orðið öfgafyllri. Einn af undirhópum hreyfingarinnar er fólk sem hefur sagt skilið við núverandi samfélagsmynd.
Þýsk yfirvöld segja að 21.000 manns tilheyri „Ríkisborgarahreyfingunni“ og af þeim séu rúmlega 2.000 reiðubúnir til að beita ofbeldi.