Föstudagur 26.febrúar 2021
Fréttir

Heiðurstengt ofbeldi á Íslandi – „Allir sem unnu að málinu voru hræddir um líf hennar“

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 24. janúar 2021 08:30

Mynd úr safni Getty. Tengist efni greinar ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvö ár eru síðan lögreglan á Íslandi rannsakaði í fyrsta skipti mál þar sem grunur lék á að um heiðurstengt ofbeldi væri að ræða. Ísland er mikill eftirbátur annarra Norðurlanda þegar kemur að stefnumótun og fræðslu um heiðurstengt ofbeldi.

HEIÐURSTENGT OFBELDI: Líkamlegt, andlegt og/eða félagslegt ofbeldi sem framið er í kjölfar þess að gerandi ofbeldis telur að þolandi þess hafi vegið að heiðri og orðspori hans eða fjölskyldu hans á einhvern hátt og þar með fært skömm yfir hann og fjölskyldu hans.

Á síðustu tveimur árum hafa sex mál komið inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem grunur hefur leikið á að um heiðurstengt ofbeldi væri að ræða. Áhættumat staðfesti heiðurstengt ofbeldi í tveimur þessara mála.

Marta Kristín Hreiðarsdóttir, verkefnastjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúi í stýrihóp verkefnisins „Saman gegn ofbeldi“, segir að fyrsta málið þar sem grunur lék á heiðurstengdu ofbeldi hafi komið á borð lögreglunnar árið 2018.

„Við höfum ekki tekið heiðurstengt ofbeldi sérstaklega út fyrir sviga hingað til en við erum meðvituð um að það er til og lítum mjög alvarlega á öll ofbeldisbrot. Það stendur til að fara í ítarlega vinnu tengda áhættumati í alvarlegustu heimilisofbeldismálunum á nýju ári en heiðurstengt ofbeldi er oft fjölskyldutengt,“ segir Marta. Í þeim fjórum málum sem ekki voru endanlega skilgreind sem heiðurstengt ofbeldi segir hún að niðurstaða skoðunar hafi leitt í ljós að áhættumat heiðurstengds ofbeldis ætti ekki við eða þá að ekki lægju fyrir nægar upplýsingar til að framkvæma slíkt mat.

Hún tekur fram að verið sé að mennta sérfræðinga í áhættumati innan lögreglu en það taki tíma.

Engin skipulögð fræðsla

Ásta K. Benediktsdóttir, félagsráðgjafi og deildarstjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segir að heiðurstengt ofbeldi sé falið og því átti almenningur sig mögulega ekki á því að það á sér stað í íslensku samfélagi. „Við á Íslandi erum mörgum árum á eftir öðrum Norðurlöndum þegar kemur að fræðslu og stefnumótun þegar kemur að þessari tegund af ofbeldi. Það er engin skipulögð fræðsla í gangi. Þetta er heit kartafla sem fólk kannski vill ekki vita af,“ segir hún.

Árið 2018 var haldin sameiginleg ráðstefna Kvennaathvarfsins og velferðarsviðs borgarinnar um heiðurstengt ofbeldi þar sem norskir sérfræðingar fjölluðu um margvíslegar birtingarmyndir heiðurstengdra átaka. Starfsfólk lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu var meðal þeirra sem sóttu ráðstefnuna. Ásta segist hafa vonað að ráðstefnan myndi valda vitundarvakningu í samfélaginu og að þverfaglegum samráðshópi yrði komið á laggirnar en lítið hafi gerst síðan þá í málaflokknum.

Hún hefur ritað ritrýnda grein sem bíður birtingar um stöðu þekkingar á heiðurstengdu ofbeldi í Evrópu og hefur kynnt sér fjölda rannsókna sem hafa verið gerðar á málefninu.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, félagsráðgjafi og deildarstjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Mynd/aðsend

Skorti þekkinguna

Ásta segir að árið 2016 hafi komið mál inn á borð velferðarsviðs þar sem grunur lék á að um heiðurstengt ofbeldi væri að ræða og starfsfólk áttaði sig á því að þekkingu skorti tilfinnanlega til að takast á við það. „Þetta var alvarlegt mál og í kjölfarið sáum við að það voru fleiri mál, sem voru í vinnslu eða komu inn á borð hjá okkur, sem grunur lék á að gætu flokkast undir heiðurstengt ofbeldi.“ Í framhaldinu hafi hún og fleiri farið markvisst að sækja sér þekkingu og var það meðal annars markmiðið með ráðstefnunni.

„Heiðurstengt ofbeldi er svo nýtt í umræðunni að ég held að margir viti ekki hvað þessi tegund ofbeldis sé. Ég held líka að við séum svo opin fyrir því að bera virðingu fyrir ólíkum menningarheimum að við áttum okkur ekki á því þegar um ofbeldi er að ræða,“ segir Ásta og kemur með dæmi um mál af þessum toga sem velferðarsvið tókst á við.

Beitt ofbeldi af föður og bróður

„Oft höldum við að heiðurstengt ofbeldi eigi sér aðeins stað hjá fólki sem er nýkomið til landsins frá öðrum menningarheimum en erlendar rannsóknir frá til dæmis Bretlandi sýna að það er ekki alltaf raunin.

Ég get nefnt dæmi af konu sem leitaði sér aðstoðar á heilbrigðisstofnun vegna sjálfsvígshugsana og þunglyndis. Hún sagðist hafa verið beitt ofbeldi af hálfu föður og bróður. Þetta var fjölskylda sem við myndum líta á sem Íslendinga. Hún og bróðir hennar voru fædd hér og uppalin en fjölskyldan hafði sterk tengsl við upprunalandið og færði menningu þess með sér hingað.

Þessi unga kona hafði gengið í skóla á Íslandi alla tíð. Þegar hún opnaði sig kom í ljós að hún mátti ekki eiga íslenska vini, hún mátti ekki taka þátt í skólastarfi utan hefðbundins skólatíma, vinir hennar voru frændur og frænkur, og hún var skömmuð fyrir ákveðinn klæðaburð sem þótti of djarfur í augum fjölskyldunnar. Hún var í vinnu en allur peningur var tekinn af henni.

Eftir að hún opnaði sig og lögregla var kvödd til upplifði hún sig í mikilli hættu og óttaðist hreinlega um líf sitt af hálfu föður og bróður.“

Stjórna peningum og klæðaburði

Ásta segir þessi mál bæði viðkvæm og vandmeðfarin, ekki síst þegar kemur að umfjöllun um þau. „Við viljum ekki að fólk sé að dæma þjóðfélagshópa en við þurfum að vera vakandi fyrir því hversu falið ofbeldið er en einnig því við höfum ekki haft orð til að lýsa því,“ segir hún.

Ásta bendir á að niðurstöður rannsókna sýna að heiðurstengt ofbeldi sé almennt hluti af kynbundnu ofbeldi en gerendur séu hins vegar ekki bara maki eins og þegar um kynbundið ofbeldi er að ræða heldur jafnvel margir meðlimir fjölskyldunnar. Þá séu það einnig mæður og tengdamæður sem taka þátt í ofbeldinu. „Margir tengja karlmenn og líkamlegt ofbeldi frekar við þetta heiðurstengda ofbeldi en þetta getur verið svo margslungið. Birtingarmyndirnar geta falist í kröfu um hlýðni og virðingu. Ég tek fram að oft ríkir sátt innan fjölskyldna um að ákveðnar venjur séu í hávegum hafðar, en þegar þessi sátt er ekki til staðar eru við í vandræðum. Ofbeldið getur þá líka falist í því að fá ekki að stjórna eigin peningum, internetnotkun, fatavali og síma,“ segir hún.

Þá sé erfitt að átta sig á umfangi ofbeldisins því fólk sem býr við þetta ofbeldi eða þetta félagslega taumhald á lífi sínu hringir ekki á lögregluna, og færir þannig skömm yfir fjölskylduna. „Þess vegna er fræðslan svo mikilvæg og að þau sem vinna með fjölskyldum og börnum séu þjálfuð til að þekkja einkennin, svo sem félagsráðgjafar, starfsfólk heilbrigðisþjónustu, skólahjúkrunarfræðingar og fleiri. Oft koma þessar fjölskyldur úr samfélagi þar sem ekki ríkir sama einstaklingshyggja og hér. Þess vegna hringir fólk sjaldnast á lögregluna nema það sé hreinlega hrætt um líf sitt,“ segir hún og játar að þekkja dæmi um slíkt.

Flúði með barnið

„Í þyngsta og erfiðasta málinu sem ég man eftir óttaðist kona sannarlega um líf sitt. Hún hafði gift sig hingað til lands fyrir tilstuðlan fjölskyldu sinnar og fjölskyldu mannsins hennar. Hún bjó hér á hans heimili ásamt foreldrum hans og fóru öll saman til upprunalandsins í ferðalag eftir að þau höfðu eignast saman barn.

Þegar hún kom til baka gaf hún sig á tal við landamæraeftirlitið og sagðist þurfa aðstoð við að komast frá manninum sínum. Hún hafði búið hér í nokkur ár, var háð manninum fjárhagslega og átti ekki eigin bankareikning, talaði hvorki íslensku né ensku. Einu samskipti hennar voru við fjölskyldu mannsins og samlanda þeirra.

Eftir að hún var flutt í Kvennaathvarfið var henni hótað lífláti og allir sem unnu að málinu voru hræddir um líf hennar. Þarna skipti öllu gott samstarf félagsþjónustu, lögreglu og Kvennaathvarfs. Þetta mál endaði þannig að hún flúði til útlanda með barnið.“

Ekki tengt trúarbrögðum

Ásta ítrekar að þessar frásagnir sýni hversu mikilvægt sé að fagfólk geti gripið strax inn í og þekki merkin. Hér hafi konur leitað á geðdeild og til landamæraeftirlits, en ekki hringt á lögreglu.

Hún bendir einnig á annars konar ranghugmyndir tengdar þessu en samkvæmt þeim rannsóknum sem hún hefur kynnt sér eru ekki tengsl á milli heiðurstengds ofbeldis og trúarbragða. „Þetta hefur verið skoðað sérstaklega, til dæmis varðandi heiðurstengt ofbeldi og íslam og það er ekkert í þeim trúarbrögðum sem ýtir undir þessa tegund glæpa. Þvert á móti er í íslam litið á allt líf sem heilagt. Það er frekar að í fjölmiðlum hafi verið ýjað að tengslum við trúarbrögð og það er mjög hættulegt.

Það eru mun frekar tengsl við menningu ákveðinna þjóða og samfélaga þar sem hið svokallaða feðraveldi er við lýði, kynbundið ofbeldi og strangar félagslegar hindranir þegar kemur að samskiptum kynjanna,“ segir hún.

Þá segir Ásta mikilvægt að við á Íslandi séum meðvituð um að þessi tegund ofbeldis eigi sér stað. „Stjórnvöld þurfa að setja heiðurstengt ofbeldi inn í stefnumótun og lagasetningu. Við gerum mjög vel að þessu leyti þegar kemur að öðrum tegundum ofbeldis, svo sem heimilisofbeldi, en erum hér eftirbátar nágrannaþjóða. Forvarnir og fræðsla eru lykillinn. Ég kalla eftir skýrri stefnumótum frá félagsmálaráðuneytinu í þessum málaflokki,“ segir Ásta.

Ekki sérstaklega fjallað um heiðurstengt ofbeldi

DV sendi fyrirspurn til félagsmálaráðuneytisins og spurði hvort þar hefði farið fram einhver stefnumörkun eða önnur vinna í tengslum við heiðurstengt ofbeldi og þá hver hún væri.

Í svari frá ráðuneytinu segir meðal annars: „Stefna og aðgerðir stjórnvalda gegn ofbeldi hafa verið gegn því samfélagsmeini sem ofbeldi er í heild sinni, frekar en að afmarka einstakar birtingarmyndir þess, s.s. heiðurstengt ofbeldi.“

Þá er í svarinu bent á að Ísland hafi árið 2018 fullgilt Istanbúl-samninginn en það er samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð. Sérstakt ákvæði um heiðurstengt ofbeldi er að finna í Istanbúl-samningnum.

Ásmundur Einar Daðason er félags- og barnamálaráðherra.

Í svari félagsmálaráðuneytisins segir einnig: „Öflug og markviss vinna hefur átt sér stað gegn ofbeldi af öllu tagi í íslensku samfélagi og afleiðingum þess. Má þar sérstaklega nefna vinnu aðgerðateymis gegn ofbeldi sem skipað var sl. vor, sem ein af viðbrögðum stjórnvalda við áhrifum Covid-19. … Aðgerðum hefur verið ætlað að ná til allra hópa samfélagsins, en jafnframt er sérstök áhersla lögð á viðkvæma hópa þar með talið fólk af erlendum uppruna.“

Í því sambandi hafi meðal annars verið veittir styrkir til verkefna sem miða að fólki af erlendum uppruna, svo sem vitundarvakning meðal kvenna af erlendum uppruna um ofbeldi, verkefni sem lýtur að því að valdefla konur frá Mið-Austurlöndum, rannsókn á reynslu kvenna af erlendum uppruna á kynbundnu ofbeldi, og miðlun upplýsinga um þjónustu Aflsins og Bjarmahlíðar á Norðurlandi á mörgum tungumálum.

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV 15. janúar.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sýknaður af ákæru um áreitni eftir óþægilega kvöldgöngu – „Sorry I like you so much“

Sýknaður af ákæru um áreitni eftir óþægilega kvöldgöngu – „Sorry I like you so much“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Viðamikil lögregluaðgerð í Kópavogi í dag vekur spurningar

Viðamikil lögregluaðgerð í Kópavogi í dag vekur spurningar
Fréttir
Í gær

Gunnar Bragi spyr hvort það megi vísa Reebar Abdi úr landi – „Skyldi hann vera búinn að fá ríkisborgararétt“

Gunnar Bragi spyr hvort það megi vísa Reebar Abdi úr landi – „Skyldi hann vera búinn að fá ríkisborgararétt“
Fréttir
Í gær

Telur að lögregla saumi að sakborningum – Játning eða yfirgnæfandi sönnunargögn munu opna málið upp á gátt

Telur að lögregla saumi að sakborningum – Játning eða yfirgnæfandi sönnunargögn munu opna málið upp á gátt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rauðagerðismorðið: Fimmmenningarnir áfram í gæsluvarðhaldi

Rauðagerðismorðið: Fimmmenningarnir áfram í gæsluvarðhaldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

58 skjálftar þrír á stærð eða meira – 669 skjálftar í heildina

58 skjálftar þrír á stærð eða meira – 669 skjálftar í heildina