CNN og NBC skýra frá þessu. Segja miðlarnir að Bandaríkjamenn hafi látið Úkraínumönnum í té upplýsingar sem urðu til þess að Úkraínumenn gerðu árás á skipið. Úkraínumenn eru sagðir hafa séð rússneskt herskip í Svartahafi og hafi haft samband við Bandaríkin til að fá staðfest að þar væri um Moskvu að ræða. Þegar sú staðfesting fékkst frá Bandaríkjunum skutu Úkraínumenn flugskeytum á skipið sem var þá um 60 til 65 sjómílur sunnan við Odesa.
Ekki er vitað hvort Bandaríkjamenn hafi vitað að Úkraínumenn ætluðu að ráðast á skipið. Bandaríkjamenn komu ekki að þeirri ákvörðun segir CNN.
Ekki hefur verið skýrt frá þessu áður. NBC News segir að bandarískir embættismenn hafi áhyggjur af viðbrögðum Vladímír Pútíns, Rússlandsforseta, af fréttum um að Bandaríkin láti Úkraínu upplýsingar í té er varða stríðið. Í gær var skýrt frá því að upplýsingar frá Bandaríkjamönnum hafi átt sinn þátt í að Úkraínumönnum hefur tekist að fella fjölda rússneskra herforingja.