fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Fréttir

Harðar deilur um Þjóðleikhússmerkið – Magnús Geir útskýrir málið

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 21. september 2020 16:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki eru allir sáttir með nýtt merki Þjóðleikhússins sem var birt í síðustu viku. Hefur merkið verið fært í nútímalegra horf sem hentar betur fyrir samfélagsmiðla og snjalltæki. Þjóðleikhússtjóri segir að gamla merkið lifi þó enn góðu lífi. 

Nýtt merki Þjóðleikhússins hefur orðið tilefni nokkurar úlfúðar á samfélagsmiðlum undanfarna daga, eða allt frá því að merkið var kynnt til sögunnar þann 16. september.

Hér má sjá nokkur tíst þar sem netverjar furðuðu sig á breytingunni

 

Misskilningur

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir í samtali við DV að umræðan um merkið byggi að hluta á misskilningi. Það sé rétt að tekið hafi verið upp nýtt einfaldara merki sem notað sé þar sem við á en samhliða lifi gamla góða merkið enn góðu lífi.

„Við skiljum vel að fólk hafi ólíkar skoðanir á þessum merkjum eins og öðru – og reyndar er afskaplega ánægjulegt að sjá að fólk láti sig málefni Þjóðleikhússins varða.  Á undanförnum mánuðum höfum við verið að endurskoða, breyta og bæta ýmislegt í starfsemi Þjóðleikhússins með það að markmiði að Þjóðleikhúsið mæti tvíeflt til leiks nú þegar sýningar hefjast loks á ný. Við viljum auðvitað að Þjóðleikhúsið sé síungt og sífellt að endurnýja sig, þó það búi að merkri sögu og sterkum grunni.

Við viljum að Þjóðleikhúsið tali til nýrra leikhúsgesta, ekki síður en þeirra sem eldri eru og leggjum okkur fram um að viðfangsefnin og framsetningin endurspegli það. Við höfum líka verið í miklum endurbótum á húsnæðinu sjálfu en þessi fallega bygging hefur mátt muna fífil sinn fegurri en á undanförnum árum. Nú höfum við endurnýjað húsnæðið í anda þess sem Guðjón Samúelsson sá fyrir sér þegar húsið var byggt en breytingarnar endurspegla væntingar nútímafólks um bætt aðgengi, betri þjónustu og heildrænni upplifun.

Því er veitingaþjónusta stóraukin og öll upplifun í húsinu bætt.  Samhliða þessu hefur verið frískað upp á kynningarefni og markaðsútlit. Hins vegar er það ekki svo að gamla góða merkinu sé hent, þvert á móti þá nýtum við það áfram þar sem við á.“

Eldri útgáfa merkisins sómir sér vel víða í nýju kynningarefni leikhússins sem og í húsinu sjálfu. Merkið er að finna á nýjum leikskrám, í kynningarriti leikhússins sem kom út í síðustu viku og víðar.

„Nýja merkið sem við notum samhliða hinu eldra er fyrst og fremst hugsað þar sem það þarf að njóta sín í nýrri miðlum. Nýja merkið er einfaldara og læsilegra, t.d. á samfélagsmiðlum og víðar. Þar vinnum við einfaldlega með nafnið sjálft – en bætum ekki við nýjum táknum, enda eru þau falleg í gamla góða merkinu.“

Magnús bendir á að nýja merkið fái fólk til að lesa nafn leikhússins á nýjan hátt og rifja upp úr hvaða orðum það er mótað.

Svo Íslendingar geta andað léttar. Hvað sem því þykir um nýja merki Þjóðleikhússins þarf það ekki að kveðja það gamla sem lifir enn góðu lífi innan og utan veggja Þjóð-leikhússins.

„Gamla merkið er afskaplega fallegt og nýtur sín vel á réttum stöðum.“ 

Magnús Geir hefur áður tekið vörumerki leikhúsa í gegn. Þegar hann tók við stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins árið 2008 fór vörumerkið í allsherjar yfirhalningu og vakti það einnig nokkuð umtal.

Í dag örlar þó varla á gagnýni í garð merkis Borgarleikhússins sem hefur lifað góðu lífi síðan Magnús var þar leikstjóri og hefur það einnig unnið til verðlauna. Því má ætla að Magnús viti nokkuð hvað hann syngur og líklega ekki langt í að nýju merki verði tekið með þökkum.

Gamla merki Borgarleikhússins

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt