Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að ef slys verður um borð í skemmtiferðaskipi og bjarga þarf farþegum og áhöfn, sem geta jafnvel verið á fimmta þúsund, geti tekið allt að tvo sólarhringa fyrir varðskip að komast á vettvang. Margar klukkustundir og jafnvel sólarhringar myndu líða áður en erlendir viðbragðsaðilar kæmu á vettvang.
Ekki eru til áætlanir sem gera ráð fyrir öruggri björgun svo margra farþega.
Þetta kemur fram í skýrslu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum.
Fréttablaðið segir að í skýrslunni sé bent á að afleiðingar mengunarslysa skemmtiferðaskipa gætu orðið mjög miklar. „Samstarf við Siglingaöryggisstofnun Evrópu, EMSA, styrkir viðbúnað vegna mengunarslysa, þótt það tæki að minnsta kosti fimm daga að fá olíuhreinsunarskip frá stofnuninni,“ segir í skýrslunni.