Gísli Hauksson, einn af stofnendum fjárfestingasjóðsins GAMMA, játaði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að hann beitti fyrrverandi sambýliskonu sína ofbeldi fyrir tveimur árum síðan. RÚV greinir frá játningu Gísla.
Í ákærunni, sem Fréttablaðið fjallaði ítarlega um í apríl á þessu ári, er hann sakaður um að hafa ítrekað tekið fyrrverandi sambýliskonu sína kverkataki, skellt henni utan í vegg og þrengt að hálsi hennar svo hún átti erfitt með andardrátt og féll í gólfið.
Eftir þetta hörfaði fyrrverandi sambýliskona hans inn í herbergi og er Gísli sakaður um að hafa elt hana, ítrekað gripið um handleggi hennar og fleygt henni á rúm. Konan hlaut í kjölfarið tognun, ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg og marga yfirborðsáverka á hálsi, öxl og upphandlegg.