Fólk sem er hliðhollt Ágústu Elínu Ingþórsdóttur, fráfarandi Skólameistara Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) segir fréttaflutning af málefnum skólans og Ágústu undanfarna mánuði vera einhliða. Ágústa hrökklaðist úr starfi um áramótin en hún tapaði dómsmáli gegn ríkinu þar sem hún krafðist enduskipunar til fimm ára í embætti á grundvelli þess að henni hefði ekki borist innan tilskilins tíma tilkynning um að menntamálaráðherra hyggðist auglýsa stöðuna laus til umsóknar.
DV greindi frá því síðastliðið haust ólga væri innan FVA vegna þáverandi skólameistara. Ennfremur að mikill meirihluti kennara við skólann hefði afhent menntamálaráðherra vantraustsyfirlýsingu á skólameistara. Meðal annars var Ágústa gagnrýnd fyrir að segja upp aðstoðarskólameistara sem vann dómsmál gegn ríkinu vegna uppsagnarinnar og voru dæmdar 5 milljónir króna í skaðabætur. Einnig var hún gagnrýnd fyrir að segja upp sjö ræstingakonum við skólann.
Sjá einnig: Átök á Akranesi og Kennarar við FVA hafa afhent ráðherra vantraustsyfirlýsingu á skólameistara
Eitt helsta óánægjuefni kennara við FVA var að ekki hafði tekist að gera stofnanasamning milli FVA og ríkisins eftir margra ára þóf. Slíkur samningur var undirritaður fyrir skömmu og færir hann kennurum við skólann verulegar kjarabætur. Nýjum skólameistara hjá FVA, Steinunni Ingu Óttarsdóttur, er þakkað þetta að miklu leyti.
„Ég held að það megi fullyrða að starfsfólk skólans sé hæstánægt með nýjan skólameistara. Þessi samningur var einn ásteytingarsteinninn milli kennarahópsins og fyrri skólameistara. Fyrri skólameistari gat ekki klárað þetta á fimm árum,“ segir heimildarmaður DV um þetta.
Í bréfi sem stuðningsaðilar Ágústu hafa sent DV segir að óstjórn hafi ríkt á mörgum sviðum í rekstri skólans þegar Ágústa Elín tók við embætti skólameistara árið 2015:
„Þegar hún kom til starfa var ljóst að bæta þurfti gæði skólastarfs og óstjórn ríkti á mörgum sviðum. Nemendum hafði fækkað með tilkomu nýrra framhaldsskóla á Vesturlandi og framundan var enn frekari fækkun nemenda vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Ekki bætti úr skák að fjárhagsstaða skólans var slæm, eigið fé neikvætt og kennslu-, tölvu- og tækjabúnaður hafði ekki verið endurnýjaður um árabil.“
Í bréfinu segir enn fremur að undir stjórn Ágústu hafi rekstri skólans verið komið í betra horf.
„Ágústa Elín fékk, sem eðlilegt var, skýr fyrirmæli frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu (MRN) þess efnis að stuðla þyrfti að betra skólastarfi, hallarekstur yrði ekki liðinn áfram og að nauðsynlegt væri að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla skólans frá fyrri árum til ríkissjóðs.
Með samstilltu átaki skólameistara og MRN, ásamt auknu innra eftirliti að tilmælum Ríkisendurskoðunar, tókst að færa skólastarf til betri vegar.
Uppsafnaður hallarekstur var greiddur upp á fyrsta starfsári Ágústu Elínar. Fjárfest var í nýjum kennslu-, tölvu- og tækjabúnaði, þegar búið var að koma böndum á fjármál stofnunarinnar, og er aðstaða nemenda og starfsfólks nú til fyrirmyndar.
Þegar Ágústa Elín lét af störfum í lok árs 2019 var uppsafnaður rekstrarafgangur, frá því hún hóf störf í byrjun árs 2015, á fjórða hundrað millj. kr. og laust fé á bankareikningum FVA um 300,0 millj. kr. Það má því segja að fyrrnefnt átak og eftirlit sé skólabókardæmi um mikla og afgerandi breytingu á rekstrarumhverfi og stjórnun hjá ríkisstofnun.“
Þá segir í bréfinu að forsvarsmenn stéttarfélaga hafi beitt sér gegn Ágústu:
„Forsvarsmenn stéttarfélaga starfsmanna voru ekki sáttir við að skólanum væri stjórnað með þeim hætti sem raun bar vitni. Formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, og fyrrverandi og núverandi formenn Félags framhaldsskólakennara, Guðríður Eldey Arnardóttir og Guðjón Hreinn Hauksson, reyndu ítrekað að koma höggi á fyrrverandi skólameistara í fjölmiðlum, gagnrýndu hana harðlega fyrir stjórn skólans og héldu fram að félagsmenn sínir hefðu verið hlunnfarnir.“
Í bréfi stuðningsmanna Ágústu er nýundirritaður stofnanasamningur gagnrýndur og þessar launahækkanir á tímum kórónukreppu taldar óviðeigandi:
„Stofnanasamningurinn felur í sér allt að 10% hækkun grunnlauna frá 1. janúar 2020, ásamt 400,000 kr. eingreiðslu og ýmsum auknum persónubundnum ívilnunum fyrir kennara og stjórnendur. Þessi stofnanasamningur felur í sér hækkun á launum og launatengdum gjöldum í FVA um allt að 50,0 millj. á ári. Því til viðbótar felur eingreiðslan í sér veruleg útgjöld sem nema mörgum milljónum króna.
Að gera slíkan stofnanasamning, þegar þjóðfélagið berst við heimsfaraldur og efnahagskreppu, er gagnrýnivert, og jafnframt óeðlilegt með vísan í lífskjarasamninga sem gerðir voru árið 2019. Þá er einnig umhugsunarvert hvort forstöðumaður hafi heimild til að greiða eingreiðslu til hluta starfsfólks skv. stofnanasamningi.“
Steinunn Inga Óttarsdóttir, núverandi skólameistari, á langa reynslu að baki sem framhaldsskólakennari og er sögð ötull talsmaður bættra kjara kennara. Hins vegar er athyglisvert að í yfirlýsingu sem Ágústa birti í október taldi hún launakröfurnar vera óraunhæfar. Þar sagði meðal annars:
„Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort kjarabarátta fagstétta eigi að fara fram með þessum hætti, og hvort forstöðumenn ríkisstofnana eigi að láta undan svona óraunhæfum kjarakröfum, til að ávinna sér vinsældir innan vinnustaðar. Forstöðumönnum ríkisstofnana ber skylda til að fara vel með opinbert fé og þeir bera ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög.“