fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Fréttir

Fullyrðir að fréttamaður RÚV hafi skrifað frétt um atburð áður en hann fór fram – „Hér er textinn“

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 17. desember 2020 16:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fréttamaður Ríkisútvarpsins, var í tölvupóstsamskiptum við framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á fimm vikna tímabili í aðdraganda húsleitar hjá Samherja. Fréttamaðurinn skrifaði frétt um húsleitina og sendi framkvæmdastjóranum til yfirlestrar, daginn áður en húsleitin fór fram. Framkvæmdastjórinn áframsendi fréttina innan Seðlabankans.“

Svona hefst pistill sem Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóra Samherja, skrifar en pistillinn birtist á Vísi. „Hinn 4. desember síðastliðinn fékk Samherji afhent tölvupóstsamskipti milli fréttamanns RÚV og fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Um er að ræða tuttugu tölvupósta yfir fimm vikna tímabil, frá 20. febrúar 2012 til 26. mars 2012, í aðdraganda húsleitar hjá Samherja og umfjöllunar Kastljóss hinn 27. mars 2012.“

Björgólfur segir að það hafi tekið Samherja fimm ár að fá aðgang að þessum samskiptum. „Enda hefur því ítrekað verið neitað að þau hefðu átt sér stað, meðal annars fyrir dómstólum. Hér má rifja upp að Samherji höfðaði mál gegn Seðlabankanum á árinu 2014 og krafðist þess meðal annars að fá afhent gögn um samskipti bankans við fjölmiðla í aðdraganda húsleitarinnar,“ segir hann.

„Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fullyrti Seðlabankinn að öll slík gögn hefðu þegar verið afhent. Ekki hefðu verið til staðar önnur gögn um samskipti við fjölmiðla en tvær fréttatilkynningar. Þar sem Samherji gat ekki sýnt fram á að fleiri skjöl væru fyrir hendi var kröfu fyrirtækisins vísað frá. Þannig sagði Seðlabanki Íslands beinlínis ósatt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um samskiptin við Ríkisútvarpið.“

„Farðu yfir þetta og láttu mig vita sem allra, allra fyrst.“

Björgólfur segir að í einum af tölvupóstunum milli fréttamanns RÚV og framkvæmdastjóra Seðlabankans hafi verið að finna drög að frétt um húsleit. Björgólfur segir að pósturinn hafi þó verið sendur áður en húsleitin var framin. Björgólfur birtir því næst texta sem hann segir hafa verið í tölvupóstinum. Hér fyrir neðan má sjá þann texta.

„Sæl. Hér er textinn, örlítið endurskrifaður. Farðu yfir þetta og láttu mig vita sem allra, allra fyrst.“

Með fylgir svo texti sem var síðan fluttur í Kastljósi en þar segir: „Kastljós lagði gögn varðandi afurðasölu Samherja fyrir gjaldeyriseftirlit Seðlabankans á dögunum og óskaði eftir mati eftirlitsins á því hvort um lögbrot væri að ræða. Forstöðumenn eftirlitsins fengust ekki til að leggja mat á málið á þeim tímapunkti. Eftir því sem næst verður komist hófst þó í framhaldinu rannsókn á málinu sem leiddi til húsleitar á skrifstofum Samherja í Reykjavík og Akureyri í morgun með aðstoð embættis sérstaks saksóknara.“

„Málið reyndist svo handónýtt“

Eins og áður segir vill Björgólfur meina að fréttamaður RÚV hafi verið búin að fá upplýsingarnar um húsleitina og skrifað fréttina áður en húsleitin fór fram. „Tölvupóstsamskiptin staðfesta það sem stjórnendur Samherja hafa grunað allan þennan tíma enda vakti það furðu á sínum tíma að fréttamenn Ríkisútvarpsins voru mættir á skrifstofur Samherja áður en húsleitin hófst. Þannig fór húsleitin fram nánast í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu og er það líklega án fordæma hér á landi,“ segir Björgólfur í pistlinum.

„Enn fremur liggur fyrir að fréttamaðurinn og framkvæmdastjórinn ræddu ákveðið „vitni“ og að hann vildi breyta sinni frásögn sem þeim þótti greinilega mjög óheppilegt en breytti samt engu í þeirra huga um framgang málsins. Málið reyndist svo handónýtt þegar á reyndi fyrir dómstólum.“

„Undir hvaða kringumstæðum getur þetta talist forsvaranlegt?“

Björgólfur segir að mörgum spurningum í málinu sé ósvarað. „Er það eðlilegt að háttsettur stjórnandi ríkisstofnunar sem fer með valdheimildir sé í samskiptum við fréttamann um framvindu rannsóknar á nafngreindu fyrirtæki, upplýsi viðkomandi fréttamann um að húsleit sé í bígerð hjá fyrirtækinu og fái frétt um húsleitina senda til yfirlestrar daginn áður en húsleitin fer fram?“ spyr hann og heldur áfram.

„Undir hvaða kringumstæðum getur þetta talist forsvaranlegt? Og hvers vegna sagði Seðlabanki Íslands ósatt um samskiptin við Ríkisútvarpið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur? Hefur það engar afleiðingar fyrir þá starfsmenn og stjórnendur bankans sem eiga í hlut?“

Að lokum segir Björgólfur að framganga fréttamannsins í þessu máli eigi ekkert skylt við heiðarlega fréttamennsku. „Enda er það varla hluti af skyldum fréttamanna að stunda einhvers konar samráð með ríkisstofnunum í aðgerðum gegn fyrirtækjum út í bæ. Ekkert hefur hins vegar heyrst í stjórn og stjórnendum Ríkisútvarpsins vegna málsins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Silva aftur heim
Fréttir
Í gær

Segja að Rússar hyggist neyða íbúa á herteknu svæðunum til herþjónustu

Segja að Rússar hyggist neyða íbúa á herteknu svæðunum til herþjónustu
Fréttir
Í gær

Klæddist eins og ruslapoki til að stela tveimur hleðslutækjum – „Ég hélt að einhver væri að grínast í mér“

Klæddist eins og ruslapoki til að stela tveimur hleðslutækjum – „Ég hélt að einhver væri að grínast í mér“
Fréttir
Í gær

Fríkirkjan Kefas fær að standa – Lýður taldi sig eiga lóðina

Fríkirkjan Kefas fær að standa – Lýður taldi sig eiga lóðina
Fréttir
Í gær

Tíðindi hjá Sverri Einari: B5 hættir starfsemi en Exit heldur áfram

Tíðindi hjá Sverri Einari: B5 hættir starfsemi en Exit heldur áfram
Fréttir
Í gær

Stefán Einar svarar fyrir sig – Segir ómerkilega menn hafa ráðist á eiginkonu hans – „Þá skortir sómakennd til að sjá að sér“

Stefán Einar svarar fyrir sig – Segir ómerkilega menn hafa ráðist á eiginkonu hans – „Þá skortir sómakennd til að sjá að sér“
Fréttir
Í gær

Elín Hirst óttast um velferð föður síns

Elín Hirst óttast um velferð föður síns