fbpx
Fimmtudagur 20.janúar 2022
Fréttir

Árni segir rannsóknarnefndina hafa viðurkennt ritstuldinn og Alþingi bauð honum peninga – „Óhreinn hvítþvottur seðlabankastjóra“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 7. janúar 2022 10:30

Ásgeir Jónsson (t.v.) og Árni H. Kristjánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur ítrekar ásakanir sínar á hendur Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra um ritstuld. Árni segir Ásgeir hafa stuðst við rit sitt um SPRON við ritun síns hluta af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, án þess að geta heimilda. Ásgeir hefur svarið þessar ásakanir af sér og segist ekki einu sinni hafa vitað hver Árni var er hann vann verkið. Árni gefur lítið fyrir þetta. Í grein í Fréttablaðinu í dag segir Árni:

„Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, freistar þess að stýra umræðu, um ásakanir á hendur sér um ritstuld, á Facebook-síðu sinni í stað þess að svara fyrir þær í fjölmiðlum. Með því móti losnar hann við að fá krefjandi spurningar blaðamanna. Aðeins ein skoðun er leyfð á síðu Ásgeirs. Þar er talað um aðför öfundsjúkra hælbíta og minnipokamanna, Gróu á Leiti, rógburð, ærumeiðingar og samsæri sem miði að því að velta Ásgeiri úr stóli seðlabankastjóra. Því miður þá hafa flestir fjölmiðlar aðeins birt fréttir af einræðum hans, þar sem Ásgeir er m.a. lýstur saklaus, án þess að bera það undir mig. Það er bagalegt þegar svo er fyrir blaðamennsku komið. Ritstjórn Fréttablaðsins fær síðan bágt fyrir að sinna skyldu sinni og fjalla um málið á upplýsandi hátt þar sem sjónarmið beggja koma fram. Síðan þegar í harðbakkann slær þá er hægt að kaupa „sérfræðiálit“ fyrir rétt verð. Þetta sýnir vel hve auðvelt er fyrir efnað fólk í valdastöðum að stýra opinberri umræðu sér í hag.“

Í grein sinni bendir Árni á að rannsóknarnefndin hafi þegar viðurkennt ritstuldinn árið 2014:

„Hafa ber í huga að á þessum tíma lá fyrir viðurkenning á ritstuldi í greinargerð Rannsóknarnefndarinnar sjálfrar frá 11. ágúst 2014 og að starfsmenn hennar hefðu haft undir höndum handrit mitt að Sögu SPRON allan ritunartíma Rannsóknarskýrslunnar. Ástæða þessarar kúvendingar nefndarinnar var m.a. sú að til mín rataði óvænt tölvupóstur þar sem Vífill Karlsson, hagfræðingur og starfsmaður nefndarinnar, sendi handrit mitt áfram innan nefndarinnar með orðunum „Trúnaðarmál. Lætur þetta ekki fara lengra“.

Í greinargerð Rannsóknarnefndarinnar segir enn fremur: „Í því starfi var eitt og annað nýtt úr skrifum Árna“ og „Vafalaust má finna umfjöllun í skýrslunni sjálfri, sem byggir að einhverju leyti á því efni“. Jafnframt gerði skrifstofa Alþingis lítið úr álitsgerð sérfróðra matsmanna — tveggja háskólaprófessora, frá 3. júlí 2015, þar sem ritstuldur var staðfestur en Alþingi upplýsti ekki um fyrr en í desember sama ár. Þrátt fyrir grafalvarlegan áfellisdóm matsmanna um ritstuld, sem fól m.a. í sér skýlaust lögbrot, taldi skrifstofa Alþingis fráleitar skýringar Rannsóknarnefndarinnar vera fullnægjandi.“

Árni dregur einnig fram í grein sinni að Alþingi hafi boðið honum greiðslu fyrir afnot af efni hans við skýrsluna ef hann stigi ekki fram með málið opinberlega. Því hafi hann hafnað:

„Eftir að ég og stjórn Sögufélags höfðum hrakið greinargerðina lið fyrir lið þá leitaði Alþingi eftir sáttum. Þær umleitanir áttu sér stað á nokkrum fundum á tímabilinu janúar til mars 2016. Mér til fulltingis á fundunum var Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti Sögufélags. Alþingi bauðst til að greiða mér vangoldin laun og bætur með því skilyrði að ég minntist ekki á málið opinberlega — loka málinu endanlega eins og það var orðað. Ég gekk ekki að þessum afarkostum og upp úr viðræðum slitnaði.“

Í lok greinar sinnar írekar Árni ásakanir sínar á hendur seðlabankastjóra, hann hafi enda ritað þann hluta skýrslunnar sem varðar stuld á hans efni:

„Að lokum þá vil ég ítreka að ég stend við ásakanir um ritstuld á hendur Ásgeiri Jónssyni. Fyrir utan Vífil og Einar, sem þræta ekki lengur, þá er ekki öðrum til að dreifa en Ásgeiri. Það er einmitt Rannsóknarnefnd Alþingis sem segir hann hafa ritað sagnfræðihluta um sögu og bakgrunn sparisjóðanna, bæði á Íslandi og erlendis — nefnilega sama efni og var í handriti mínu og varðar ritstuld.“

Sjá grein Árna

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt