fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Brennuvargurinn á Bræðraborgarstíg ósakhæfur og fer „ótímabundið“ á réttargeðdeild – En hvað þýðir það?

Heimir Hannesson
Laugardaginn 12. júní 2021 14:00

Marek Moszczynski í Héraðsdómi Reykjavíkur við aðalmeðferð í málinu. mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og DV greindi frá í byrjun júní var Marek Moszczynski fundinn ósakhæfur af Héraðsdómi Reykjavíkur. Marek var ákærður fyrir að hafa kveikt í Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní 2020 og þannig banað þremur og sýnt tíu til viðbótar banatilræði. Marek var þá jafnframt ákærður fyrir að hafa veist að lögreglumönnum sem handtóku hann fyrir utan rússneska sendiráðið þetta örlagaríka eftirmiðdegi.

Aðalmeðferðin í málinu tók heila fjóra daga, sem þykir mjög óvenjulegt, og þannig ljóst að um gríðarlega umfangsmikið mál var að ræða. Á fjórða tug vitna gáfu skýrslu fyrir dómi, auk þess sem spilaðar voru upptökur úr öryggismyndavélum í miðbænum og úr búkmyndavélum lögreglumanna í dómsal.

Marek var fundinn sekur um að hafa kveikt eldinn og banað þremur, en ekki þótti sannað að allir tíu sem voru í húsinu þegar eldurinn brann hafi staðið lífshætta af brunanum. Í dómnum segir, afdráttarlaust: „Ákærði hefur hér verið fundinn sekur um mjög alvarlegt brot sem höfðu hrikalegar afleiðingar.“

Mikið var fjallað um geðræn veikindi Mareks við aðalmeðferð málsins. Segir í dómnum:

„Hver sem orsök veikinda ákærða er þá er ljóst að hann veiktist mjög alvarlega í júní 2020. Háttsemi hans hafði afar alvarlegar afleiðingar. Útilokað er að segja um það með vissu hvernig andlegri heilsu hans verði háttað til framtíðar. Það liggur því fyrir að nauðsynlegt er að fylgjast náið með geðrænu ástandi hans, meta einkenni hans og þróun þeirra, stilla af lyfjameðferð og gera áhættumat. Telur dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmanni, að nauðsynlegt sé vegna réttaröryggis að ákærði sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Þá þykir rétt að á þeim tíma gangist ákærði undir viðeigandi meðferð vegna veikinda sinna. Skal meðferðin vera undir eftirliti yfirlæknis öryggis- og réttargeðdeildar og er ákærða skylt að hlíta viðeigandi meðferð, hvort sem hún er í formi viðtala eða lyfjagjafar, allt eftir nánari ákvörðun yfirlæknis hverju sinni.“

Bætur á grundvelli laga frá 13. öld

Þrátt fyrir ósakhæfi Mareks var hann í þeim sama dómi dæmdur til þess að greiða ættingjum þeirra látnu og öðrum fórnarlömbum sínum tugi milljóna í bætur á grundvelli 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar. Bálkurinn sem vísað er til er frá árinu 1281 og gengur ákvæðið undir nafninu „Um óðs manns víg ok hversu með hann skal fara.“ Um elsta ákvæði í íslenskum lögum er að ræða en það hefur áður verið notað í nýlegum dómum til þess að ákvarða bætur úr hendi ósakhæfra manna.

En hvað verður um ósakhæfa menn sem þurfa að sæta öryggisgæslu á „viðeigandi stofnun?“ Aðeins ein slík er rekinn hér á landi, réttargeðdeild Landspítalans. Hún er hýst á Kleppi. Húsið fræga sem áður hýsti Kleppsspítala var reist 1907 og hefur bæði húsið og nafn þess orðið tákn fyrir sögu meðhöndlunar á geðrænum vanda hér á landi. „Kleppur er víða,“ skrifaði Einar Már.

Munurinn á réttargeðdeild og geðdeild er sá að réttargeðdeild hýsir menn sem samkvæmt greinum almennra hegningarlaga eru dæmdir til þess að vistast á slíkri stofnun og stjórnast vistunartíminn af dómstólum. Dómari ákvarðar dvölina, og dómari afléttir henni. Ef vista á menn á almennum geðdeildum gegn vilja þeirra, gilda ákvæði lögræðislaga þar um og stjórnast meðferð og meðferðartíminn af lækni.

Í hegningarlögum segir að þegar menn eru fundir ósakhæfir samkvæmt skilgreiningu laga megi þó ákveða „ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis að gerðar skuli ráðstafanir til að varna því að háski verði af manninum.“ Héraðsdómur valdi, eins og áður sagði, að fara þá leið í tilfelli Mareks.

Marek var því sama dag og dómur féll, fluttur á Klepp.

Ár hið minnsta

Hegningarlög tilgreina jafnframt að Marek skuli skipaður tilsjónarmann sem hefur eftirlit með því að dvölin verði ekki lengri en „nauðsyn ber til.“ Gera lögin ráð fyrir því að sá tilsjónarmaður geti fyrst eftir ár krafist endurskoðunar á dóminum.

Framtíð Mareks er því að mörgu leyti óráðin. Einn geðlæknirinn sem gaf skýrslu fyrir dómi og kom að vinnu að undirgeðmati Mareks var til að mynda ósammála því að vista þyrfti Marek á réttargeðdeild yfir höfuð. Sagði hann það nægja að honum yrði gert að sæta til dæmis reglubundnu eftirliti á heilsugæslustöð.

Þá liggur heldur ekki fyrir hvort málinu verði áfrýjað. DV greindi frá því í vikunni að ríkissaksóknari, sem tekur ákvarðanir um áfrýjun mála fyrir hönd ákæruvaldsins, myndi ekki áfrýja máli Mareks til Landsréttar. Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Mareks tók sér við dómsuppkvaðningu fjögurra vikna frest til þess að taka ákvörðun þar um. Enn eru rúmar tvær vikur eftir af þeim fresti, og því mun líkast til ekki liggja fyrir fyrr en í lok júní hvort málið endi á borði Landsréttar.

Verði dómnum ekki áfrýjað, og niðurstaðan sem nú liggur fyrir endanleg, gæti því svo farið að Marek verði laus eftir ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Úkraínskir hobbýdrónar gera rándýrum rússneskum skriðdrekum lífið leitt

Úkraínskir hobbýdrónar gera rándýrum rússneskum skriðdrekum lífið leitt
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks