fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Fréttir

Sár viðskilnaður Hermanns við Júdódeild Ármanns – Skrifaði kveðjubréf til vinar síns sem ekki kom honum til hjálpar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 23. febrúar 2022 19:56

Á myndinni má sjá Hermann í júdóbúningi og bréfið sem hann færði vini sínum, þar sem hann spurði alvarlegra spurninga.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Hermann Valsson, leiðsögumaður og fyrrverandi keppnismaður í júdó, hneig niður meðvitundarlaus snemma á tækniæfingu í júdósal Ármanns, var hann látinn liggja afskiptalaus í 48 mínútur þar til loksins var hring á Neyðarlínuna og farið með hann á sjúkrahús. Fékk Hermann heilablóðfall og sér enn ekki fyrir endann á veikindum hans eftir atvikið sem átti sér stað í janúar árið 2021.

Hermann féll í yfirlið í kjölfar þess að ungur maður tók hann hengingartaki. Um var að ræða tækniæfingu en ekki keppni og til þess ætlast að menn fari varlega hvor að öðrum en félagi Hermanns í glímunni er á besta aldri á meðan Hermann, sem er með svarta beltið í júdó, er 65 ára og hafði ekki keppt í íþróttinni í meira en áratug. En svona óhönduglega tókst til. En með því aðgerðaleysi sem fólst í því að Hermann var látinn liggja meðvitundarlaus í langan tíma áður en hringt var í Neyðarlínuna telur hann að hafi verið brotin hegningarlög ásamt siðareglum ÍSÍ fyrir þjálfara. Hann skilur ekki hvers vegna júdófélagar hans og vinir til margra ára komu honum ekki til hjálpar og hirtu betur um hann:

„Ég var bara látinn liggja eins og kartöflupoki úti í horni og æfingin látin renna sitt skeið á enda. Það var fyrst eftir það sem hringt var á Neyðarlínuna,“ segir Hermann í viðtali við DV. Hann er afar ósáttur við hvernig félagið Ármann hefur vikist undan því að gera þetta mál upp og hefur þaggað það niður.

Hermann steig fram með sögu sína í Morgunblaðinu um síðustu helgi. „Tólf manns voru á æf­ing­unni og eng­inn gerði neitt; ég var bara lagður til hliðar en þó í aðeins fimm metra fjar­lægð frá miðju vall­ar­ins og lát­inn liggja þar meðvit­und­ar­laus,“ segir Hermann í Morgunblaðsviðtalinu.

Í frétt í Morgunblaðinu í dag birtist yfirlýsing frá Júdódeild Ármanns þar sem sögu Hermanns er andmælt. Þar segir meðal annars:

„Var þar um að ræða ein­hliða lýs­ingu aðila á at­viki sem átti sér stað á æf­ingu hjá fé­lag­inu í janú­ar 2021. Glímu­fé­lagið Ármann hef­ur skoðað þetta at­vik og fengið lýs­ing­ar viðstaddra á því sem átti sér stað.

Í stuttu máli gefa all­ir viðstadd­ir sömu lýs­ingu á því sem gerðist utan eins aðila, sem gaf sína lýs­ingu á at­vik­um í um­ræddri grein. Full­yrðing­ar þessa eina aðila um það sem gerðist stang­ast því á við upp­lif­un allra annarra sem voru á æf­ing­unni. Í ljósi þessa get­ur Glímu­fé­lagið Ármann ekki annað en hafnað al­farið lýs­ing­um viðkom­andi aðila á at­b­urðum sem fóru fram á um­ræddri judoæf­ingu í janú­ar 2021 enda í grund­vall­ar­atriðum í and­stöðu við það sem að aðrir sáu og upp­lifðu.“

Athygli vekur að í yfirlýsingunni er ekki tekist á við grundvallarstaðreyndir málsins, þ.e. þá fullyrðingu Hermanns að hann hafi verið látinn liggja afskiptalaus í 48 mínútur áður en hringt var hjálp. Í viðtali við DV bendir Hermann á að hann byggi þá staðhæfingu á gögnum. „ Ég byggi mína frásögn meðal annars á gögnum frá Neyðarlínunni, ég fékk útprentun og hljóðskrá frá símtalinu sem er til eftir að hringt var eftir þessar tæpu 50 mínútur,“ segir Hermann sem sér ekkert í yfirlýsingu Ármenninga sem hreki fullyrðingar hans:

„Þeir segja ekkert nema bara: Það sem þú ert að segja er rangt.“

Hegningarlagabrot að koma ekki manni til hjálpar

„Þarna voru siðareglur ÍSÍ fyrir þjálfara brotnar, alveg gjörsamlega, sem og ákvæði laga um íþróttahús, sem kveða á um að við svona aðstæður eigi að kalla til starfsmann íþróttahússins sem á að hjálpa þjálfara. Þessi áætlun fór ekki í gang,“ segir Hermann og bendir auk þess á 220 gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt henni getur það varðað 8 ára fangelsi að koma manni í neyð ekki til bjargar. Greinin er svohljóðandi:

„Hver, sem kemur manni í það ástand, að hann er án bjargar, eða yfirgefur mann, sem hann átti að sjá um, í slíku ástandi, skal sæta fangelsi allt að 8 árum.“

Hermann situr uppi með sárar og erfiðar spurningar. Hvers vegna komu menn honum ekki til hjálpar, hvers vegna þverbrutu þeir allar reglur og hvers vegna hafa þeir ekki viljað ræða þennan alvarlega atburð og gera hann upp?

Vinir og samherjar í 22,5 ár

Yfirþjálfarinn á æfingunni örlagaríku er japanskur að uppruna og heitir Iura og hafa hann og Hermann þekkst í 22 og hálft ár og hafa verið nánir vinir. „Við erum búnir að vinna saman í yfir 22 ár að framgangi júdóíþróttarinnar innan Ármanns. Ég hef þjálfað son Iura, Sveinbjörn, ég hef styrkt hann fjárhagslega til að hjálpa honum að komast á ólympíuleikana. Ég hef verið að passa sonarson Iura þegar hann hefur komið með pabba sínum á æfingar svo Sveinbjörn, sonur Iura, gæti æft í friði og komist á Ólympíuleikana. Ég er búinn að fara með honum á fjölmörg mannamót, fagnaðarfundi og sigurhátíðir þegar við höfum verið að standa okkur vel,  og ég þekki konuna hans vel því hún er leiðsögumaður eins og ég. Hann hefur bara verið einn að mínum nánustu vinum, hélt ég, í yfir 22 ár,“ segir Hermann.

Hann segir að Iura hafi nánast ekkert haft samband eftir atvikið örlagaríka. „Hann hringir í mig fjórum dögum eftir þennan atburð, þegar ég var í lyfjamóki uppi á slysavarðstofu og talar við mig í tvær mínútur. Síðan heyri ég ekki hósta né stunu frá honum í hálft ár, ég er ekki til fyrir honum,“ segir Hermann, sem fyrir um hálfu ári greip til nokkuð sérstæðra aðgerða til að freista þess að rjúfa þögnina.

Blómvöndur, kort og svarta beltið

„Ég ákvað að nú væri nóg komið. Ég keypti blómvönd og kort og tók með mér svarta beltið sem hann afhenti mér árið 2004. Ég fer á æfingu til að færa honum þennan blómvönd, kortið og beltið. Í kortinu þakka ég honum fyrir þessi 22 ár sem við höfum átt saman sem félagar en legg fyrir hann tvær spurningar: Af hverju hringdirðu ekki í 112 og kallaðir á hjálp? Af hverju hefurðu aldrei haft samband við mig þetta hálfa ár? Svo geri ég grein fyrir því hvers vegna ég skila honum svarta beltinu. Segist ekki hafa geð í að bera belti sem ég fékk þegar hann var prófdómari og sem hann þjálfaði mig fyrir.“

Hermann vonaðist eftir því að Iura myndi rétta fram sáttahönd, t.d. bjóða honum heim í mat til að ræða þetta síðar eða á kaffihús. „En hann urraði bara á mig. Það var það eina sem ég fékk,“ segir Hermann sár.

„Ég gaf honum alla möguleika að segja: Hermann, mér þykir þetta leitt. Þetta er svo mikil sorg,“ segir Hermann sem berst við erfiðar spurningar um hvernig menn sem standa honum nærri hafa brugðist honum.

„Ég hef verið að berjast við að finna einhverja skýringu á því hvers vegna mér er skúffað svona út í horn og traðkað á mér, ég ekki talinn þess virði að vera virtur viðlits.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Miklir fjárhagserfiðleikar hjá körfuknattleiksdeild UMFN

Miklir fjárhagserfiðleikar hjá körfuknattleiksdeild UMFN
Fréttir
Í gær

Sviptingar í Landsrétti – Ákæru gegn látinni móður Jónasar James Norris vísað frá dómi

Sviptingar í Landsrétti – Ákæru gegn látinni móður Jónasar James Norris vísað frá dómi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað