Stórhættulegt getur verið að nálgast hraunið á gosstöðvunum í Geldingadal og Meradölum en töluvert hefur borið á því að almenningur hafi farið langt inn fyrir skilgreint hættusvæði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum nú rétt í þessu.
Skilgreint hættusvæði er afmarkað svæði þar sem fólk getur verið í bráðri hættu vegna skyndilegra atburða sem geta orðið á gosstöðvum, segir í tilkynningunni. „Innan hættusvæðisins er allra mesta hættan á opnun fleiri gossprungna án fyrirvara og því getur fylgt skyndilegt og hratt hraunflæði sem erfitt er að forðast. Því má segja að hættusvæðið sé í raun stærra en það sem er merkt á kortinu því það fylgja einnig aðrar hættur á svæðinu sem fylgja framrás hrauns og uppsöfnunar gass. Því er fólk beðið um að nota almenna skynsemi og meta aðstæður á svæðinu hverju sinni.“
Á meðfylgjandi mynd hér að neðan má sjá hve hratt hraunið breiðir úr sér. Á myndinni til vinstri má sjá fólk komið inn á svæði sem hraunið hafði aðeins einni klukkustund síðar gleypt, líkt og sjá má á myndinni til hægri. Á fyrri myndinni má sjá að minnsta kosti 17 einstaklinga standandi þar sem glóandi hraun liggur á seinni myndinni.
Skilgreint hættusvæði má sjá á korti sem almannavarnir hafa gefið út, til dæmis á Facebook síðu sinni.
https://www.facebook.com/Almannavarnir/posts/4259086764123074
Upplýsingar um opnun og lokun svæðisins eru jafnframt birtar á Facebook síðu lögreglunnar á Suðurnesjum, sem nálgast má hér.