fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FókusFréttir

Mögnuð upplifun á Íslandi í ferðabanni Trumps – Höfðu Bláa lónið út af fyrir sig

Auður Ösp
Miðvikudaginn 1. apríl 2020 20:09

Ljósmynd/Insider

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðakonan Chloé Pantazi fór í langþráð ferðalag til Íslands þann 12.mars síðastliðinn. Aðeins nokkrum mínútum eftir lendingu í Keflavík var henni tilkynnt að Donald Trump ætlaði að leggja á ferðabann milli Evrópu og Bandaríkjanna.  Á vef  Insider lýsir Chloé því hvernig draumaferðin tók óvænta stefnu og hversu sérstök upplifun það var að vera túristi á Íslandi næstu daga á eftir: miðborg Reykjavíkur var hálftóm og ferðamannastaðir meira og minna auðir vegna Covid-19 faraldursins.

Ein og yfirgefin

Chloé er frá Bretlandi en er gift Bandaríkjamanni og búsett þar í landi. Hún segir Ísland lengi hafa verið á listanum yfir draumaáfangastaði eftir að hún sá landinu bregða fyrir í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.

Þann 12.mars síðastliðinn hélt Chloé af stað til Íslands. Hún var um borð í flugvél Icelandair frá New York til Íslands á leiðinni til landsins þegar  Donald Trump Banda­ríkja­for­seti lýsti yfir banni við ferðum frá Evr­ópu til Banda­ríkj­anna til að reyna að hamla út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar. Aðeins nokkrum mínútum eftir lendingu fékk Chloé skilaboð frá eiginmanni sínum um fyrirhugað samgöngubann, en hann benti henni á að hún myndi líklega  geta komist heim snuðrulaust þar sem hún væri með lögheimili í Bandaríkjunum. Ferðabann Trumps nær ekki til þeirra sem eiga lögheimili í landinu eða eru bandarískir ríkisborgarar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti

 „Planið var að fara til Reykjavíkur, þar sem ég ætlaði að hitta vinkonu mína frá Bretlandi seinna um daginn og ég vissi að ég þyrfti að halda ró minni í öllum æsingnum,“

ritar Chloé og bætir við að á þessum tímapunkti hafi hún fundist hún vera algjörlega ein og yfirgefin. Hún gekk í leiðslu í gegnum komusalinn á Keflavíkuflugvelli, fyrst framhjá pappaspjaldi af manni í hlífðarbúningi sem minnti fólk á að þvo sér um hendurnar, og síðan gegnum í tollinn og í átt að farangursbandinu. Fulltrúar Icelandair gátu takmarkaðar upplýsingar gefið þegar hún leitaði til þeirra:  það átti eftir að halda starfsmannafund og fara yfir málið. Henni var ráðlagt að fylgjast með tilkynningum á vefsíðu flugfélagsins og í tölvupósti.

„Ég óttaðist að fluginu mínu heim hefði verið aflýst og  fór að plana í huganum hvað ég ætlaði að gera ef ég kæmist ekki til baka frá Íslandi til Bandaríkjanna,“

ritar Chloé.

Á meðan ég beið eftir töskunni reyndi ég að hlusta eftir Bandaríkjahreim í kringum mig, en flestir af farþegunum virtust þó vera Íslendingar á heimleið. Ég ræddi við hóp af Bandaríkjamönnum sem áttu erfitt með að trúa þessu öllu saman en þau voru harðákveðin í að klára ferðalagið, nema það yrði hert á reglunum eða flugferðum aflýst. Ég hugsaði með mér hvort ég ætti að gera það sama, ég vildi ekki að vinkona þyrfti að breyta sínum ferðaplönum, og ég vildi ekki skilja hana eftir eina á Íslandi, en ég var hrædd um að ég myndi enda sem strandaglópur á Íslandi ef ég myndi bíða of lengi með að fljúga heim.“

„Trump vildi fá ferðabannið sitt“

Hún  lýsir því hvernig útsýnið var ægifagurt þar sem hún sat í rútu á leiðinni frá Keflavíkur  til Reykjavíkur þennan morgun. Sólarupprás, snævi þakin fjöll og snjór. Náttúrufegurðin fór hins vegar alveg fram hjá henni. Hún var nefnilega föst í símanum að fylgjast með nýjustu fréttum af ferðabanninu, leita uppi flugferðir og senda skilaboð á áhyggjufulla vini og ættingja.

„Trump vildi fá ferðabannið sitt, það er það sem þetta er,“ sagði annar Bandaríkjamaður sem sat fyrir aftan mig, og hristi hausinn.“

Chloé segist hafa gert varaáætlun og bókað flug til Bretlands frá Íslandi og þaðan yfir til Bandaríkjanna. Tveimur dögum síðar var ferðabannið víkkað út og náði þá einnig til Bretlands en Chloé segist hafa haldið sig við bókunina þar sem fjölskylda hennar býr í Bretlandi, og hún gæti þá orðið strandaglópur þar, frekar en á Íslandi.

Covid-19 faraldurinn átti eftir að hafa margvísleg áhrif á Íslandsheimsóknina. Chloé hafði bókað gistingu í gegnum Airbnb og þegar gestgjafinn tók á móti henni bauðst hann til að færa hana yfir í stærri íbúð fyrir sama verð þar sem að annar gestur hafði afbókað.

Í sjónvarpinu voru eintómar fréttir af Covid-19 faraldrinum og að sjálfsögðu þurfti að gæta að handþvotti og sprittun í hvívetna.

„Ég og vinkona mín vorum „heima“ í Airbnb íbúðinni flest öll kvöldin, horfðum á „Love is Blind“ og forðuðumst að vera innan um margt fólk. Ekki það að við höfum séð margt fólk á ferli.“

Ljósmynd/Insider

Chloé segir að það hafi verið rólegt yfir Reykjavík þessa daga en engu að síður hafi litið út fyrir að lífið héldi áfram sinn vanagang: opið var í verslunum, á börum og á veitingastöðum.  Þá var ekki búið að aflýsa þeim hópferðum sem hún hafði bókað: Gullna hringinn og Suðurlandið, Norðurljósatúr og hestaferð. Alls staðar var þó gætt að því á að halda fjarlægð á milli fólks og hvarvetna mátti sjá sprittbrúsa.

„Það vakti hrifningu mína hvað Íslendingar voru fljótir að grípa snemma til varúðarráðstafana og tryggja þannig öryggi fólks.“

Hún segist hafa verið staðráðin í að láta fréttir af ferðabanninu ekki eyðileggja Íslandsferðina. Óvissan varðandi heimförina hafi þó stöðugt leitað á hana.

 „Það hjálpaði að Ísland er fallegt land, þannig að ég gat aðeins dreift huganum og notið mín. Ég kveið heimförinni, en ég vissi að það væri ekkert sem ég gæti gert annað en að halda ró minni og taka því sem að höndum bæri.“

Sérstök stemning

Chloé átti bókað flug frá Keflavík til Newark flugvallar í New York þann 17.mars. Degi fyrir brottför barst henni tilkynning frá Icelandair  um að búið væri að breyta fluginu og í kjölfarið var hún færð yfir í flug til JFK flugvallarins í New York sem var áætlað sama dag.

Á leiðinni uppá Keflavíkurflugvöll þann 17.mars heimsótti Chloé Bláa Lónið og fyrrnefnd vinkona hennar var henni samferða, en hún átti bókað flug heim til Bretlands sama dag. Þær vinkonur höfðu  bókað miða í Lónið með margra vikna fyrirvara, enda vissu þær að það væri einn allra vinsælasti ferðamannastaðurinn á Íslandi. Þegar þær komu á staðinn var þar nánast enginn.

Ljósmynd/Insider

„Það mátti nánast heyra nál detta fyrir utan innganginn,“ ritar Chloé  og bætir við að þær hafi mætt örfáum hræðum í búningsklefanum og í sturtunum.  Í lóninu sjálfu voru nokkrir sem svömluðu um með drykk í hönd og reyndu að halda fjarlægð á milli sín. Starfsfólk afhenti gestum andlitsmaska íklætt hönskum og ekki var hægt að bjóða upp á nudd eða snyrtimeðferðir.

Hún segir að það hafi verið „súrsæt“ upplifun að hafa nánast allt Bláa Lónið út af fyrir sig. Þær stöllur horfðu á gufustróka stíga upp úr lóninu og út í loftið og það hafi aukið á dulúðina. Þær ákváðu þó að reyna eftir fremsta megni að njóta heimsóknarinnar, og það tókst.

„Á þessum seinasta degi ferðarinnar var skrítið að sjá Bláa Lónið nánast tómt. Það var eins og andrúmsloftið væri annað en áður. Þetta virtist vera rétti tíminn til að kveðja landið.“

Þá lýsir hún fluginu með vél Icelandair heim til Bandaríkjanna. Andrúmsloftið var að hennar sögn nokkuð sérstakt. Vélin var í stærri kantinum, þrjár sætaraðir og hver röð með þrjú sæti. Aðeins örfáir farþegar voru um borð og dreifðust þeir um alla vélina.

 „Frá mínu sæti leit vélin út fyrir að vera nánast tóm. Þetta var án efa hljóðlátasta flugferð sem ég hef farið í á ævinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis