fbpx
Þriðjudagur 24.nóvember 2020
Fréttir

Draugur 2016-klúðurs Demókrata vofir enn yfir kosningunum

Heimir Hannesson
Föstudaginn 23. október 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Biden mælist nú með yfirgnæfandi stuðning bandarískra kjósenda. Sambærileg staða var uppi árið 2016, en lauk svo eftirminnilega með óvæntum sigri Trumps. Getur Trump endurtekið leikinn?

Þegar tæpar tvær vikur eru til kosninga í Bandaríkjunum virðist Demókratinn Joe Biden óstöðvandi. Hann mælist með yfirgnæfandi stuðning í öllum þeim ríkjum sem máli skipta og fjáröflun Demókrata, sérstaklega Bidens, slær met í hverjum mánuði. Á meðan þarf Donald Trump Bandaríkjaforseti að sætta sig við að draga úr birtingu auglýsinga á stöðum þar sem hann þarf nauðsynlega á þeim að halda sökum fjárskorts.

Á sama tíma elta hneykslismál Trump og lítið virðist ganga hjá forsetanum að koma þeim málefnum sem honum eru þóknanleg í umræðuna. Í vikunni bárust svo þær fregnir að meirihluti kjósenda hefði meiri trú á efnahagsstefnu Bidens en Trumps. Fauk þar síðasta tromp Trumps.

En, hér er vert að staldra við. Hefur þessi saga ekki verið sögð áður? Var það ekki svo að sigur Donalds Trump árið 2016 var útilokaður?

Sigur Clinton talinn óumflýjanlegur

Í októberbyrjun árið 2016 birti Washington Post ellefu ára gamlar upptökur af Donald Trump ræða við þáttarstjórnanda NBC-sjónvarpsstöðvarinnar og mátti þar heyra Trump segja að sökum frægðar sinnar kæmist hann upp með að gera hvað sem er við konur. „Ég laðast að fegurð. Þetta er bara eins og segull. Ég bíð ekki einu sinni, ég bara byrja að kyssa þær,“ sagði Trump. „Þegar þú ert stjarna þá leyfa þær manni að gera það. Maður getur gert hvað sem er. Gripið í klofið á þeim. Þú getur gert hvað sem er.“

Margir töldu þetta endalok framboðs Donalds Trump. Mánuður var í kosningar og tveir dagar í kappræður Trumps og Clinton þegar upptökurnar birtust.

Kappræðnanna var beðið með talsverðri eftirvæntingu og vakti útspil Trumps í aðdraganda þeirra furðu áhorfenda. Tveimur klukkustundum áður en kappræðurnar áttu að hefjast í beinni útsendingu boðaði Trump til blaðamannafundar. Fyrir svörum sátu hann sjálfur, Paula Jones, Kathleen Willey, Juanita Broaddrick og Kathy Shelton. Konurnar fjórar höfðu áður komið við sögu í tengslum við Clinton-fjölskylduna. Jones, Willey og Broaddrick höfðu sakað Bill Clinton á forsetatíð hans um kynferðislega áreitni og Hillary Clinton var lögmaður nauðgara Kathy Shelton.

Blaðamannafundur Trumps skilaði sínu. Umræðan afvegaleiddist og Trump náði vopnum sínum aftur í tæka tíð fyrir kappræðurnar seinna það sama kvöld.

Engu að síður sögðu skoðanakannanir að sigur Clinton væri óumflýjanlegur. Hún var með afgerandi forskot í bláum ríkjum og sveifluríkin voru hennar að tapa. 8% forskot í Wisconsin og 6% í Pennsylvaníu, til dæmis. Þetta var í höfn hjá henni, sögðu þeir.

Tölvupóstarnir knýja á dyr

Þann 26. október var Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York og stuðningsmaður Donalds Trump, í viðtali á Fox News og var þar spurður út í þverrandi fylgi „síns manns“. Giuliani var alls ekki tilbúinn til þess að lýsa yfir ósigri á þeim tíma, og sagði að Trump ætti eftir að „koma á óvart á næstu tveimur dögum“. Enginn vissi þá hvað hann átti við.

Daginn eftir settist James Comey, forstjóri FBI, niður með stjórnendateymi sínu í höfuðstöðvum alríkislögreglunnar í Washingtonborg. Tilefni fundarins var þúsundir tölvupósta sem höfðu fundist í einkatölvu Anthonys Wiener. Þingmaðurinn Wiener var þá undir rannsókn FBI fyrir að hafa sent myndir af kynfærum sínum á stúlkur undir lögaldri. Eiginkona Wieners var og er enn einn nánasti ráðgjafi Hillary Clinton. 28. október sendi Comey bréf á valda öldungadeildarþingmenn þar sem hann tilkynnti að rannsóknin yrði opnuð á ný. Efni bréfsins til þingmannanna lak nánast samstundis í fjölmiðla.

Rannsóknin var aðalfrétt og svo til það eina sem rætt var af stjórnmálaskýrendum í fréttatímum næstu daga. Löngu síðar sagði Hillary Clinton að ef kosið hefði verið 27. október væri hún forseti. Raunin varð önnur.

Óvæntustu úrslit sögunnar

Hillary vann meirihluta atkvæða í þessum kosningum, en þar sem Trump tókst að merja út nauman sigur í lykilríkjum tryggði hann sér meirihluta kjörmanna og Hvíta húsið. Var það í fjórða sinn í sögu Bandaríkjanna sem forsetaframbjóðandi sigrar án meirihluta atkvæða. Áður var minnst á yfirburði Clinton í skoðanakönnunum í sveifluríkjunum Pennsylvaníu og Wisconsin. Trump sigraði í báðum ríkjum. Óvæntu úrslitin voru fleiri. Í Alaska mældist Hillary með 4% forskot í lok október. Trump sigraði með 15%.

Ef niðurstöður áreiðanlegra skoðanakannana á síðustu dögum kosningabaráttunnar 2016 eru skoðaðar, og forskot frambjóðendanna er lagt saman, má sjá að Donald Trump hafði samanlagt 90% forskot á Hillary. Hér verður að athuga að ekki er tekið tillit til vægis hvers ríkis, og „rauðu ríkin“ eru fleiri og smærri en þau bláu. Samanlagt forskot Trumps í kosningunum reyndist 280%, samkvæmt sama mælikvarða.

Fjórum árum síðar virðast stjórnmálaskýrendur og fræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að tölvu Wieners, James Comey og tölvupóstunum var ekki einum um að kenna. Skekkja var í niðurstöðum könnuðanna. Munurinn, skekkjan, sveiflan, hvað sem það má kalla, var einfaldlega of mikil og útbreidd.

Margar skýringar eru á þessu og eflaust margt til í þeim mörgum. Ein þeirra er einkar áhugaverð og gæti einnig átt við um kosningarnar 2020. Hún snýr að því að vegna mjög neikvæðrar orðræðu Demókratanna og fjölmargra fjölmiðla um Donald Trump og stuðningsmenn hans, veigruðu margir sér við að opinbera stuðning sinn við Trump. Þannig voru þeir ólíklegri til þess að taka þátt í skoðanakönnunum þegar spyrlar hringdu eða bönkuðu á dyr.

Þar sem könnuðir ráða för

Bandarísk stjórnmál standa og falla með skoðanakönnunum og ræðst pólitísk herferð að mjög miklu leyti af niðurstöðum þeirra. Ef kannanir 16 voru rangar eru miklar líkur á að aðferðir og áherslur í kosningabaráttu Clinton hafi verið rangar líka.

Fjölmiðlar og skoðanakönnuðir lærðu sína lexíu, að vissu leyti. Vefsíðan 538 sem sérhæfir sig í samantekt á skoðanakönnunum í Bandaríkjunum spurði skoðanakönnuði hvaða skref þeir hefðu tekið í kjölfar áfallsins 2016. Algengasta svarið var að vega menntun inn í niðurstöður.

Það er ljóst að niðurstaðan 2016 hefur mikil áhrif á baráttuna nú. Þrátt fyrir gríðarlegt forskot Bidens, það mesta sem sést hefur í áratugi á þessu stigi baráttunnar, er hvergi slegið af og bersýnilega mun minni áhersla lögð á að fylgja skoðanakönnunum.

Engu að síður er ekki hægt að horfa fram hjá því að árið 2016 var forskot Hillary á landsvísu um 2% og henni hafði verið spáð um 4% forskoti. Forskotið skilaði sér bara ekki á réttum stöðum. Nú mælist Biden með rúmlega 10% forskot á landsvísu og flestir stjórnmálaskýrendur eru sammála um að ef Trump ætlar sér að endurtaka leikinn frá því fyrir fjórum árum þarf eitthvað stórkostlegt að gerast. Fyrir Biden gildir því fram að kosningum sú sígilda mantra: „No news, is good news.“

Allra augu á Flórída

Hvað framhaldið varðar má fastlega gera ráð fyrir að Biden muni áfram halda sig nokkuð til hlés. Sem fyrr sagði er kosningasjóður Bidens mun sterkari en sjóðir Repúblikana sem gerir Biden kleift að keyra kosningabaráttu sína áfram á kostuðum auglýsingum sem teknar eru upp í öruggu og ritskoðuð umhverfi. Á meðan þarf Trump að halda áfram sínum fjöldafundum þar sem hann er vís til hvers sem er. Þó að þeir fundir hafi sögulega skilað sínu og virðast kveikja í áhuga almennings og virkja stuðningsmenn Trumps til aðgerða í kosningabaráttunni, er pólitískt landslag Bandaríkjanna einkar eldfimt um þessar mundir. Illa undirbúið orðalag, eitt hik, svipbrigði á óhentugum tíma í máli Trumps, allt þetta getur markað endalok fyrir frambjóðanda sem berst nú fyrir sínu pólitíska lífi.

Ef taka ætti niðurstöður 2016, samanborið við niðurstöður kosninganna, sem spá um það sem koma skal er ljóst að Biden mun bera sigur úr býtum. Munurinn er slíkur að jafnvel meiriháttar skekkja eins og reyndist vera í síðustu forsetakosningum vestanhafs myndi ekki einu sinni nægja Trump. Engu að síður er hættulegt fyrir Demókrata að gera sér of miklar væntingar á þessum tímapunkti. Demókratar verða að berjast til síðasta blóðdropa ef þeir ætla að koma í veg fyrir álíka viðsnúning á lokametrunum og árið 2016.

Skoðanakannanir sýna nú Biden yfir í Arizona (+3,8%), Flórída (+2,7%), Georgíu (+1,3%), Iowa (+0,8%), Michigan (+7,5%) og Minnesota (+7,9%). Ljóst er að augu allra munu beinast að Flórída á kjördag. Ef nota má kosningarnar 2016 sem mælistiku verður hægt að nota Flórída sem mælikvarða á fylgissveiflu og skekkju í skoðanakönnunum. Flórída er líka á austasta tímabelti Bandaríkjanna, svo þar verður kjörstaðir opnaðir og þeim lokað fyrr en annars staðar. Ef fyrstu tölur af kjörstöðum í Flórída reynast jákvæðar fyrir Donald Trump getur hvað sem er gerst í kjölfarið.

Ef Biden heldur Flórída lokast flestar dyr á Trump og möguleika hans til endurkjörs. Ef fréttir taka að berast á kjördegi af óvæntum úrslitum í Flórída eru Pennsylvanía og Georgía næstu ríkin sem fylgjast ætti með. Þau eru á sama tímabelti og Flórída og fámennari og ættu því úrslit þar að vera ljós fyrr en úrslitin í miðríkjunum Michigan, Minnesota og Iowa. Trump þarf á slíkri röð óvæntra úrslita að halda. Það er hans eina von eins og staðan er í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maður sem flytur inn flugelda sakaður um ítrekað ónæði – „Þú ert ófær um að taka tillit til bæði manna og málleysingja“

Maður sem flytur inn flugelda sakaður um ítrekað ónæði – „Þú ert ófær um að taka tillit til bæði manna og málleysingja“
Fréttir
Í gær

Hundruð Íslendinga á leið til Kanarí um jólin

Hundruð Íslendinga á leið til Kanarí um jólin
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lenti í slysi utandyra

Lenti í slysi utandyra
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Þeir lömdu mig hreinlega í köku“- Ómar opnar sig um alvarlega líkamsárás á Spáni – „Hver sem er getur lent í þessu“

„Þeir lömdu mig hreinlega í köku“- Ómar opnar sig um alvarlega líkamsárás á Spáni – „Hver sem er getur lent í þessu“