fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Huggun að líffæragjöf Sólveigar færi öðrum betra líf – „Það er mikil fegurð í þessu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 17. júní 2021 22:39

Sólveig Katrín Hallgrímsdóttir. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðstandendur Sólveigar Katrínar Hallgrímsdóttur, sem lést eftir að hafa fallið í skriðu í Flekkudal í Hvalfirði á þriðjudagskvöld, samþykktu líffæragjöf hennar í gær (miðvikudag). Segja þau að það hafi verið fyllilega í anda Sólveigar og nokkuð sem hún hefði viljað.

Sólveig var hraust kona á besta aldri (fædd 1977) sem stundaði hreyfingu og útivist af kappi. Það er ástvinum hennar huggun á þessum erfiðu tímum að þessi ákvörðun verði öðrum að lífgjöf. „Þetta er alveg gríðarleg huggun,“ segir Eyþór Eðvarðsson, móðurbróðir Sólveigar.

„Íslenska heilbrigðiskerfinu er oft hallmælt en þau fumlausu, hröðu og fagmannlegu vinnubrögð okkar færustu lækna sem við urðum vitni að voru okkur mikil upplifun í þessu ferli,“ segir Eyþór. Segir hann að læknar hafi gert allt til að bjarga lífi Sólveigar en síðan lagt mikið á sig til að halda líkama hennar í því formi að öðrum geti nýst líffæragjöfin.

„Núna er að lenda þota frá Svíþjóð, full af hinum færustu læknum,“ segir Eyþór en Ísland og Svíþjóð eiga í samstarfi um líffæraflutninga og eru sænsku sérfræðingarnir hingað til komnir til að framkvæma það sem þarf til að þessi líffgjöf Sólveigar og fjölskyldu hennar heppnist sem best, öðrum til heilla. „Þetta læknateymi sem hingað er að koma er búið að fá allar upplýsingar, búið að skoða allar myndir og önnur gögn sem að þessu lýtur, því að um leið og þetta var ákveðið í gær fór allt á fullt. Það er gaman til þess að hugsa að Ísland er í fremstu röð í líffæragjöf út frá höfðatölunni frægu, en hér eru að meðaltali 12 líffæragjafar á ári.“

Eyþór segir að undanfarnir dagar hafi verið fjölskyldunni mjög erfiðir en ákvörðunin um líffæragjöf Sólveigar hafi linað þjáninguna. Þá hafi verið tilkomumikið að upplifa það fumleysi og þau hröðu vinnubrögð sem einkenndu undirbúninginn að þessu mikilvæga verkefni.

„Aðgerðin verður í nótt, síðan verður flogið út með líffærin og kannski á morgun eru manneskjur, einhvers staðar á skurðarborði, á Norðurlöndunum eða Evrópu, tilbúnar að taka við gjöf til að hefja nýtt líf. Það er mikil fegurð í þessu,“ segir Eyþór.

Hann segir jafnframt að það hafi verið huggun að sjá falleg innlegg í kommentakerfum netmiðlanna í dag undir fréttum af andláti Sólveigar og það hafi snert hann að sjá svo marga setja inn hjörtu. Samhugurinn hjálpar á erfiðri stundu.

Eyþór langar að lokum að koma þeim skilaboðum á framfæri að notkun öryggishjálma verði aukin í fjallgöngum og skyldri útivist. Það snertir örlög Sólveigar sem lét lífið vegna slyss við slíkar aðstæður.

Hér að neðan fylgir fréttatilkynning sem fjölskyldan sendi á fjölmiðla vegna andláts Sólveigar og birtist í dag:

„Konan sem féll í skriðu í Flekkudal í Hvalfirði síðastliðið þriðjudagskvöld lést á gjörgæsludeild Landsspítalans í Fossvogi í morgun. Hún hét Sólveig Katrín Hallgrímsdóttir og var fædd árið 1977.

Sólveig, sem lætur eftir sig einn son, var viðskiptafræðingur frá Bifröst og var mikil útivistarmanneskja. Hún vann ötullega að því markmiði sínu að skoða og heimsækja alla fossa landsins. Þegar slysið varð átti hún 75 fossa að baki.

Fjölskylda Sólveigar vill koma á framfæri þakklæti til Landhelgisgæslunnar auk hjúkrunar- umönnunar- og sálgæslufólks sem lagði sig fram við mjög krefjandi aðstæður.

Sólveig var hraust manneskja og með líffæragjöf mun sú hreysti hennar færa nokkrum manneskjum betra líf. Læknateymi er væntanlegt utan úr heimi í dag og einhvers staðar bíður fólk fullt nýrrar vonar um nýtt og betra líf.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu