fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Eigendur Bræðraborgarstígs 1 gætu bókfært 90 milljóna hagnað vegna brunans

Auður Ösp, Heimir Hannesson
Föstudaginn 26. júní 2020 16:31

Bræðraborgarstígur 1 og 3. Báðar fasteignirnar eru í eigu HD verks ehf., sem er í eigu Kristins Jóns Gíslasonar. Hann er iðulega kallaður Diddi Rizzo. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókfært virði Bræðraborgarstígs 1 er 62 milljónir samkvæmt ársreikningum eiganda fasteignarinnar, HD verks ehf., frá árinu 2018. Þrír létust þar í hræðilegum bruna í gær.

Brunabótamatið á Bræðraborgarstíg 1 er 155 milljónir. Munurinn á brunabótamati og bókfærðu virði eignanna eru því rúmar 90 milljónir. Greiði tryggingafélag HD verks út fasteignina að fullu samkvæmt brunabótamati má því ætla að félagið geti bókfært um 93 milljóna hagnað vegna brunans. Í veðbókarvottorði eignarinnar kemur fram að tvö veðskuldabréf hvíli á eigninni og nema upphaflegar fjárhæðir 145 milljónum og 305 milljónum. Því til viðbótar er 50 milljóna tryggingabréf á eigninni frá Íslandsbanka.

Til viðbótar við eignina á Bræðraborgarstíg 1 á félagið næsta hús við það sem brann í gær, Bræðraborgarstíg 3 og þrjú iðnaðarhúsnæði í Kópavogi, Dalveg 24 – 26, Kársnesbraut 96A og Hjallabrekku 1.

Samkvæmt heimildum DV eru í húsnæðinu við Dalveg bílaþvottastöð og minnst tvö bílaverkstæði. Húsnæðið er samtals um 5.000 fermetrar og samanlagt fasteignamat eignanna tveggja, númer 24 og 26, um 741 milljón árið 2020. Bókfært virði eignarinnar var 2018 um 334 milljónir.

Iðnaðarhúsnæði nýtt sem yfirfull íbúðarhúsnæði

Fréttablaðið sagði frá því fyrr í morgun að 73 einstaklingar hefðu verið með lögheimili í húsinu sem brann og 134 í næsta húsi, Bræðraborgarstíg 3.

Í iðnaðarhúsnæði félagsins við Kársnesbraut 96A, búa minnst 9 einstaklingar í litlum krók hússins á jarðhæð en í afgangi hússins er hefðbundin iðnaðarstarfsemi. Húsið er um 1100 fermetrar og Efling stéttarfélag hefur lýst yfir áhyggjum af aðbúnaði fólksins sem býr í þessu húsi HD verks við Kársnesbraut, rétt eins og þau höfðu lýst yfir áhyggjum af aðbúnaði fólksins á Bræðraborgarstíg 1. Halla Rut Bjarnadóttir, skráður forráðamaður Seiglu, sagði í viðtali við Mbl.is í gær að Kársnesbraut 96A, þar sem hlutu starfsmanna á vegum starfsmannaleigunnar býr „[ sé] bara fínt hús með öllu sem til þarf. Það er garðskáli þarna og fjórar útgönguleiðir ef kviknar í og það er á fyrstu hæð.“

Hjallabrekka 1 í Kópavogi var skráð til sölu í apríl á þessu ári. Í auglýsingunni kemur fram að byggingafulltrúi Kópavogs hafi nýlega samþykkt að breyta skráningu eignarinnar í gistiheimili og að þar séu 15 herbergi, íbúðir og skrifstofur og að öll rými séu í útleigu. Fasteignamat 2020 eru samkvæmt auglýsingu fasteignasölu tæpar 77 milljónir og brunabótamat 159 milljónir. Skráð verðmæti eignarinnar árið 2018 var rúm 41 milljón samkvæmt ársreikningi HD verks þess árs.

Blaðamenn DV skoðuðu Kársnesbraut 96a í dag og tóku meðal annas meðfylgjandi mynd af húsinu.

Kársnesbraut 96a

Hér eru síðan myndir af Ja.is þar sem hinar eignirnar sjást.

Dalvegur 24 og 26

 

Hjallabrekka 1

Athygli vekur að bókfært virði eignsafns HD verks er aðeins lítið brot af fasteigna- og brunabótamati eignanna. Samanlagt fasteignamat eignanna árið 2018 er rúmur 1.2 milljarður, en bókfært virði eignanna það sama ár aðeins tæpur hálfur milljarður.

Bókfært virði fasteigna er reiknað samkvæmt ströngum reglum Ríkisskattstjóra um afskriftir. Þannig má ekki færa virði eignar neðar en sem nemur kaupvirði fasteignarinnar að teknu tilliti til afskrifta. Lesa má ýmislegt úr þessum mikla mun á fasteignamati og skráðu verðmæti fasteignarinnar, en auðveldast væri að skýra þennan mikla mun á bágu ástandi eignanna. Ljóst er að fasteignin Bræðraborgarstígur 1 var svo til ónýt, enda hafði staðið mikill styr um ástand fasteignarinnar og nágrannar hennar kvartað í áraraðir til Reykjavíkurborgar yfir umgengni og ástandi hennar.

Hver er Kristinn Jón Gíslason?

Fyrirtækið HD verk er skráð til heimilis að Dísarási 19, 110 Reykjavík, en eigandi HD verks er félagið H2o ehf., skráð á sama heimilisfang. Eigandi H2o og skráður forráðamaður HD verks er Kristinn Jón Gíslason. Á Instagram síðu sinni titlar Kristinn Jón sig sem „íslenskan frumkvöðul og eigenda fjölda fyrirtækja sem sé búsettur í Reykjavík og elski að skemmta sér, borða góðan mat og ferðast um heiminn.“

Kristinn Jón stofnaði Pizzahöllina árið 1996 ásamt Steingrími Gíslasyni og Gísli Guðmundssyni. Þeir seldu það árið 2001 og stofnuðu þá Papinos Pizza sem þeir ráku til ársins 2005. Árið 2004 opnuðu þeir Rizzo Pizzeria í Árbæ og síðar bættust við tveir staðir, á Grensásvegi og í Bæjarlind. Eftir það hefur Kristinn Jón gjarnan verið kallaður Diddi Rizzo.

Í september 2010 ræddu Kristinn Jón og bróðir hans Gabríel Gíslason við DV eftir að þeir komust lifandi úr bílveltu á Hringbraut. Bíllinn gjöreyðilagðist. Að sögn Kristins lét athafnamaðurinn og verktakinn Engilbert Runólfsson hann fá bílinn upp í greiðslu fyrir hlut Kristins í pítsastaðnum Rizzo. Bifreiðin þótti þá einn flottasti sportbíll landsins, metinn á tæplega 35 milljónir króna.

Í október 2011 var Kristinn Jón í viðtali við Fréttablaðið en hann starfaði þá sem framkvæmdastjóri veitingastaðarins Uno, sem nú hefur verið lokað. Fram kom að Kristinn Jón hefði verið viðriðinn veitingahúsarekstur í langan tíma.

Kristinn Jón komst enn og aftur í fréttinar hérlendis í júní 2012 þegar hann var sakaður um að hafa ásamt föður sínum ruðst inn á lögfræðistofuna Juris í miðborg Reykjavíkur og ráðast þar á Steinberg Finnbogason lögmann. Voru feðgarnir sagðir hafa meðal annars tekið Steinberg hálstaki. Í frétt RÚV á sínum kom fram að feðgarnir hefðu brotið allt og bramlað á stofunni og haft í hótunum við starfsmann en verið farnir af vettvangi þegar lögregla mætti á staðinn. Steinbergur staðfesti í samtali við DV að hann hafi kært árásina á sínum tíma.

Þegar DV ræddi við Kristinn hélt hann því fram að Steinbergur skuldaði honum peninga fyrir fasteign sem þeir áttu en hafði verið seld tveimur mánuðum áður. Sagðist hann hafa farið á lögmannsstofuna til þess að fá frekari upplýsingar um það hvenær hann fengi sinn hluta borgaðan þar sem hvorki pósti né síma hefði verið svarað. Samskipti hans og Steinbergs hefðu síðan endað með rifrildi og síðar ryskingum þegar Steinbergur vísaði þeim feðgum á dyr. Á endanum hafi Steinbergur síðan hrópað á hjálp og beðið samstarfsfélaga um að hringja á lögregluna þar sem hann sætti árás af hendi þeirra feðga. Kristinn viðurkenndi að hafa brotið blómavasa á leiðinni út af stofunni en þvertók fyrir að hafa beitt ofbeldi.

DV reyndi ítrekað að ná tali af Kristni í dag, án árangurs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu